Monthly Archives: júlí 2008

Með hrjótandi sætalíus á sófanum

Hjá mér er staddur um þessar mundir ungur maður frá ríkinu stóra í vestri. Móðir unga mannsins er múslimi frá Tyrklandi, faðir hans hindúi frá Indlandi. Einhvern vegin komu þau saman og eignuðust börn og buru. Ég verð alltaf hálföfundsjúk þegar að ég hitti fólk eins og þennan mann. Að vera hreinræktaður Íslendingur, eða því sem næst, er skelfilega lítilfjörlegt í samanburði við að eiga foreldra frá jafnólíkum menningarheimum og hann. Fjölskyldan fluttist til Tyrklands svo að börnin kynntust menningu og tungumáli móður sinnar og sumrum eyddu þau í Indlandi með stórfjölskyldunni. Það kemur ekki á óvart að ungi maðurinn er sérlega geðþekkur, opinn og víðsýnn enda held ég að það sé nánast ómögulegt að alast upp í svona umhverfi og lifa lífinu með pappakassasýn.

Ekki spillir fyrir að þessi ungi maður er bráðhuggulegur. Það skiptir að sjálfsögðu litlu máli þegar að sófasörfarar eru annars vegar hvernig þeir líta út en því verður ekki neitað að það er aldrei verra að hafa eitthvað fallegt að horfa á. Honum er jafnvel fyrirgefnar hroturnar.

Sófasörfið er svo stórkostlegt tæki til þess að kynnast heiminum án þess að yfirgefa fjóra veggi heimilisins. Ólíkir einstaklingar koma saman til þess eins að hafa það gaman. Rímið var óviljandi.

Færðu inn athugasemd

Filed under Sófasörf

Unglingaveiki

Í hjarta mér er ég 17 ára unglingur. Ég dett í það og verð yfirleitt uppvísa að einhvers konar skandal í kjölfarið. Fólki kemur á óvart hversu gömul ég er þegar að ég uppljóstra um aldur minn og biður mig um að nota rakakrem og ekki byrja að reykja til að viðhalda barnslegu andlitinu. Sjálf sé ég bauga og grá hár þegar að ég lít í spegil en þegar að ég var unglingur þótti ég fullorðnari en ég var í raun. Ég á enga dragt en ógrynni af hettupeysum í öllum regnbogans litum.

Ég elska líka eins og unglingur. Skotin mín gleypa allan minn tíma og dagdrauma. Fiðrildin í maganum taka yfir og blinda mér sýn á raunveruleikann. Úthöf og ólíkir menningarheimar eru ómerkilegar ástæður fyrir aðskilnaði elskenda. Í skýjaborgunum mínum fæ ég alltaf prinsinn og enginn segir mér að ég sé á villigötum. Í hinum efnislega heimi reynast prinsarnir í besta falli körtur og fiðrildasveimurinn hrapar til jarðar.

Ég vildi að inni í mér byggi gömul vitur kona. Kona sem væri búin að læra af mistökum sínum og tæki rólegar og yfirvegaðar ákvarðanir. Gömul kona laus við alla unglingaveiki.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið

Af hjónaböndum og lottóspili

Ég er með margar og ákveðnar skoðanir á samskiptum kynjanna. Ég trúi ekki á ást við fyrstu sýn eða sálufélaga og tel að færa megi fyrir því góð rök að manninum sé ekki eðlislægt að finna sér maka fyrir lífstíð. Ég trúi heldur á hormóna, á það að vera á réttum stað á réttum tíma og sé í sjálfu sér ekkert rangt við það að eiga í nokkrum ástríðufullum en stuttum samböndum um ævina frekar einu steingeldu hagkvæmishjónabandi. Hjónabandið er í mínum huga úrelt stofnun en ástæðurnar fyrir því ætla ég ekki að tíunda hér. Að sjálfsögðu er ég fylgjandi því að fólk láti reyna á sambönd svo lengi sem báðir aðilar hafi áhuga á því og ef að aðilarnir geta lifað hamingjusamlega saman í sínu lífi þá er það hið besta mál. Ég er bara ekki endilega sammála þessu hjónabandskapphlaupi sem samtvinnast lífsgæðakapphlaupinu, þar sem það verður allt í einu ekki nóg að eiga bara góðan jeppa og 2.5 börn heldur er bráðnauðsynlegt að eyða milljón eða fimm í brúðkaup sem mun í tæplega 40% tilvika enda með lögskilnaði. Lífið er einfaldlega of stutt.

Hvað varðar sálufélagana þá held ég að við séum alltaf að hitta tilvonandi sálufélaga. Við hrífumst af margs konar fólki, mörgum í einu, og hver og einn hefur eitthvað sérstakt fram að færa sem gerir það að verkum að við veitum viðkomandi eftirtekt. Vinir manns eru nokkurs konar sálufélagar og vinasambönd endast oftar en ekki lengur en ástarsambönd. Ég held að það sé hægt að byggja ástarsamband með nánast hverjum sem er svo framarlega að þessi hrifning sé til staðar. Það hvort að sambandið þróist út í það að verða vinasamband eða ástarsamband ræðst eingöngu af aðstæðum og tímasetningu. Þegar að spilað er í lottó skiptir ekki máli hversu margar kúlurnar eru eða hvað númer er á hverri. Það sem skiptir máli er að þær raðist rétt saman á réttum tíma, þ.e. þegar að þú hefur keypt þér miða. Eins skiptir það máli hvernig þú og viðkomandi hittist og hvernig líf ykkar fléttast saman í framhaldinu. Þú þarf t að vera búinn að kaupa þér miða, vera tilbúinn, til að vinna.

Þar sem að það sem okkur þykir fallegt og eftirsóknarvert er að mestu lærð hegðun eru ekki allir sem fatta þennan sannleik. Ég held ég sé búin að fatta hann núna. Hvar ætli maður fái svona miða?

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið