Monthly Archives: júní 2008

Grænland

Ég var búin að gleyma hvað Grænland er fallegt land. Reyndar er landslagið á austurströndinni á köflum víst mjög líkt Íslandi og fékk ég á tilfinninguna að ég væri einhvers staðar uppi á fjöllum fyrir norðan þegar að ég gekk út úr flugstöðinni í Kuluskuk. Húsin, ísjakarnir og fólkið sem talar þetta skemmtilega tungumál frá kokinu minntu mig þó fljótlega á að ég var komin á framandi slóðir. Vegurinn sem við fylgdum inn að þorpinu hafði verið ruddur og opnaður almennilega nokkrum dögum fyrr og fyrsta birgðaskip sumarsins var að leggja  að bryggju frá Ammasalik þegar í þorpið var komið. Kaupfélagið var þó merkilega fullt af vörum en hafði ástandið oft verið verra samkvæmt því sem leiðsögumaðurinn sagði okkur. Þar mátti finna kjólföt á gínu, Faxi Kondi í stöflum og veiðiriffla í sömu hillustæðu og marglit barnaleikföng. Veðrið lék við okkur og litlu skipti þó að báturinn okkar hafi átt í vandræðum með eldsneytið á leiðinni til baka á flugvöllinn þar sem skipstjórinn ungi sneiddi listilega framhjá mistórum ísjökum. Hann kom okkur í land á endanum og glaðar töltum við aftur í flugstöðarbygginguana þar sem flugvélin beið eftir að koma okkur heim. Yndislegur dagur í alla staði.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Ferðalög

Hárraunir Taka 2

Ég hélt kannski að Weet kaldir vaxstrimlar væru málið en eftir að hafa rætt málið við stúlkurnar í vinnunni hef ég komist að því að svo er ekki. Þetta er víst vont, maður verður ekki silkimjúkur og maður brosir ekki eins og konurnar í auglýsingunni.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Hárraunir

Í kvöld endurnýjaði ég kynnin við gamlan fjanda þegar ég dró fram háreyðingagræjuna Tætarann. Nafnið Tætarinn lætur þetta pastellitaða plast drasl hljóma eins og eitthvað tryllitæki, sem það er ekki, en það er réttnefni þar sem tækið tætir hárin af löppunum á manni upp með rótum. Þetta á að virka jafn vel og vax sem þýðir færri ofurlangar og vandræðalegar sturtuferðir þar sem rassinn rekst óvart í blöndunartækin þegar þú ert í óða önn að skafa skankana með þeim afleiðingum að þú færð kalda bunu á bakið og rekur upp öskur sem heyrist alla leið til Keflavíkur.

Ég ákvað að leggjast í tilraunastarfsemi og kanna hvort það sé í rauninni betra að beita þessari sársaukafullu aðferð við að losna við loðna leggi og notaði græjuna á aðra löppina. Því næst hugðist ég fara í sturtu og raka hina löppina og sjá svo til hvor fótleggurinn yrði fyrr loðinn á ný. Það má vel vera að þessi tilraun hefði leitt það til lykta að tæt sé betra en rakstur hvað hárvöxt varðar en ég hugsa að mér verði alveg sama um útkomuna því nú er aumingjans löppin rauðflekkótt eins og hún hafi lent í sýrubruna og sviðinn ætlar að drepa mig. Þá held ég að það sé nú skárra að vera með brodda en að sitja uppi með þetta helvíti. Ó ó og æ.

Ég skil stundum ekki hvað við kvenmenn leggjum á okkur til að styggja ekki steggina. Það er ekki eins og þessir strumpar geri neitt fyrir okkur í staðinn. Þeir fara út á djammið með stubba í andlitinu og veigra sér svo ekki við að kyssa konu og aðra og skija þær eftir í skítnum með svöðusár í kringum munninn. Svo byrjar þetta að flagna mörgum dögum seinna og þær verða að útskýra í vinnunni af hverju hakan á þeim lítur út fyrir að hafa lent í slag við sandpappír. Nei, steggirnir eiga það ekki skilið að ung og falleg kona eins og ég standi í heimatilbúnum pyntingum til að ganga í augun á þeim. Tætarinn hefur svo sannarlega sungið sitt síðasta.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið

Helgin

Rútan erfiðaði yfir grjót og ár á leiðinni út úr Mörkinni sem gerði það að verkum að ómögulegt reyndist að lesa staf þangað til komið var á malbik. Í staðinn hlustaði ég á elskhugann ástkæra en skemmtilegir tölvuvæddir tónar Hot Chip voru í hrópandi mótsögn við tilkomumikið landslagið. Ég er ástfangin af Þórsmörk og litla kofanum sem hýsir mig á meðan ég þykist vinna þarna innfrá og hlakka strax til að fara þangað aftur eftir tvær vikur.

Á leiðinni uppeftir var ég beðin um að fræða liðið um hvað skyldi gera ef að Katla byrjaði allt í einu að gjósa og eftir að hafa setið fund kvöldið áður þar sem farið var yfir þau mál í smæstu smáatriðum átti ég að vera fullfær um það. Límminnið mitt hafði meira að segja haft fyrir því að muna það að það síðasta staðfesta Kötlugos var 1918 en vísindamenn halda að það gætu hafa verið tvö smágos 1955 og 1999. Þar sem ég sat með hljóðnemann fremst í rútunni í hossingnum á leiðinni framhjá Stóra-Dímon gerði gamla góða sviðshræðslan vart við sig og ég náði einhvern veginn að klúðra þessu algjörlega. Fyrst verður hausinn tómur og síðan bruna allar upplýsingarnar sem ég geymi í kollinum fram í einu og ég veit ekki hverja upplýsingafluguna ég á að grípa fyrst. Að lokum er eins og hausinn breytist í blandaraskál og svo er kveikt á blandaranum. Sullið þar sem eitt sinn var heili flýtur út um eyrun og fyrir framan mig sitja 20 manns sem skilja hvorki upp né niður í orðunum sem velta út úr munninum í engri sérstakri röð og algjörlega án samhengis.

Það er einhvern veginn erfiðara að fyrirgefa sjálfum sér þegar að maður klúðrar hlutunum með fullu viti og ekki undir áhrifum áfengis. Þá hefur maður ekki við neinn að sakast nema sjálfan sig.

Núna er ég heima með þreytta vöðva eftir að hafa klifrað upp og niður hlíðarnar með tré í eftirdragi, bæði lítil tré sem þurfti að koma í mold og stóra drumba sem karlmennin i ferðinni söguðu niður með keðjusög. Í vikunni fer ég svo til Grænlands en það er eins og mig minni frá fyrri ferð minni þangað að þar sé ekki mikið um tré. Enda er ég ekkert að fara þangað til að skoða einhvern trjágróður.

3 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Ferðalög

Svíagrýlan

Af einhverjum ástæðum verð ég alltaf svo glöð þegar að Svíum gengur illa í íþróttaleikjum og Eurovision. Er ég með fordóma gegn Svíum?

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Það er runnið á mig æði

Ég á við vandamál að stríða. Þetta vandamál er tiltörulega nýtt af nálinni í sögulegum skilningi og telst líklega seint alvarlegt í hnattrænu tilliti þrátt fyrir augljós umhverfisáhrif. Engu að síður verð ég að horfast í augu við sjálfa mig og leita mér einhvers konar hjálpar. Fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann og það hyggst ég gera hér og nú. Ég er fatasjúk!

Ég var lengi vel ósmekkleg í alla staði. Gekk með sjálfprjónaða húfu allan 7.bekkinn þar sem ég faldi sítt faxið í einum bendli og þurfti því aldrei að greiða mér. Síðan varð ég aðeins eldri og fékk þá flugu í hausinn að golftreyjur af karlmönnum sem voru miklu stærri en ég væru málið. Þær voru það augljóslega ekki og ég átti í sérstökum vandræðum með eina sem náði mér langleiðina niður á hné og olli mér eilífum vandræðum þegar að ég þvoði mér um hendurnar sökum ótrúlegrar ermasíddar. Ég átti líka gott tímabil í skærbleikum krumpugalla sem var með saumsprettu yfir bossan endilangan og ekki voru allar peysurnar sem langamma keypti á mig í heldri konu versluninni Glugganum mikið skárri. Það er því ekki að undra að þegar að ég fór að þéna mína hýru sjálf og áttaði mig á því að það voru til búðir þar sem allt var ekki prjónað eða með gylltum hnöppum að ég missti mig örlítið í gleðinni.

Í dag er ég minna ósmekkleg þó svo að óþarflega stór rassinn geri mér stundum erfitt fyrir í fatavali. Hillurnar í fataskápnum svigna undan marglitum kræsingum og skópörin flæða um öll gólf. Sama hversu oft ég þeytist með fatagjafir í rauðakrossinn virðist skápurinn minn alltaf fyllast jafnóðum aftur. Þessa dagana hef ég sérstakt dálæti á kjólum og nota hvert tækifæri til að kaupa mér nýtt meistarastykki. Ég virðist þó gleyma því stundum að mér gefst ekki oft tækifæri á að nota fínu kjólana mína og þess vegna hanga að minnsta kosti tveir þeirra ónotaðir með miðunum á og öllu inni í yfirfullum fataskápnum. Ég leit á þessa miða í gærkveldi og komst að því að annar kjólinn er 100% silki. Það er til marks um kaupæði á háu stigi þegar að maður kaupir silkikjóla í útlandinu án þess svo mikið að taka eftir því. Silki er fullorðins.

Ég held svei mér þá að ég verði að reyna að koma mér í mjúkin hjá einhverjum bankaplebbum sem súpa freyðivín í minimalískum glerbyggingum við hvert tækifæri. Nú eða halda mitt eigið standandi kokteilboð þar sem þess er krafist af gestum að þeir mæti í sínu fínasta pússi svo ég geti notað mitt. Mig langar bara að vera í kjól. Alltaf.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl

Háskóli Íslands

Háskólinn hefur samþykkt umsókn þína um skólavist. Umsóknin tekur gildi við greiðslu skrásetningargjalds innan þeirra tímamarka sem fram koma á greiðsluseðli.

Ég vissi alveg að umsóknin mín yrði samþykkt en það er samt gott að hafa þetta skjalfest.

4 athugasemdir

Filed under Almennt röfl

Hugleiðing

Þegar að ég ákvað að byrja að blogga aftur, eftir ótrúlega lélega mánaðar pásu, þá var ætlunin alls ekki að detta ofan í það sama gamla að ræða í þaula ástarlíf mitt eða vöntun á því. Ég hafði hugsað mér að vera háfleyg og alvarleg í dillandi ljóðrænum stíl og ræða um andans menn og málefni. Því síður ætlaði ég að tileinka bloggið einhverju manni sem ég þekki lítið sem ekkert og átti sér einskis ills von þegar að hormónablandaði hvítvínskokteilinn hoppaði á hann eins og tík á lóðaríi. En svona gerist þetta bara stundum, maður hefur engan hemil á bloggskrímslinu sem æðir bara í þær áttir sem því sýnist hverju sinni.

Staðreyndin er þó sú að kynni mín af manninum sem bloggið er ekki tileinkað voru bara þannig að þau opnuðu augu mín fyrir ótal hlutum. Hann veit að sjálfsögðu ekkert um það að ég skuli vera að velta mér svona mikið upp úr hverju smáatriði sem okkur fór á milli. Ég held að hann geri sér heldur ekkert endilega grein fyrir því hversu sæl og ánægð ég var þegar að ég fékk sms frá útlandinu í gærdag sem innihéldu ótal kossa til mín frá honum. Ég var með fiðrildi í maganum og axlirnar herptust saman þar sem ég sat og brosti allan hringinn. Ekki af því að ég sé svo skotin í honum eða að ég haldi að þetta hafi verið meira en það sem það var heldur einmitt af því að það var bara akkúrat sem það var: ljúft og þægilegt.

Sænski sófasörfarinn sem deildi herberginu mínu með okkur eina nóttina, 19 ára alvarlega þenkjandi flicka frá Stokkhólmi, kallaði hann heimskan brimbrettagæja. Heimskur var hann nú ekki en hann var ekki mikið gefinn fyrir bækur, vann verkamannavinnu, stefndi ekki á háskólanám og var ekki manna bestur í stafsetningu. Hann virtist samt fullkomlega hamingjusamur með þann stað sem hann er á í lífinu og sænska ungpían var sammála mér um það að í því lægi aðdráttarafl hans. Eftir kyrfilega sálgreiningu á kauða held ég að hann sé svona gaur sem leggur áherslu á að gera hlutina með hjartanu frekar en höfðinu. Ég á hinn bóginn geri allt með höfuðið við stjórnvölinn og leyfi hjartanu aldrei að hlaupa frjálsu. Þess vegna held ég að hann sé hamingjusamur á meðan að ég flögra um eins og fluga í flösku.

Ég held að þegar að á öllu er á botnin hvolft þá sé ég komin að krossgötum í lífinu. Eitthvað innra með mér er að breytast og þess vegna hefur fólk svona mikil áhrif á mig óafvitandi. Ég soga að mér visku annarra eins og svampur við eldhúsvask og reyni eftir fremsta megni að tileinka mér það besta. Árangurinn verður svo bara að koma í ljós síðar. Á meðan horfi ég dreymnum augum fram fyrir mig og glotti í hvert skipti sem ég man eftir andfætlingnum góða.

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið, Sófasörf

Stefnumótasýki

Nýsjálendingurinn er horfinn á braut og það eina sem eymir eftir af honum á heimilinu eru nammibréf og skilaboð skrifuð á hvíta tússtöflu : Takk fyrir frábæra dvöl. Þú ert best!

Í gærkvöldi gengum við saman um miðbæinn og fengum okkur kaffi-tú-gó. Kvöldið var æðifagurt og við enduðum röltið á Arnarhóli þar sem við nutum drykkjanna og marglitaðs himinsins. Ef við hefðum verið á stefnumóti hefði það varla getað orðið mikið betra. Á sunnudaginn þrömmuðum við líka miðbæinn þveran og endilangan en meðal annars kíktum við í Perluna og virtum fyrir okkur útsýnið yfir borgina. Inni í kaffiteríunni sátu kappklæddir útlendingar og hámuðu í sig fokdýrar veitingarnar. Venjulega hefði ég fussað yfir goritexjakka-herdeildinni sem lætur taka sig í óæðri endann á öllum þessum ferðamannastöðum og borgar handlegg og fót fyrir eina skitna ískúlu. Þennan tiltekna sunnudag hugsaði ég þó aftur til stefnumótanna og fannst ískúla í Perlunni með eindæmum huggulegt.

Ég fann fyrir svipuðum kenndum í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Við fórum í lautarferð í Dyrehaven, drukkum Chai á götukaffihúsum og öl í upplýstu Tívolí og alltaf hugsaði ég með mér: Mikið eiga Danir nú mikið af álitlegum stöðum fyrir stefnumót.

Ég virðist sjá rómantík í öllu sem er skelfilega óheppilegt þegar að enginn er maðurinn til bjóða út. Óneitanlega má færa fyrir því rök að við Nýsjálendingurinn höfum verið að stíga í vænginn hvort við annað en skynsemin og augljósar landfræðilegar orsakir ollu því að við létum gott heita. Þetta er pínulítið eins og að vera ástsjúkur hvolpur á svæði þar sem hundar eru bannaðir.

Færðu inn athugasemd

Filed under Ferðalög, Hitt kynið

Óvænt heimsókn frá Nýja Sjálandi

Ég er nú búin að eyða tæpum þremur sólarhringum með rauðhærða, skemmtilega ófríða, nýsjálenska skeitaranum sem ætlaði upphaflega bara að fá að gista hjá mér eina nótt. Einhvern veginn atvikaðist það, nokkrum klukkustundum eftir að við kynntumst, að okkur var fleygt öfugum út með skömm af skemmtistað einum hér í bæ . Sökin sem á okkur var borin: óhóflegt kelerí. Gamla ég hefði haft áhyggjur af þessu ódannaða framferði um aldir alda en hin nýja kona sem fæddist eftir útskrift hefur ákveðið að láta sem ekkert sé. Kenna undarlegri blöndu af áfengi og hormónum um ósiðsamlegt athæfið.

Nýsjálendingurinn hefur síðan reynst hinn ágætasti piltur og höfum við átt góðar stundir saman. Það hefur þó valdið örlitlum vandkvæðum að maðurinn, sem bætir upp vöntun á formfegurð í andliti með stæltum útlimum og heitum húðflúrum, gengur hálfnakinn um húsakynnin í tíma og ótíma að því er virðist. Hormónarnir stýra augunum og þekkja orðið hverja freknu á sólbrúnum líkamanum og með hverju nýju atriði sem hann deilir með mér um líf sitt  reynist mér erfiðara að horfa ekki á hann girndaraugum svo að hann taki eftir. Ekki er útséð með lengd dvalarinnar en á meðan að á henni stendur nýt ég þægilegrar nærveru hans og krúttlega skakka brossins.

Ef lífið er til þess að læra af því tek ég frá þessari stuttu sambúð með Nýsjálendingnum hvað lífið getur verið einfalt ef að maður þróar með sér rétta viðhorfið til þess.  Óafvitandi hefur hann kennt mér lífslexíur sem ég gleymi vonandi aldrei. Merkilegt hvað það gerir biturri konu gott að hafa einn svona brosandi brimbrettakappa á sófanum í nokkra daga.

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið, Sófasörf