Monthly Archives: október 2008

Gáfumannarit

Ég komst yfir eintak af nýjasta Economist í dag þar sem að segir meðal annars í grein um vandamálin sem blasa við hagkerfum Austur-Evrópu: „WILL an ex-communist country be the next Iceland?“.  Ég veit ekki af hverju en mér finnst þetta afskaplega súrrealísk staða sem við erum búin að koma okkur í, hvort sem það var gert með hjálp hinna illu Breta og undirmálslána í Bandaríkjunum eða ekki. Ég ætla samt ekkert að ræða þetta frekar þar sem ég er a) ekki hagfræðingur og skil þetta mál alls ekki nógu vel og b) það eru allir orðnir dauðleiðir á að heyra um það. Hinsvegar get ég sagt ykkur að The Economist og Newsweek og svona blöð hafa verið uppáhalds fluglestrarefnið mitt núna til nokkurra ára. Það hefur eflaust skotið skökku við í augum margra þegar að ég var að bakpokaferðalagast um Suðaustur-Asíu á flipp flopp sandölum og Tæbuxum að í stað þess að lesa The Lonely Planet spjaldanna á milli á hinum ýmsu flugvöllum á ferðalaginu ,eins og samferðamenn mínir, sat ég oft og iðulega með þessi tímarit og býsnaðist yfir heimsmálunum. Reyndar varð mest af þeirri þekkingu sem ég aflaði mér á þessu ferðalagi eftir í Asíu þar sem ég drap heilasellurnar sem geymdu hinar nýju upplýsingar jafnóðum með óhóflegri bjórdrykkju.

Allavega! Þrátt fyrir góðan vilja af minni hálfu og alveg hreint ágætis enskukunnáttu þá skildi ég aldrei nema helminginn í sumum greinunum sem ég var að lesa. Ástæðan var alls kyns fagmál og skírskotun í atburði, stofnanir, menn og málefni sem ég kannaðist lítið sem ekkert við. Í dag hins vegar þá allt í einu tók ég eftir því að ég skildi mun meira en áður. Hlutir eins og Bretton Woods, IMF, IJC, The Bradley Effect og hvað þetta heitir allt saman voru allt í einu ekki bara undarleg uppröðun stafa sem hafði enga merkingu í hausnum á mér heldur gat ég tengt þetta við fyrirlestra sem ég hef setið og námsefnið í skólanum. Það var eins og nýr heimur hefði opnast fyrir mér og loksins fannst mér ég hafa lært eitthvað. Ég er mjög mikið búin að velkjast í vafa um hvort ég hafi valið rétta námið fyrir mig en ég skráði mig einmitt í stjórnmálafræði af því að ég vildi skilja meira. Ég er kannski ekki alveg 100% að finna mig í þessu en alltént skil ég örlítið meira en áður. Það ætti þó ekki að koma á óvart að alþjóðastjórnmálin er uppáhalds kúrsinn minn.

Annars voru nokkrar mjög áhugaverðar greinar í The Economist að þessu sinni. Til dæmis var grein um aðferðir sem Saudi Arabía hefur verið að beita gegn íslömskum hryðjuverkamönnum (sem er áhugavert þar sem Saudi er líklega það land sem er hvað strangtrúaðast í hinum íslamska heimi) og önnur um genatískar rannsóknir á samkynhneigð. Mæli með þessu ef að einhver þarf að fara til læknis og finnur þetta eintak á biðstofunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Kvart og kvein

Vika svefnleysis, stresskasta og almennrar óánægju er að renna upp. Í fyrsta skipti í sögu háskólagöngu minnar, sem er enn frekar stutt verður að viðurkennast, er ég formlega að drukkna. Ég reyni þó að halda sjálfsvorkunn minni í lágmarki þar sem um sjálfskaparvíti er að ræða. Mér var nær að vera að drekka bjór alla daga og kúra hjá einhverjum krakkaskratta í stað þess að læra. Maður uppsker eins og maður sáir og allt það. Það er þó huggun harmi gegn að ég er tiltörulega skýr í kollinum þannig að ef ég finn mér tíma til að setjast niður og skrifa allar þessar ritgerðir og verkefni sem framundan eru þá ætti mér að takast að fá ásættanlegar einkunnir fyrir þau. Ég hafði reyndar sett stefnuna á stórkostlegan árangur fyrir veturinn en skítsæmilegt verður víst að duga.

Mér liði mun betur með þetta allt saman ef að ég væri ekki að fara að passa einhverjar útlendinga á launum um helgina. Einhvern veginn fóru skyldur mínar við útlendingana úr því að kynna þeim næturlíf landans eitt kvöld yfir í að sækja þau á flugvöllinn, fara út á lífið og drífa þau svo í Bláa Lónið á sunnudag. Ég ætti kannski ekki að kvarta yfir því að fá borgað fyrir að djamma og fara í Bláa Lónið en þetta passar einkar illa inn í skipulagið. Og svo er ég ekkert alltof hress með að bera bumbuna fyrir framan horrenglu frá London og að öllum líkindum aðlaðandi maka hennar. Ég vona að hún verði með bólu á nefinu og hann með skalla.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Búið spil

Tveggja vikna mini sambandi mínu við ástralska barnið er senn að ljúka. Hann flýgur til Berlín á morgun og ég býst ekkert sérstaklega við að sjá hann aftur. Eins fáránlegt og það kann að hljóma þá verður skrýtið að sofa aftur ein í rúminu mínu og hafa ekki einhvern til að tala við allan sólarhringinn. Það er hægt að læra margt um fólk á tveimur vikum og enn meira um sjálfan sig. Þessi ótrúlega klári og indæli strákur á eftir að gleðja einhverja konu mjög mikið þegar að hann kemur sér loksins heim eftir ævintýrin. Taugaskurðlæknir sem spilar á gítar og semur tónlist í hjáverkum er góður fengur í öllum heimsálfum. Verst að ég verð orðin gömul kona þegar að hann klárar námið sitt og hefur aftur tíma til að heimsækja þennan útnára á hjara veraldar.

Ein athugasemd

Filed under Hitt kynið

Sjálfselska

Í tilefni 840. færslu á blogginu hennar Hlífar hef ég ákveðið að birta þessa mynd.

Fyndist fyndið að sjá fleiri útfærslur á þessari hugmynd á bloggum vinkvennanna.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Ástæður fyrir fjarveru

1) Airwaves. Fullt að gerast, ekki mikið tóm til þess að vera að skrifa einhverjar epískar bloggfærslur.

2) Skólinn. Alls kyns verkefni að dynja yfir. Dauði og djöfull.

3) Gaur. Ég held ég sé skotin í strák. Ég held hann sé líka skotinn í mér. Veit það samt ekki alveg. Skiptir ekki öllu máli því hann býr í Ástralíu. Er á meðan er.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið

Viltu vera memm?

Í gærkvöldi skrapp ég á Októberfest með stjórnmálafræðipíunum. Það var hressandi. Þar hitti ég gamlan skólafélaga sem ég hafði ekki séð í þónokkurn tíma. Ég var alltaf alveg rosalega skotin í honum í gamla daga og þó ég hafi skipst á að vera skotin í þeim nokkrum þá átti þessi alltaf sérstakan stað í hjarta mér. Skotið entist í mörg ár, langt út fyrir grunnskólann, og þrátt fyrir að hafa gert misheppnaða tilraun til þess að bjóða honum út í kringum 17 ára aldurinn þá þorði ég aldrei að láta þessar tilfinningar mínar í ljós.

Þar sem við sátum og spjölluðum um gamla tíma sagði ég honum hlæjandi frá þessu. Ég átti nú ekki von á öðru en að hann myndi hlæja með mér en mig rak í rogastans þegar að hann sagði mér að hann hefði líka verið skotinn í mér. Hann var víst skíthræddur við mig, sagði að ég hefði verið ógnvekjandi, og þorði aldrei að gera neitt í því. Í eitt skiptið hafði hann þó manað sig upp í að hringa í mig, í fyrsta skipti sem hann hringdi nokkurn tíma í stelpu sem hann var hrifinn af, undir því yfirskyni að hann vantaði einhvern tölvuleik sem að hann hélt að ég ætti. Dimm karlmannsrödd svaraði og tjáði honum þar sem hann skalf hinu meginn á línunni að ég væri á klósettinu og svo húkti hann á línunni þangað til ég var tilbúin að segja halló. Hann spurði mig um leikinn og ég svaraði víst: Nei, ég á hann ekki! og skellti á hann. Hann þorði aldrei að hringja í mig aftur.

Mér hefur alltaf þótt vænt um þennan strák, þótt að ég sé löngu hætt að vera skotin í honum, og mér þykir vænt um þessa minningu. Gaman að sjá að við erum orðin nógu gömul og þroskuð til að ræða þetta og hlæja að þessu saman. Þetta kennir manni líka að maður veit aldrei hvað aðrir eru að hugsa.

Ég velti því samt fyrir sér í framhaldinu: Ætli einhverjir aðrir hafi verið skotnir í mér? Ætli ég hafi hrætt marga? Reyndar heldur Hlíf því fram að ég sé enn ógnvekjandi.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl

Vugl og ritleysa

Ég ætla ekki einu sinni að reyna að skilja þetta. Á að skila verkefni í Alþjóðastjórnmálum á miðvikudag og í vinnulaginu á föstudag og þarf að beina allri minni orku að því. Ætlaði að hitta BéBéSéarann í kvöld en hann er örugglega að vinna úr atburðum dagsins og verður ekki hleypt á barrölt í kvöld. Kannski eins gott bara.

Ég tók fregnum af kreppu alvarlega og eldaði gamlar kartöflur í kvöldmatinn í stað þess að henda þeim. Kartöflurnar héldu lífi í Írum, þær hljóta að geta haldið lífi í einum skitnum Íslendingi. Ég held ég þurfi að endurskoða fyrirhuguð plön um heimsókn í bankann á morgun til þess að ræða um útfærslu á framfærsluláni vegna námslána. Ég verð svo aftur að endurskoða stöðu mína sem námsmaður ef að þetta framfærslulánsdæmi verður eitthvað vesen.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Blekkt af fréttamanni BéBéSé

Venjulega þegar að ég fer til London hitti ég vin minn E sem ég er búin að þekkja núna í örugglega 5-6 ár. Í fyrsta skipti sem ég hitti hann kynnti hann mig fyrir vini sínum sem ég hef síðan hitt af og til með honum í London og svo komu þeir kumpánar í heimsókn til mín fyrir tveimur árum og við eyddum frábærum tíma saman. Þeir eru fyndnir, kærusturnar þeirra indælar og það er alltaf gaman að hitta þau öll.

Eftir að hafa eytt helginni í sumarbústað fyrir austan í rólegheitum að læra kom mér það afar mikið á óvart að fá sms frá E á leiðinni upp Kambana þar sem hann tilkynnti mér það að vinurinn væri á Íslandi og vildi endilega hitta mig. Hann gaf mér númerið hans og sagðist myndi gefa honum númerið mitt. Fyrr átti ég von á dauða mínum en að hitta hann aftur í Reykjavík. Vinurinn er hagfræðingur sem vinnur á BBC fréttastofunni og var sendur til Íslands til að fjalla um efnahagsástandið. Skömmu eftir að ég kom heim fékk ég svo símtal og úr varð að ég mælti mér mót við hann í öl á Hressó.

Til að gera langa sögu stutta þá hélt ég að ég væri að hitta félaga minn frá London í öl á milli dagskráliða hjá honum en í staðinn hitti ég fréttamann BéBéSé sem punktaði niður það sem ég sagði og spurði mig svo hvort hann mætti ekki örugglega hafa þetta eftir mér. Hann gaf mér val um að vera nafnlaus eða undir fullu nafni og bað mig svo um að fá að taka mynd af mér til að nota með greininni sem ég hafði ekki hugmynd um að hann væri að skrifa. Hann vinnur á sjónvarpsfréttastofu BéBéSé en var beðinn af BéBéSé Onlæn að skrifa smá greinarkorn um ástandið áður en þeir vinda sér í að taka öll sjónvarpsviðtölin sem þeir þurfa að taka á morgun, meðal annars við Geir „Hotness“ Haarde*.

Ég var blekkt. Lokkuð með bjór og fyrirheitum um vinaspjall. Í staðinn lendir smettið á mér kannski á einni af stærri fréttasíðunum í heiminum. Og í tengslum við efnahagsmál af öllu.

Annars öfunda ég ekki fréttamennina sem hafa hreiðrað um sig hérna í Tjarnargötunni en ég hjólaði fjórum sinnum fram hjá þeim í kvöld og það virtist ekkert vera gaman hjá þeim. Þetta er þó skárra en þegar að þjóðhöfðingjar heimsækja ráðherrabústaðinn en þá er götunni hreinlega lokað.

*Að gefnu tilefni vil ég taka fram að mér finnst Geir H. Haarde EKKI hot og því síður Sexy. Myndina tók ég af gluggakistu 15 ára systur minnar einhvern tíma í fyrra en á MySpace síðunni hennar stendur einmitt: Mér finnst Árni Mathiesen hönk. Ég hef ákveðið að ræða við móður mína þessar undarlegu áráttu yngstu dóttur hennar þegar að kemur að miðaldra pólitíkusum en það breytir því ekki að myndin er fyndin.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Æ!

Ég var á leiðinni heim með strætó um daginn þegar að bílstjórinn stöðvar allt í einu vagninn og leggst á flautuna. Þetta var á hringtorginu við N1 við gömlu Hringbrautina og ástæðan fyrir því að strætóinn komst ekki áfram var að tveir gaurar í vel straujuðum fataplöggum voru í óða önn að ýta bensínlausum Porche á bensínstöðina. Það er ekkert grín að vera bankaplebbi á Porche í dag.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl