Margt skrýtið í kýrhausnum

Það er svo merkilegt hvað manni finnst merkilegt. Til dæmis fannst mér afar merkilegt þegar að ég flaug með Etihad Airwaves frá London til Abu Dhabi að  kafli úr Kóraninum var lesinn upphátt yfir alla vélina áður en hún fór í loftið. Það er í sjálfu sér ekkert svo merkilegt þannig en þetta fór fram í gegnum kallkerfi vélarinnar og á meðan lestrinum stóð var afar skrýtin mynd á sjónvarpsskjánum í sætisbakinu fyrir framan mig af skeggjuðum kalli með túrban á hausnum. Gat ég mér þess til að þarna væri Múhameð sjálfur á ferð en mér fannst það skjóta skökku við að þessi illa gerða teiknimynd horfði grimmilega á mig á meðan dimm rödd þuldi einhvern alsherjarsannleik upp úr helgiriti múslima á meðan að skopteikning af sama manni olli öllum þessu fári um heiminn.

Það var margt fleira sem vakti furðu mína á þessu tiltekna ferðalagi. Til dæmis fannst mér merkilegt að flugfreyjurnar voru allar með hatta sem voru með blæju öðru meginn. Um leið og þær fóru að athafna sig um vélina eftir að farþegarnir höfðu allir gengið um borð tóku þær niður hattana og þar með blæjurnar um leið. Ég gat ekki annað en velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum þeir sem hönnuðu búningana skelltu þessari hálfblæju á hattana. Nú eru sameinuðu arabísku furstadæmin mun opnari en mörg nágrannaríki þeirra og nú er meira að segja svo komið að það eru fleiri útlendingar í Abu Dhabi en innfæddir og það er greinilegt að það er ekki gerð krafa um að konur gangi með blæju. Flugfreyjurnar hjá Etihad voru meira að segja mjög pæjulega klæddar og ekki var verið að hugsa um að fela kvenlegar línur heldur. Kannski vill flugfélagið hafa hálfblæjuna þarna af virðingu við heimalandið en maður spyr sig þá að því af hverju þær eru þá ekki bara látnar ganga með almennilega blæju? Þetta olli mér og veldur mér enn töluverðum heilabrotum. Spurning um að ég sendi Etihad línu og fái botn í þetta mál.

Þegar að maður flýgur svo í burt frá Abu Dhabi fer maður í gegnum öryggisleit eins og á öðrum flugvöllum. Það eina sem var öðruvísi var að við hliðina á öryggishliðinu var bás með hurð sem hægt var að loka og einhvers konar gardínur vörnuðu því að hægt væri að sjá hvað þar færi fram. Þegar að hliðið pípti á konu sem gekk þar í gegn kom kvenkyns öryggisvörður og leiddi hana inn í básinn þar sem fór fram hin venjubundna leit sem fer fram þegar að öryggishlið pípir. Þetta mátti sum sé ekki framkvæma í viðurvist annarra eða svo að karlmenn sæju til. Þetta fannst mér merkilegt. Þó fannst mér merkilegra að það væri kona í öryggisgæslunni því ég get ekki ímyndað mér að í landi þar sem konan á að sýna undirgefni samkvæmt hefðinni að hún fái að bera vopn eða segja karlmönnum til. Hennar eina hlutverk hlýtur því að hafa verið að leita á þeim konum sem pípti á. Ég þekki þó ekki nægjanlega til í UAE til þess að skilja þetta fullkomlega.

Það undarlegasta af öllu fannst mér þó þegar að konur í svörtum sloppum með blæjur fyrir öllu andlitinu nema augunum fóru í immigration röðina á flugvellinum í Bangkok og virtust ekki þurfa að sýna á sér andlitið til að komast inn í landið. Eftirfarandi hugmyndir komu upp í hausinn á mér: a) þær eru með myndir af sjálfum sér með blæjuna í vegabréfinu eða b) þær eru eign manna sinna og eiga ekki eigið vegabréf heldur eru einhvern veginn skráðar í vegabréf eiginmannsins eins og börn eru skráð í vegabréf foreldra sinna. Ég þorði nú ekki að spyrja neina af þessum blæjukonum hverjar reglurnar væru í sambandi við þetta allt saman og fagna því ef einhver getur komið með líklega skýringu.

Þetta átti nú ekki að vera einhver ofurfærsla um blæjur og konurnar undir þeim en úr því að ég er byrjuð verð ég að enda á því hversu skoplegt mér fannst það þegar að ég sat í rútu frá Wolverhampton til London um daginn og það var kona í svona svörum sloppi með allt falið nema augun að drekka kóka kóla úr dós með röri svo hún gæti gert það án þess að sýna á sér andlitið.

Færðu inn athugasemd

Filed under Ferðalög

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s