Monthly Archives: ágúst 2008

Toronto

Ein athugasemd

Filed under Ferðalög

Montréal

Færðu inn athugasemd

Filed under Ferðalög

Kanada

Ég er núna í Toronto eftir að hafa eytt yndislegum tíma í Montréal með nýjum vinum og gömlum. Ég sit í Lobby-inu á rándýra hótelinu sem ég er að gista á (frítt auðvitað, myndi ALDREI borga fyrir þetta sjálf) og fylgist með töskuberum burðast með annara manna farangur á gylltum vögnum sem renna mjúklega eftir bónuðu marmaragólfinu. Toronto hefur ekki sama sjarma og Montréal en búðirnar eru góðar og gærkvöldinu eyddi ég á frægasta pöbb borgarinnar þar sem boðið er upp á lifandi tónlist alla daga vikunar og hljómsveitir eins og Rolling Stones dúkka stundum upp á svið án þess að tilkynna komu sína og spila frí gigg. Ég hefði auðveldlega geta eytt fleiri dögum í Montréal en er samt glöð að hafa dröslast hingað í rútunni því hér er líka gott að vera. Ég tilkynni það hér með að ég ELSKA Kanada!

Meira síðar þegar að ég er ekki á leiðinni út á djammið á Miðvikudegi með hressu fólki sem ég þekki sama og ekkert.

Ein athugasemd

Filed under Ferðalög

Wolverhampton

Á kaffihúsi í Wolverhampton situr skeggjuð kona og ræðir heimsins vanda við nærstadda. Ófrítt fólk með skítugt hár sem situr á garðstólum og drekkur vont kaffi. Miðaldra maður með flöskubotnsgleraugu og fitugar hárlufsur greiddar yfir skallann treður í sig ristuðu brauði löðrandi í smjörlíki og bakaðar baunir spítast út á milli tannanna á honum. Fyrir utan gengur póstmaðurinn í stuttbuxum í rigningunni með enska fánann og fána sambandslýðveldisins tattúveraðan á kálfann. Ófríða fólkið spyrst fyrir um líðan þeirra sem eru fjarri. Neil er með ræpu, Phil á spítala og aumingja Mary er dauð. Konur með sítt að aftan dilla sér í takt við Holiday með Madonnu og brosa til viðskiptavinanna svo glittir í snúnar tennurnar. Kaffibollarnir hér eru í boði féló.

4 athugasemdir

Filed under Ferðalög

Frumlegheit

*Varúð! Þessi færsla inniheldur mikið af slettum og óvandað mál*

Ég er búin að eyða mörgum árum í að vera hörð við sjálfa mig og dást að fólki sem hefur nógu mikinn skapandi drifkraft til að vinna við hönnun eða listsköpun hvers konar. Ég hef bölvað því að eiga til mikið af hugmyndum en færri leiðir til að útfæra þær og horfi öfundaraugum á stílhreinar heimasíður og fallegar auglýsingar. Því eldri sem ég verð og því meira sem ég garfa í málunum kemst ég þó betur og betur að því að það eru ekki nema örfáar hræður þarna úti sem má með sanni segja að séu skapandi og hugsi út fyrir kassan eins og sagt er upp á enska vísu. Restin eru afætur og hermikrákur. Kannski má færa rök fyrir því að það sé ákveðin list í að vera góður í að apa eftir öðrum en ég sé allavega færri ástæður til að berja sjálfa mig niður fyrir vöntun á listrænum hæfileikum en áður.

Tökum nýtt útlit á námsmannasíðu Byr sem dæmi. Hönnuðurinn tók nákvæmlega allt sem er búið að vera hot í hönnunar- og blogg heiminum undanfarin misseri og tróð því öllu á einu og sömu síðuna. Við erum með post-it miðana með bréfaklemmunni, viðarelementið, polaroid myndirnar límdar með teipi, barmmerkið með þínum eigin skilaboðum, smá grunge svo ekki sé minnst á „rising sun“ fídusinn sem var gríðarvinsælt í öllu Web 2.0 fárinu og vector teikningum. Maður sér oft hitt og þetta af þessum atriðum á síðum en ég man ekki eftir neinni síðu í augnablikinu þar sem ég fékk jafnsterkt á tilfinninguna og þarna að ég hafi séð þetta allt áður. Enda held ég að ég hafi séð þetta allt áður.

Til gamans læt ég hér fylgja linka á þau design element sem má finna á fyrrnefndri námsmannasíðu Byrs:

Barmmerki efst á síðu
Rising Sun á bakvið Palla
Grunge stjörnur á bakvið Palla
Viðarsafn/skrifborðsfílingur
Web 2.0 merkið í neðst í hægra horninu

Post it
Bréfaklemma
Polaroid
Bréfalúkkið

Annars eru PSDtuts, Brusheezy og Vecteezy algjör snilld ef að maður hefur áhuga á svona dóti.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Mowgli

Spænskættaði Fransmaðurinn frá Madrid er orðinn að hálfgerðu húsgagni á Tjarnargötunni. Hann kom og fór og kom aftur en nú er stefnan tekin á að hann yfirgefi borgina á ný í fyrramálið. Eins og áður hafa tveir dagar orðið að fjórum og er hann síðasti sófasörfari sumarsins. Að honum ólöstuðum þá bara höndla ég ekki meira í bili.

Ég tók eftir því þegar að hann kom að hann er með töluvert myndarlegt ör í andlitinu sem vakti forvitni mína. Í gærkvöldi spurði ég hann hvernig hann hefði fengið það og hann sagði að ég myndi ekki trúa því þótt hann segði mér það. Ég bað hann um að láta reyna á það og þá sagði hann mér frá því hvernig úlfur réðst á hann þegar að hann var smástrákur í einhvers konar fjölskylduferð í Pýreneafjöllunum. Úlfurinn læsti víst kjaftinum í kinnina á honum en honum og vini hans tókst að hræða úlfana tvo sem höfðu nálgast þá burtu með eldi.  Þetta er myndarlegur strákur en aðdráttaraflið jókst  tilfinnanlega þegar að úlfaörið kom til sögunnar. Eitthvað villimanslega karlmannlegt við að hafa barist við úlf.  Ég ráðlegg hér með  öllum þeim karlmönnum sem eru með ör í andliti að búa til góða úlfasögu til að útskýra örið. Þeir munu ekki eiga í vandræðum með að ná sér í kvenfólk eftir það.

Annars langar mig að segja frá því að Lukkutröllsverkefnið, sem sumir hafa heyrt af, er farið af stað. Trölli hefur fengið nafnið Timothy G. Troll en G stendur að sjálfsögðu fyrir Good-Luck. Á hann eftir að fara í tvær ferðir með mér áður en hann leggur í hann af fullri alvöru og verðum við að vona að heppnin verði með honum og okkur og að hann fái að heimsækja áhugaverða staði um heiminn. Síðan hans er enn á frumstigi en þetta er allt að koma.

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið, Sófasörf

Frá London til Montreal

Í morgun vaknaði ég enn hálfpirruð eftir að hafa talað við spænska kjánann sem ég var einu sinni skotin í og er að reyna að gleyma á msn í gærkvöldi. Við ætlum að hittast í London í næstu viku og fara saman á tónlistarhátíð þar sem meirihlutin af böndunum gætu flokkast sem árás á saklaus eyru þeirra sem eru neyddir til að hlýða á. Þetta er allt saman eitthvað svo mikið vesen fyrir utan það að sofa í tjaldi og drekka bjór með einhverjum sem maður var einu sinni skotinn í og er að reyna að gleyma er bara ávísun á vandræði. Til að bæta gráu ofan á svart ætlum við að eyða síðusta daginum í London með Ástralanum sem ég var að hitta (lesist: kyssa) á meðan ég var að lúlla hjá fyrrnefndum Spánverja sem seinna urðu svo vinir eftir að hafa hisst heima hjá mér ein áramótin. Það má vera að ég sé tepra en mér finnst þetta þríeyki sjúkt. Ég kom mér þó í þetta sjálf og skal dúsa í pytti lauslæti míns eins lengi og við öll höfum geð á að vera vinir.

Aftur að morgninum. Ég sá auglýsingu í Fréttablaðinu um ódýr fargjöld til Montreal í Kanada eftir tvær vikur og áður en ég gat hugsað mig nógu lengi um til að uppgötva hversu ótrúlega asnaleg hugmynd þetta væri var ég búin að kaupa miðann. Klukkutíma seinna var ég búin að hafa samband við kunningjakonu mína í Toronto, kaupa rútumiða þangað og fá frí í vinnunni. Ég er enn að reyna að fara yfir atburði dagsins og hef enn ekki komist að því hvernig ég fór úr því að vera pirruð yfir í Englandsför yfir í að vera að fara til Kanada. Þetta kallar maður, að ég held, að vera hvatvís.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Ferðalög, Hitt kynið

Stórar öldur í sörfinu þessa dagana

Andfætlingurinn af óræða asíska upprunanum er horfinn á braut eftir að hafa verið hjá mér í 5 nætur í stað þeirra tveggja sem um var samið í upphafi. Ég er að komast að því að ef að ég mun einhvern tíma lenda í vandræðum með sörfara sem sest upp á mig og neitar að fara að ég mun örugglega ekki eiga nein ráð til að losna við viðkomandi. Fólk einhvern veginn fer bara ekkert en enn sem komið er hefur mér þótt gaman að hafa þá í kringum mig sem hafa ílengst hjá mér.

Í gær hélt ég svo uppteknum hætti og tók á móti Frakka sem á ítalska móður og spænskan föður en býr um þessar mundir í höfuðstað Spánarveldis. Foreldrar hans kynntust í Frakklandi og töluðu aldrei annað en frönsku hvort við annað og börnin svo það eina sem hann tók með sér úr þessum ráðahag er útlitið sem ekki getur talist týpískt fyrir neitt af þessum löndum en svipar þó til þeirra alla.  Ég er farin að velta því fyrir mér hvort það sé eitthvað fólk eftir í þessum heimi sem á rætur sínar að rekja til einhverrar einnar þjóðar því allir sem koma til mín virðast vera undarlegur hrærigrautur af hinum ýmsu menningarheimum.

Ég tók andfætlinginn með mér í partý í síðustu viku sem endaði í vitleysu á Kaffibarnum með fólki alls staðar að. Partýið fór fram á bát í Reykjavíkurhöfn en þar varð ég fyrir því skemmtilega óhappi að á mig skeit fugl sem sveimaði yfir gleðskapnum. Ég sannaði þó hið fornkveðna að þess háttar uppákomur séu til lukku þegar að ég vann rómantíska gistingu fyrir tvo á hóteli á Mývatni í happadrætti seinna um kvöldið. Ég á þó engan rómantískan félaga til þess að taka með mér og konan sem ég ætlaði að taka með mér fann sér kærasta á Kaffibarnum svo að þau geta bara átt sína rómantík í friði og fá ekki að koma með mér á Mývatn.  Á Kaffibarnum fékk ég svo ástarjátningu frá Nepala á stærð við hnefa og furðaði ég mig enn einu sinni á því hvaða áhrif þessi tröllskessa hefur á stærðarhefta menn.

Í grófum dráttum er gaman að vera ég þessa dagana og hrærigrautsliðið leikur stórt hlutverk í gleðinni.

Færðu inn athugasemd

Filed under Sófasörf