Lengi getur vont versnað

Ég hélt að ég hefði náð nýjum hæðum í að vera upptekin síðustu þrjá blogglausu mánuði en það virðist hafa verið misskilningur af minni hálfu. Framundan er 10 daga fundur í Utrecht í Hollandi, boð á Bessastöðum ásamt hátíðarkvöldverði á vegum vinnunnar, endalaus verkefni í skólanum, ESN skýrslur og viðburðir, styrkbeiðnir, vinna, skóli, afró og þar fram eftir götunum.

Á barmi örvæntingar leitaði ég leiða til að skipuleggja líf mitt svo að það færi ekki allt í klessu og mundi þá skyndilega eftir Google Calendar. Eftir það var ekki aftur snúið og nú er Google með upplýsingar um hvert einasta smáatriði sem gerist í mínu lífi. Til að gefa ykkur smá hugmynd um af hverju ég greip til þessa ráðs, ákvað ég að birta hér planið fyrir marsmánuð. Takið endilega eftir „more“ valmöguleikanum þar sem það á við.

dagatal

Grænt er skólinn, fundir á vegum vinnunnar, alls kyns hittingar, afmæli og það sem ég þarf að gera heima fyrir. Fjólublár er lestraráætlun og verkefnaskil í skólanum. Blár er ESN dagatalið og appelsínugulur eru tímar í Baðhúsinu sem mig langar að mæta í og það er fræðilegu möguleiki að ég komist.

Á sama tíma og ég uppgötvaði Google Calendar fékk ég mér 3G síma hjá Nova. Hann er mun tæknilegri en gamli garmurinn minn og meðal annars hef ég beina tengingu við Google Calendarið mitt þar inni. Þar fyrir utan eru alls kyns skiplagsstillingar sem gera það að verkum að ég er orðin minnismiða og To-Do lista óð jafnframt því sem síminn pípir að meðaltali 4 sinnum á dag til að minna mig á eitthvað. Þannig að þegar að ég held á þessum ágæta síma má með sanni segja að ég sé með lífið í lúkunum!

Ég biðst hér með fyrirfram afsökunar á því að hafa aldrei tíma til að hitta neinn! Góðar stundir.

3 athugasemdir

Filed under Almennt röfl

Ástkæru lesendur

Ég er ekki hætt að blogga. Það vill bara þannig til að ég er ekki búin að blogga í rúma tvo mánuði. Það var ekki með vilja gert né heldur vildi ég særa mína tryggu þrjá lesendur eða svo. Ég er bara búin að vera fáránlega upptekin.

Nú væri rökrétt að koma með ástæður þess hvers vegna ég hef ekki sést mikið á blogginu undanfarið en ég nenni ekki að fara í það í löngu máli. Eldsnöggt og á hundavaði þá eru ástæðurnar eftirfarandi:

1) Skólinn:
Endalausar ritgerðir í nóvember, jólapróf í desember, sjúkrapróf í janúar og svo bara byrjaði skólinn aftur á fullum krafti. Kellan kom samt vel undan vetri og er með 8.5 í meðaleinkunn eftir þessa fyrstu önn. Viðunandi árangur miðað við vinnuframlagið á önninni en er örlítið súr út í eina einkunnina sem dregur meðaltalið niður. Hef ákveðið að taka prófið aftur næstu jól og klárlega fá 10!

2) Couchsurfing:
Var agalega dugleg að blanda geði við sófasörfara síðustu mánuði ársins og  varð í kjölfarið City Ambassador fyrir Reykajvík. Á að vera að skipuleggja hitting og dytta að á heimasíðunni en hef lítið komist í slíkt núna eftir áramótin.

3) ESN Reykjavík
Sigga Player plataði mig í að taka þátt í ESN (Erasmus Student Network) sem eru skiptinemasamtök / vinnuhópur um hagsmuni erlendra nema undir stúdentaráði. Það fer ekki mikið fyrir hagsmunabaráttunni í bili en nóg er um partýin, fjörið, glauminn og gleðina. Erum búin að fara á skíði, skauta, halda þorrablót og ég veit ekki hvað og hvað.

4) Vinnan
Ég er enn að vinna og það tekur sinn tíma.

5) Afmælispartýið
Við Silja héldum klárlega partý aldarinnar… ja eða allavega partý febrúarmánuðs. Fengum svo lítinn Eddu og Steindórsson í afmælisgjöf.

6) Kærastinn
Ákvað að taka þetta kærastamál bara með trompi og gerast kærasta. Héldu margir að himinn og jörð væru að farast þegar að ég, af öllum,  var mætt í Fjölskyldu-og húsdýragarðinn einn sunnudagsmorguninn fyrir hádegi með dóttur fyrrnefnds kærasta ásamt vinkonu. Allt í einu er ég komin með allt er varðar álfa á hreint (vissuð þið til dæmis að Skellibjalla er viðgerðarálfur sem gerir við potta og pönnur?) og hef lítið sést á mínu eigin heimili svo vikum skiptir. Það er mun einfaldara að vera kærasta en ég hélt til að byrja með. Fólk getur samt beðið rólegt með brúðargjafir eða barnatal, það er ekkert á dagskrá á næstunni!

7)Gítarinn:
Fékk gítar í afmælisgjöf. Finnst þetta besta gjöf sem ég hef fengið lengi og ÆTLA að læra að spila á hann.

Svo er nú það. Over and out.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið, Sófasörf

Tjarnargötufréttabréfið 1.tbl. 1árg.

Ég þjáist af ritstíflu. Það er ekki nóg með að ég sé komin með ógeð af skriftum eftir fáránlega ritgerðatörn í nóvember, og síðustu ritgerðina sem ég á að skila á morgun og er að reyna að berja saman í þessum töluðu orðum, heldur er ég uppurin af hugmyndum og sniðugheitum. Það er ekki vottur af húmor eftir í hláturtaugunum og þeir ömurlegu brandarar sem ég reyni þó að koma frá mér brotlenda harkalega áður en þeir ná til viðtakanda. Ég er leiðinleg!

Annars er það helst að frétta að mér hefur mögulega tekist að falla í fyrsta skipti í háskólaprófi. Vissi ekki að ég hefði þetta í mér, sérstaklega ekki eftir að hafa setið í 6 daga sveitt við lestur. Ég hef hingað til látið mér nægja að læra dag eða tvo fyrir próf og hef þannig fleytt mér áfram. Glósað þetta helsta og vonað það besta. En alþjóðastjórnmálakennarinn  ákvað bara að nú væri tími til kominn að kenna mér hvar Davíð keypti ölið og mætti galvösk á prófdag með svínslegasta próf sem ég hef séð í áraraðir. Því fleiri dagar sem líða frá þessu ágæta prófi, því sannfærðari verð ég um eigin heimsku. Hef þó ákveðið að taka á þessu með stóískri ró og mun þá bara taka upptökupróf í janúar ef illa fer. Það grátlega er að þetta er eina fagið sem ég hafði einhvern metnað í og ég mætti í hvern einasta tíma, sem er meira en ég get sagt um hin námskeiðin (hóst). Það er huggun harmi gegn að ég hef ekki heyrt af neinum sem gekk vel í þessu prófi. Ég er í það minnsta bara jafnheimsk og hinir.

Já og svo er ég að hitta gaur. Hann er ekki útlenskur, ekki lítill og ekki hálfviti. Eiginlega bara alveg fáránlega almennilegur. Einhverra hluta vegna þá er hann líka agalega skotinn í mér. Klárlega gengur hann ekki heill til skógar.

4 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið

Nýr fídus í þessu ágæta wordpress kerfi

Betri færsla kemur fljótlega.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Ensk-íslensk orðabók

ex-haust-ed

l. búinn, uppurinn, tómur, tæmdur. 2. dauðuppgefinn, magnþrota, örmagna, lémagna, dasaður, máttfarinn, máttlaus.

Önnin er ekki einu sinni búin ennþá. Langar að sofa í heila öld. Eða, geta bara sofið eitthvað. Rauðsprungin augu og lífvana hár. Ekki gott lúkk.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Hamingjustaðurinn

Um helgina fór fram andleg hreinsun. Það er ekkert eins gott eins og góður skandall til þess að koma sér á réttan kjöl eftir langt óreiðutímabil. Eins og alkarnir verður maður að ná botninu áður en enduruppbyggingin getur hafist. Hafði leyft kreppunni, veikindi ástvina og almennum leiðindum að byrgja mér sýn á það sem skiptir máli. Er búin að ganga í gegnum of margt í lífinu til þess að láta einhver smáatriði skemma fyrir mér. Ég tók á sínum tíma afdrifaríkar ákvarðanir sem voru ekki bara erfiðar heldur ollu mér líka miklum sársauka. Ég reyni alltaf að hugsa þegar myrkrið og depurðin vilja taka yfir að ef ég játa mig sigraða og leyfi þessum fornu fjendum að hlaupa frjálsum að ég hafi sigrast á fyrrnefndum sársauka til einskis. Það er ekki bara óvirðing við sjálfa mig heldur einnig við alla þá sem hjálpuðu mér að rata út úr þeim ógöngum. Að hugsa málin svona er merkilega gott spark í rassinn.

Ég, eins og hagkerfið, mun stíga tvíefld upp úr öskustónni og springa út eins og blóm að vori. OK, missti mig aðeins í dramanu þarna. Það er bara betri stígandi í hrynjanda færslunar ef hún er barmafull af dramatík.

Annars á ég óbrigðult ráð við þunglyndi sem ég nota mikið á tímum sem þessum. Alltaf þegar að ég er að kafna í snöru eigin áhyggja þá loka ég augunum og fer á hamingjustaðinn minn eins og Phoebe í Friends kallaði það. Ég þarf ekki mikið að einbeita mér til þess að vera komin aftur á Nam Song ánna í Laos þar sem ég flýt lúsarhægt niður með straumnum í sólskininu á uppblásinni dekkjarslöngu. Ég finn lyktina í loftinu, sólina í andlitinu á mér og heyri í hlæjandi krakkaskara sem leikur sér glaðbeittur meðal jórtrandi buffalóa í ánni. Ekkert getur sett mig úr jafnvægi þessa örskotsstund sem ég dvel þarna í sólinni og ég kem brosandi tilbaka í grámyglulegan raunveruleikann. Klikkar aldrei.

Ég vildi svo í framhaldinu óska þess að ég gæti farið á einhvern hamingjustað hagfræðinga og þeirra sem sérhæfa sig í alþjóðasamskiptum og spurt þá aðeins út í alþjóðahagkerfið í tengslum við andstæðinga hnattvæðingar. Það myndi hjálpa mér mikið í ritgerðaskrifunum framundan.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl

Sunnudagar til mæðu?

Það eru allir með krabbamein eða veikir þessa dagana. Amma er hárlaus og þolir illa lyfjagjöfina sem hún er í og mér brá skelfilega að sjá hana um daginn. Við vorum þá staddar í jarðarför hjá föður konunnar hans pabba sem hafði loksins tapað baráttunni við sinn krabba. Ég vissi ekki hvort ég átti að gráta yfir því að þessi indæli maður sem ég þekkti þó lítið væri farin yfir móðuna miklu eða yfir útlitinu á ömmu minni sem er að hverfa sökum þess að hún getur ekkert borðað. Þannig að ég grét bara ekki neitt en systir mín grét tvöfalt fyrir okkur báðar. Nú fékk ég fréttir að afi er með krabbamein í blöðruhálskirtli. Hann er nýkomin úr aðgerð þar sem skipt var um augasteina á báðum augum og við erum búin að hlæja mikið að því að í kjölfarið á því að sjónin var löguð þá lagaðist heyrnin líka. Hann er búin að vera hálfheyrnarlaus síðan ég man eftir mér og eftir því sem að skýin á augunum stækkuðu því minna gat hann haft samskipti við umheiminn þar sem hann hvorki sá né heyrði. Nú getur hann sum sé lesið betur af vörum og þarf ekki einu sinni gleraugu til að lesa blöðin. Magnaður skítur þessi læknavísindi. Konan hans pabba er svo að fara í aðgerð þar sem fóturinn á henni verður brotinn í tætlur og hún verður í gifsi í þrjá mánuði. Skil ekki alveg hvað er í gangi í heiminum.

Ég hitti finnskan félaga minn í bænum í gær. Hann lenti í því óhappi um síðustu helgi að hann var að fara heim af djamminu og var keyrður niður af leigubíl. Hann var sendur með sjúkrabíl upp á slysó og það voru saumuð 20 spor í hausinn á honum eða eitthvað. OK, kannski ekki 20 spor en mörg allavega. Strákgreyið var látinn borga fyrir allt sjálfur og það var enginn sem sagði honum að tryggingarnar hjá leigubílstjóranum ættu að borga honum tilbaka. Ég þoli ekki þegar að fólk ætlar bara að misbjóða fólki af því að það er ekki íslenskt og þekkir ekki reglurnar. Þannig að ég tók það að mér að hafa samband við einhvern, enda eru hæg heimatökin þar sem margir leigubílstjórar eru í fjölskyldunni, og eftir að hafa rætt þetta við þá sem fróðari eru þá veit ég núna að hann getur og á líka að fara fram á miskabætur. Það kom líka upp úr kafinu að pabbi varð vitni að þessu og gat sagt mér nákvæmlega hvað gerðist. Ég skal hundur heita ef þetta grey fær ekki allavega komugjaldið og sjúkrabílinn greitt Urr… reið.

Annars reyndi ég að sannfæra gaurinn á Habibi að ráða mig í vinnu í gær. Veit ekki af hverju, hef ekki mikinn áhuga á lykta eins og Shwarma samloka alla daga.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Fólk er fífl

Ég skrapp í heimsókn á Suðurgötuna í kvöld og ílengdist þar í óvæntu Hugh Grant maraþoni og rauðvínsdrykkju. Sérlega huggulegt. Þegar að ég var að labba heim um þrjúleytið var ungt og frekar drukkið par að ganga Tjarnargötuna á undan mér. Allt í einu stoppa þau og virðast vera að kíta. Áður en ég veit af gengur gaurinn af göflunum og ræðst á lítinn gráan Yaris sem var lagt í götunni. Hann lemur og sparkar í bílinn og svo sá ég hvar stelpan, sem hafði gengið á undan honum áfram, kom tilbaka til að hugga hann. Bíllinn var allur dældaður og þau löbbuðu saman áfram eins og ekkert hefði ískorist.

Ekki öfunda ég fólkið sem á Yarisinn að vakna á morgun og sjá ástandið á bílnum. Ég íhugaði að hringja á lögguna en þegar að hún kæmi hefðu þau hvort eð er verið löngu farin. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að tala við þau en lagði ekki í það því ef að hann fór svona með bílinn vildi ég ekki vita hvað hann myndi gera mér ef ég reitti hann til reiði. Ég hugsaði líka um það að skilja eftir miða á bílnum og láta eigandann vita að ég hefði séð hvað gerðist og hvernig hann gæti haft samband við mig en gerði það svo ekki á endanum. Veit eiginlega ekki hver eru réttu viðbrögðin í svona stöðu.

Vonandi er eigandi bílsins með góðar tryggingar.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Pælingar

Helgin kom og fór. Fór þrisvar út að borða, tvisvar var það mjög gott og í eitt skiptið lala. Alltaf sat ég þó í góðum félagsskap sem skiptir jafnmiklu ef ekki meira máli en maturinn. Sérstaklega þegar að reikningurinn er borgaður af öðrum.

Ég er að renna á rassinn með ritgerð sem ég á að skila á miðvikudaginn. Klukkan er farin að ganga 11 á mánudagskvöldi og ég er ekki búin að skrifa einn staf á blað. Sem er ekki gott.  Læt mig dreyma um bakpokaferðalög og skemmtilegheit sem tengjast þessum skóla ekki neitt og held ekki einbeitingunni lengur en í tvær mínútur. Ég er þó í fríi allan morgundaginn og verð bara að hrista þetta fram úr erminni þá og taka afleiðingunum.

Hitti strák í gær frá LA sem sagði mér frá 6 mánaða puttaferðalagi sem hann fór í um Bandaríkin þegar að hann var 19 ára, á kúpunni og nýsloppinn úr fangelsi. Hann svaf á götunni eða hvar sem hann fann sér skjól og betlaði peninga með því að syngja og spila tónlist. Hann uppgötvaði sjálfan sig sem tónlistarmann á þessu ferðalagi og dreymir um að geta lifað af því og hefur að því virðist náð tökum á lífinu á ný. Á meðan byggir hann sviðsmyndir fyrir kvikmyndir og tónlistarmyndbönd  og reynir að ferðast eins og hann getur. Hann fékk að gista á sófanum í nótt og deildi með mér tónlistinni sinni og sögum af sjálfum sér. Stundum finnst mér eins og ég hafi lifað og prófað eitt og annað en svo hitti ég fólk sem er bara búið að gera svo miklu meira að mér finnst ég vera hálfgerð sveitakona í samanburðinum. Að sjálfsögðu eins og von er og vísa er margt sem hann hefur prófað sem ég hef lítinn áhuga á eins og eiturlyfjaneysla og seta í fangelsi en samt finnst mér stundum eins og eitthvað vanti upp á hjá sjálfri mér. Ég er einhvern veginn mitt á milli þess að vera ógeðslega hvítur millistéttar plebbi og semi hippi og bóhem. Ekki nógu kúl til þess að vera alveg í seinni flokknum og ekki nógu ferköntuð til þess að vera í þeim fyrri. Og ekki búin að finna sjálfa mig.

Ég hitti mikið af svipuðum týpum í Montréal þar sem ég lenti í eftirpartý hjá gaur sem er atvinnu brettagaur og þekkti alla í kanadísku indie senunni. Ég var sú eina í því partýi sem ekki var á einhvers konar dópi og þótti um margt undarleg þegar að ég afþakkaði pent kókaínið sem mér var boðið af mikilli gestrisni húsráðanda. Ólíkt því sem ég hef upplifað hérna heima þegar að ég hef óvart lent í svona partýum þar sem allt flæðir í dópi þá virti fólk þó ákvörðun mína og reyndi að tína til annað til þess að bjóða mér. Ég fékk bæði te og bjór en enga sneið um að vera leiðinleg eða ferköntuð.

Ég held að ég sé að reyna að segja að ef að maður gleymir eigin fordómum um hitt og þetta þá kemst maður að því að allir hafa eitthvað fram að færa. Hvort sem að viðkomandi er ástralskur læknanemi, bandarískur tónlistarmaður, kanadískur kókhaus eða týndur íslenskur nemi þá eigum við öll meira sameiginlegt en við gerum okkur oft grein fyrir. Maður á ekki að loka á fólk af því að það lifir ekki eftir sömu reglum og maður sjálfur. Manneskjan sem við höfum að geyma hefur ekki endilega neitt með það að gera hvaða líf við kjósum eða lendum í því að lifa.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Sófasörf

Gáfumannarit

Ég komst yfir eintak af nýjasta Economist í dag þar sem að segir meðal annars í grein um vandamálin sem blasa við hagkerfum Austur-Evrópu: „WILL an ex-communist country be the next Iceland?“.  Ég veit ekki af hverju en mér finnst þetta afskaplega súrrealísk staða sem við erum búin að koma okkur í, hvort sem það var gert með hjálp hinna illu Breta og undirmálslána í Bandaríkjunum eða ekki. Ég ætla samt ekkert að ræða þetta frekar þar sem ég er a) ekki hagfræðingur og skil þetta mál alls ekki nógu vel og b) það eru allir orðnir dauðleiðir á að heyra um það. Hinsvegar get ég sagt ykkur að The Economist og Newsweek og svona blöð hafa verið uppáhalds fluglestrarefnið mitt núna til nokkurra ára. Það hefur eflaust skotið skökku við í augum margra þegar að ég var að bakpokaferðalagast um Suðaustur-Asíu á flipp flopp sandölum og Tæbuxum að í stað þess að lesa The Lonely Planet spjaldanna á milli á hinum ýmsu flugvöllum á ferðalaginu ,eins og samferðamenn mínir, sat ég oft og iðulega með þessi tímarit og býsnaðist yfir heimsmálunum. Reyndar varð mest af þeirri þekkingu sem ég aflaði mér á þessu ferðalagi eftir í Asíu þar sem ég drap heilasellurnar sem geymdu hinar nýju upplýsingar jafnóðum með óhóflegri bjórdrykkju.

Allavega! Þrátt fyrir góðan vilja af minni hálfu og alveg hreint ágætis enskukunnáttu þá skildi ég aldrei nema helminginn í sumum greinunum sem ég var að lesa. Ástæðan var alls kyns fagmál og skírskotun í atburði, stofnanir, menn og málefni sem ég kannaðist lítið sem ekkert við. Í dag hins vegar þá allt í einu tók ég eftir því að ég skildi mun meira en áður. Hlutir eins og Bretton Woods, IMF, IJC, The Bradley Effect og hvað þetta heitir allt saman voru allt í einu ekki bara undarleg uppröðun stafa sem hafði enga merkingu í hausnum á mér heldur gat ég tengt þetta við fyrirlestra sem ég hef setið og námsefnið í skólanum. Það var eins og nýr heimur hefði opnast fyrir mér og loksins fannst mér ég hafa lært eitthvað. Ég er mjög mikið búin að velkjast í vafa um hvort ég hafi valið rétta námið fyrir mig en ég skráði mig einmitt í stjórnmálafræði af því að ég vildi skilja meira. Ég er kannski ekki alveg 100% að finna mig í þessu en alltént skil ég örlítið meira en áður. Það ætti þó ekki að koma á óvart að alþjóðastjórnmálin er uppáhalds kúrsinn minn.

Annars voru nokkrar mjög áhugaverðar greinar í The Economist að þessu sinni. Til dæmis var grein um aðferðir sem Saudi Arabía hefur verið að beita gegn íslömskum hryðjuverkamönnum (sem er áhugavert þar sem Saudi er líklega það land sem er hvað strangtrúaðast í hinum íslamska heimi) og önnur um genatískar rannsóknir á samkynhneigð. Mæli með þessu ef að einhver þarf að fara til læknis og finnur þetta eintak á biðstofunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl