Monthly Archives: september 2008

Tim O’Horton’s hears a who

Kvartað var undan bloggleysi höfundar og er þessi færsla tilraun til að bæta úr því. Ég vil þó koma því að framfæri að ég tel ekki að þeir sem sjálfir vanrækja sínar eigin bloggsíður hafi atkvæðarétt þegar að kemur að tíðni færslna annars staðar. Höfundur hefur þó löngum talist sérlega greiðvirkinn og sáttarfús einstaklingur og hefur því ákveðið að bregðast við ákorun þeirri er birtist í athugasemd við síðustu færslu.

Ég og spænski skiptineminn ,sem ég á að vera innan handar í vetur, ákváðum að bregða okkur af bæ í gærkvöld og nýta fríu klippikortin sem ég fékk á RIFF. Myndin sem varð fyrir valinu var opnunarmyndin O’Horten sem kemur frá minnst uppáhaldslandinu mínu í heiminum, Noregi. Oslóarpésinn, sem er í stuttri heimsókn á Íslandi með kærastann og tengdafjölskylduna, sagði mér að þessi mynd hefði fengið dræma dóma í heimalandinu og því hélt ég af stað með engar væntingar í farteskinu. Myndin kom þó skemmtilega á óvart og mæli ég hiklaust með henni. Húmorinn, sem minnti mig um margt á hina áreynslulausu kímni sem einkenndi mynd Zach Braff: Garden State, var dásamlegur og mér fannst myndartakan heppnast einstaklega vel. Veldig bra!

Titillinn O’Horten minnir mig á Tim Hortons sem er fræg kanadísk kaffihúsakeðja nefnd eftir íshokkíleikmanni sem stofnaði fyrirtækið að mig minnir. Tim Hortons hefur verið hornsteinn í kanadískri menningu um árabil og fékk ég ekki að yfirgefa Toronto fyrr en ég var búin að prófa að borða morgunmat þar og drekka kaffi. Það kaldhæðnislega er þó að fyrir nokkrum árum keypti erkióvinurinn leyfið og er Tim Hortons nú í eigu Bandaríkjamanna. Það er svona eins og ef Brennivín væri framleitt í Danmörku. Tim Hortons er á hverju horni í Toronto, tvisvar á sumum hornum, og í hvert skipti sem ég las á skiltin þeirra þegar að ég gekk um borgina heyrði ég „hears a who“ óma einhvers staðar aftan í höfðinu á mér.

Annars er það að frétta að Spánverjinn, ekki sá sami og skiptineminn, sveik mig um kaffiboðið og hefur ekki látið í sér heyra . Ritgerðin stendur svo í 300 orðum þar sem ég strokaði út hluta af því sem ég hafði skrifað og tókst mér því að færast aftur um helgina í stað þess að klára eins og stóð til. Já og fégræðgi mín (lesist: fátækt sökum þess að engin hefur skilað veskinu mínu) varð til þess að ég þarf að vakna klukkan hálf sex í fyrramálið til þess að rúnta með strætó og telja farþega. Einn, tveir, ZZZzzzz……

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Að gefnu tilefni…

…vil ég benda á það að færslan hér fyrir neðan eru 485 orð sem er tæpur helmingurinn af ritgerð sem ég þarf að skrifa í einu námskeiðinu mínu sem má ekki fara yfir 1500 orð með forsíðu og öllu. Ég skrifaði færsluna hér fyrir neðan á tæpum klukkutíma en eftir tveggja daga setu fyrir framan tölvuskjáinn eru tæplega 400 orð komin á blað og þau vilja ekki verða fleiri. Af hverju ætli það sé?

Ég ætla að hitta ringlaða Spánverjann í kaffi á sunnudaginn með einhverjum vinum hans. Ég samþykkti aldrei að gerast íslenskukennari enda hef ég engin réttindi í það. Ég sé það mjög myndrænt fyrir mér hvernig þessi kaffihúsaferð á eftir að fara en í hausnum á mér eru hann og vinir hann stóreygir ljósbláir fuglar sem horfa opinmynntir á mig og bíða eftir að ég segi eitthvað stórkostlegt. Líklegar þykir mér þó að ég segi eitthvað asnalegt og ekki við hæfi eins og svo oft vill verða. Ég þarf að biðja einhvern að greina þetta með fuglana.

Ó, já, alveg rétt. Ég á tvo boðsmiða á opnunarhátið RIFF á morgun ef einhver vill koma með.

Þessi færsla eru 194 orð að þessari málsgrein meðtaldri.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl

Sveitamennska

Eins mikið og ég kann að meta íslenska ríkisfangið mitt þá finnst mér stundum óttalega erfitt að vera fædd og uppalin á þessu skeri. Þegar ég var yngri fóru mamma og pabbi stundum með mig á eðalbúllur eins og Tommaborgara og Svörtu pönnuna en þar fékk maður hamborgara, franskar og bleika og kók með.  Pizza var hátíðarmatur og miklu oftar en ekki sat maður heima við eldhúsborðið að pína ofan í sig ýsu með tómatsósu eða steikta lifur. Þegar að ég fór að ferðast ein komst ég fljótt að því að það voru alls kyns kræsingar í boði fyrir utan landsteinana sem höfðu aldrei ratað á diskinn minn hér. Eins og sönnum Íslendingi sæmir hélt ég þó fast í hefðirnar og snerti ekki á neinu sem ég ekki þekkti og fékk svo harðfisk og annað góðgæti sent í pósti frá Íslandi. Þannig atvikaðist það til dæmis að ég borðaði franskar og hrísgrjón til skiptis í hálft ár þegar að ég var 19 ára að skottast í Englandi. Reyndar fékk ég stundum skrítinn mat hjá kínversku fjölskyldunni sem ættleiddi mig á Spáni en ég setti fótinn niður þegar ég átti að fara að borða snigla og skelfisk sem var ennþá sprelllifandi. Það var ekki fyrr en ég endaði óvart ein í Króatíu og gisti hjá Mömmu Maríu í Dubrovnik að ég fór að prófa annað en hamborgara og pizzur á ferðalögum. Hún tróð í mig undarlegum króatískum hversdagsmat á meðan hún dásamaði fertugan son sinn sem hún vildi að ég giftist og mér til mikillar furðu lifði ég það af. Ég giftist þó ekki syni hennar þrátt fyrir að kunna að meta skjaldbökuræktina hans í garðinum og hamstrana í baðkarinu.

Löngu seinna, þegar að ég var búin að kynnast fólki sem var bæði eldra og heimsvanara en ég, komst ég upp á lagið með að vera opin fyrir öllu og panta bara eitthvað ef ég skil ekki matseðilinn. Mér líður samt alltaf betur ef ég er með einhverjum kunnugum eins og pakistanska vini mínum í London sem er duglegur að draga mig á nýja staði og kanadísku stelpuna sem kynnti mig fyrir afgönskum mat í Montréal. Mér líður alltaf svolítið eins og kjána þegar að þessir erlendu vinir mínir ræða hvað þeir eigi að fá sér en er orðin ansi góð í að feika það og biðja fólk um mæla með einhverju sérstöku á matseðlinum sem er gott á hverjum stað. Ég kenni snauðri matarmenningu á Íslandi um þennan vandræðagang minn og vildi að úr meiru væri að moða hér svo að hægt væri að kynna sér þetta betur. Hvar eru líbönsku og eþíópísku staðirnir í Reykjavík? Nú eða bara Sushi sem þú þarft ekki að selja úr þér nýra til að hafa efni á?

Oh, við erum svo sveitó.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Ferðalög

Rússibanareið í alþjóðastjórnmálum

Ég plantaði mér aftast í stofunni og tók eftir að taskan mín titraði eins og að lítill jarðskjálfti ætti upptök sín í henni miðri.  Ekki voru þetta þó jarðhræringar heldur var síminn minn á silent og einhver var að reyna að hringja í mig. Ég þekkti ekki númerið og hjartað í mér tók kipp. Kannski hafði einhver fundið veskið mitt og vildi nú ná í mig eftir að hafa leitað að mér eins og óður alla helgina. Kennarinn malaði upp á töflu um alls kyns isma sem allir blönduðust saman í eitt. Skyldi allt vera enn í veskinu?

Númerið birtist aftur á skjánum í kjölfar titrings og aftur náði ég ekki að svara. Mayday mayday, heilinn slökkti á móttakaranum og nú heyrði ég ekki einu sinni malið. Einhver hafði sett kennarann á silent. Ég starði á símann og óskaði þess í huganum að bjargvætturinn á hinni línunni myndi ekki lenda í bílslysi eða vera gleyptur af svartholi áður en að ég kæmist í pásu.

Kennarinn hætti að lokum að ismast uppi í púlti og ég hljóp á klikk klakk hælunum út úr stofunni og felldi næstum samnemanda minn í hamaganginum. Taugaóstyrk valdi ég númerið og beið eftir svari.  Hello, hello.. who is this? No, no. I was not calling anybody, I’m just at work here and my phone was in my pocket. Útlendingurinn á hinum endanum skildi ekkert hvaða kona var að hringja í hann og saka hann um að hafa hringt í sig. Who is this? spurði hann aftur og pirruð á skilningsleysinu svaraði ég: Who are you?

Þegar að blóðþrýstingurinn var kominn í eðlilegt horf og við útlendingurinn vorum búin að henda nokkrum Who is this? fram og tilbaka komst ég að því að þetta var einhver aumingjans Spánverji sem hafði fengið númerið mitt um daginn eftir að ég hafði lofað að hitta hann í kaffibolla og tala við hann íslensku. Ég var efst í símaskránni hans og hann gleymdi að setja lás á lyklaborðið. Ég reyndi að útskýra að ég hefði týnt veskinu mínu og að ég hefði haldið að hann hefði hringt í mig þess vegna. Your wallet, spurði hann ringlaður í röddinni, why would I have your wallet?

Það er skemmst frá því að segja að ég er ennþá veskislaus og alls laus og þar með talið formlega alveg laus við glóðuraugað. Ég hef ákveðið að taka því svo að þessi tilefnislausa geðshræring vegna óþekkts númers í missed calls skránni minni sé sönnun þess að ég hafi enn óbilandi trú á mannkynið.  Útlendingurinn lofaði að hringja aftur fljótlega vegna kaffibollans.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Takk fyrir að lesa þetta

Ég tapaði veskinu mínu í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt laugardagsins. Það er eiturgrænt og alveg tómt af peningum ef frá eru talin nokkur kanadísk cent. Í því voru Stúdentaskírteinið mitt, strætókortið mitt, debetkortið mitt, ESN námsmannakort og tómt gjafakort í Kringluna. Þetta eru allt kort með nafninu mínu og mynd af mér, nema gjafakortið, og ættu því ekki að nýtast neinum nema mér. Einnig voru í veskinu papírssnifsi með heimilisföngum og e-mail addressum hjá fólki sem ég hef hitt á ferðalögum og ég á hvergi annars staðar.

Ástæðan fyrir því að ég er að fara þessa óhefðbundnu leið í að reyna að fá það aftur er að ég er ekki skráð með síma nein staðar þannig að jafnvel þótt að einhver heiðarleg manneskja hafi fundið veskið gæti reynst erfitt fyrir viðkomandi að hafa uppi á mér. Ég er búin að tékka á reikningum mínum og það eru engar óeðlilegar færslur á debetkortinu mínu svo ég get ekki annað en vonað að veskið liggi hjá einhverri góðri manneskju sem hefur fullan hug á að koma því í réttar hendur. EF þú ert þessi manneskja þá máttu endilega hafa samband við mig!

Ég lofa sanngjörnum fundarlaunum ef ég fæ veskið tilbaka með öllu sem var í því.

Það er hægt að ná í mig í gegnum meil: audismaudi[hjá]hotmail.com eða í gegnum síma 845-0851.

Takk fyrir að lesa þetta
Auður Ösp

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Þakklæti

Stundum gengur allt á afturfótunum hjá manni. Símum er stolið. Veski týnast. Tölvur fá vírusa og óskipulagðar flugferðir af hjólum valda manni sársauka. Stundum gerist þetta allt á nokkrum dögum og maður getur ekki annað en að veltast um í sjálfsvorkunn og eymd. Þá er gott að setja hlutina í samhengi. Muna eftir félögum sem nú fara ferða sinna í hjólastól og vinum sem misstu meira en maður getur ímyndað sér. Svo ekki sé minnst á alla þá sem hafa ekki notið þeirra forréttinda að fæðast í landi þar sem ofgnótt er af öllu og hallæri í efnahagsmálum þýðir að leggja verði bíl númer tvö á heimilinu.

2008 er búið að vera gott ár. Síðasta vika hefði mátt vera betri en glóðuraugað er á undanhaldi og hreyfigeta handleggsins verður meiri með hverjum deginum. Það er hægt að kaupa nýja síma og maður verður að halda í vonina að fólk sé heiðarlegt og skili stúdentaskírteinum og strætókortum. Á 9 mánuðum heimsótti ég 8 lönd í 5 ferðum og hitti ótrúlegt fólk sem breytti lífi mínu. Ég er ekki með bílalán í erlendri mynt og á ekki kall sem er að halda fram hjá mér eða langveik börn.  Lífið er gott og ég er þakklát.

TÆLAND JANÚAR-FEBRÚAR

Konungshöllin í Bangkok

Tuk Tuk bílstjórinn sem bjargaði lífi mínu

Ástralar á fílsbaki

Bakpokaferðalangar í Chiang Mai

Strandlíf á Koh Lanta

LAOS JANÚAR

Mekong

Himnaríki á jörðu

Vang Vieng

KAMBÓDÍA FEBRÚAR

Þar sem ekki eru tveir bílar á heimili

Bayon hofið í Angkor Wat

Sætir litlir kambódískir krakkar

SPÁNN FEBRÚAR

Salamanca mi vida, mi corazón

La Casa De Las Conchas

Plaza Mayor Madrid

DANMÖRK MAÍ

Sólskinsdagur í Köben

Nyhavn

GRÆNLAND JÚNÍ

Kulusuk

Hressandi að komast í smá snjó

Trommudans

ENGLAND ÁGÚST

Muse

Wow, look at you now, Flowers in the window,Its such a lovely day,
And Im glad that you feel the same

KANADA ÁGÚST

Montréal

Nálægt Lanchine Rapids

Toronto

Þegar að ég verð gömul kona kem ég til með að líta tilbaka og segja fólki að 2008 hafi verið eitt besta ár lífs míns. Þrátt fyrir glóðurauga og týnd veski.

4 athugasemdir

Filed under Ferðalög

Gamlir kallar

Ég er með fordóma gagnvart gömlum köllum. Sérstaklega gömlum köllum á djamminu. Gamall kall á djamminu er í mínum huga ekki úti að skemmta sér eða að lyfta sér upp með vinum sínum heldur er hann á veiðum og er bráðin ungar stelpur. Þess vegna gaf ég gamla kallinum sem brosti til mína á Næsta Bar á föstudaginn, þegar að ég skaust þar inn til þess að nota salernið, illt auga. In your dreams hreytti ég í hann og hann horfði á mig í forundran þar sem ég strunsaði fram hjá.

Siðar um kvöldið voru strákarnir sem ég var með búnir að ná sér í tvær sjúskaðar beyglur sem otuðu bústnum brjóstunum framan í þá. Ég stóð eins og illa gerður hlutur við barinn og þar sem ég var pínu lítið pirruð yfir því að hafa ílengst á Næsta Bar ákvað ég að taka það út á gamla kallinum sem sat enn við barinn og nú með vin sinn sér við hlið. Hann brosti varfærnislega til mín og ég brosti tilbaka. Þú ert bara gamall kall sagði ég illkvittnislega og hann brosti áfram. Mér fannst hann sýna mikið jafnaðargeð þar til kom upp úr dúrnum að hann var frá Barcelona og skildi ekki stakt orð í íslensku og varla mikið meira í ensku.

Ég endaði á að spjalla heilmikið við þá kumpána og reyndust þeir hinir hressustu. Þeir áttu ekki orð yfir fegurð og þokka undirritaðrar og hældu mér fyrir bjagaða spænskuna. Áður en ég yfirgaf þá fékk ég e-mail hjá öðrum þeirra og lofaði hátíðlega að hafa samband ef ég kæmi einhvern tíma til Barcelona.

Maður á víst ekki að dæma bókina af kápunni, jafnvel þótt hún sé rykug og slitin hér og þar.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Margt skrýtið í kýrhausnum

Það er svo merkilegt hvað manni finnst merkilegt. Til dæmis fannst mér afar merkilegt þegar að ég flaug með Etihad Airwaves frá London til Abu Dhabi að  kafli úr Kóraninum var lesinn upphátt yfir alla vélina áður en hún fór í loftið. Það er í sjálfu sér ekkert svo merkilegt þannig en þetta fór fram í gegnum kallkerfi vélarinnar og á meðan lestrinum stóð var afar skrýtin mynd á sjónvarpsskjánum í sætisbakinu fyrir framan mig af skeggjuðum kalli með túrban á hausnum. Gat ég mér þess til að þarna væri Múhameð sjálfur á ferð en mér fannst það skjóta skökku við að þessi illa gerða teiknimynd horfði grimmilega á mig á meðan dimm rödd þuldi einhvern alsherjarsannleik upp úr helgiriti múslima á meðan að skopteikning af sama manni olli öllum þessu fári um heiminn.

Það var margt fleira sem vakti furðu mína á þessu tiltekna ferðalagi. Til dæmis fannst mér merkilegt að flugfreyjurnar voru allar með hatta sem voru með blæju öðru meginn. Um leið og þær fóru að athafna sig um vélina eftir að farþegarnir höfðu allir gengið um borð tóku þær niður hattana og þar með blæjurnar um leið. Ég gat ekki annað en velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum þeir sem hönnuðu búningana skelltu þessari hálfblæju á hattana. Nú eru sameinuðu arabísku furstadæmin mun opnari en mörg nágrannaríki þeirra og nú er meira að segja svo komið að það eru fleiri útlendingar í Abu Dhabi en innfæddir og það er greinilegt að það er ekki gerð krafa um að konur gangi með blæju. Flugfreyjurnar hjá Etihad voru meira að segja mjög pæjulega klæddar og ekki var verið að hugsa um að fela kvenlegar línur heldur. Kannski vill flugfélagið hafa hálfblæjuna þarna af virðingu við heimalandið en maður spyr sig þá að því af hverju þær eru þá ekki bara látnar ganga með almennilega blæju? Þetta olli mér og veldur mér enn töluverðum heilabrotum. Spurning um að ég sendi Etihad línu og fái botn í þetta mál.

Þegar að maður flýgur svo í burt frá Abu Dhabi fer maður í gegnum öryggisleit eins og á öðrum flugvöllum. Það eina sem var öðruvísi var að við hliðina á öryggishliðinu var bás með hurð sem hægt var að loka og einhvers konar gardínur vörnuðu því að hægt væri að sjá hvað þar færi fram. Þegar að hliðið pípti á konu sem gekk þar í gegn kom kvenkyns öryggisvörður og leiddi hana inn í básinn þar sem fór fram hin venjubundna leit sem fer fram þegar að öryggishlið pípir. Þetta mátti sum sé ekki framkvæma í viðurvist annarra eða svo að karlmenn sæju til. Þetta fannst mér merkilegt. Þó fannst mér merkilegra að það væri kona í öryggisgæslunni því ég get ekki ímyndað mér að í landi þar sem konan á að sýna undirgefni samkvæmt hefðinni að hún fái að bera vopn eða segja karlmönnum til. Hennar eina hlutverk hlýtur því að hafa verið að leita á þeim konum sem pípti á. Ég þekki þó ekki nægjanlega til í UAE til þess að skilja þetta fullkomlega.

Það undarlegasta af öllu fannst mér þó þegar að konur í svörtum sloppum með blæjur fyrir öllu andlitinu nema augunum fóru í immigration röðina á flugvellinum í Bangkok og virtust ekki þurfa að sýna á sér andlitið til að komast inn í landið. Eftirfarandi hugmyndir komu upp í hausinn á mér: a) þær eru með myndir af sjálfum sér með blæjuna í vegabréfinu eða b) þær eru eign manna sinna og eiga ekki eigið vegabréf heldur eru einhvern veginn skráðar í vegabréf eiginmannsins eins og börn eru skráð í vegabréf foreldra sinna. Ég þorði nú ekki að spyrja neina af þessum blæjukonum hverjar reglurnar væru í sambandi við þetta allt saman og fagna því ef einhver getur komið með líklega skýringu.

Þetta átti nú ekki að vera einhver ofurfærsla um blæjur og konurnar undir þeim en úr því að ég er byrjuð verð ég að enda á því hversu skoplegt mér fannst það þegar að ég sat í rútu frá Wolverhampton til London um daginn og það var kona í svona svörum sloppi með allt falið nema augun að drekka kóka kóla úr dós með röri svo hún gæti gert það án þess að sýna á sér andlitið.

Færðu inn athugasemd

Filed under Ferðalög

iPod örfærsla: Nynemaferd

Ekki byrjar thad vel. Alvarlega thenkjandi háskólastúdínan sem ekki les Perez Hilton drakk ca. 7 bjórum of mikid í nynemaferdinni, kyssti eitthvad barn thjakad af samviskubiti yfir ad vera halda framhjá mögulegri framtídarkærustu og gerdi svo allt vitlaust á Hressó med thví ad hafa of margar skodanir. Ég ætti ad hafa áhyggjur ordspori mínu og heidri en lífid er of stutt. Ég verd aldrei thingkona eda pólitíkus hvort ed er svo ég má hafa allt thad óhreina mjöl í pokahorninu sem kemst thar fyrir. Ég sem ætladi samt ad vera svo kúl á thví. Núna er ég gamla konan sem vard of full og hössladi krakkann!

4 athugasemdir

Filed under Hitt kynið

Vangaveltur

Stundum vildi ég að ég ætti risastórt strokleður og gæti bara strokað út ákveðna hluti út úr lífssögunni minni. Byrja upp á nýtt með hreinan skjöld og hreint hjarta. Ó ef að lífið væri bara teikniblokk.

Annars er það helst að frétta að ég fór í fyrsta tímann minn í Háskólanum í dag.  Mér finnst svo óendanlega skrítið að vera loksins komin á þennan stað eftir allan barninginn. Að sækja um stúdentakortið, fá aðgang að Uglunni og mega nota Uni.Iceland networkið á Facebook. Smámunir í augum annarra, stórsigur í mínu lífi. Ég velti fyrir mér hversu lengi nýjabrumið endist og ég verð farin að bölva verkefnaskilum og ósanngjörnum kennurum. Eða á maður að kalla þá prófessora? Er ekki komin inn í tungutak gamalreyndra háskólanema ennþá. Er víst í námskeiðum en ekki áföngum eins og ég segi alltaf.

Kannski að ég verði alvarlega þenkjandi ung kona núna og hætti að lesa Perez Hilton.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl