Category Archives: Ferðalög

Sveitamennska

Eins mikið og ég kann að meta íslenska ríkisfangið mitt þá finnst mér stundum óttalega erfitt að vera fædd og uppalin á þessu skeri. Þegar ég var yngri fóru mamma og pabbi stundum með mig á eðalbúllur eins og Tommaborgara og Svörtu pönnuna en þar fékk maður hamborgara, franskar og bleika og kók með.  Pizza var hátíðarmatur og miklu oftar en ekki sat maður heima við eldhúsborðið að pína ofan í sig ýsu með tómatsósu eða steikta lifur. Þegar að ég fór að ferðast ein komst ég fljótt að því að það voru alls kyns kræsingar í boði fyrir utan landsteinana sem höfðu aldrei ratað á diskinn minn hér. Eins og sönnum Íslendingi sæmir hélt ég þó fast í hefðirnar og snerti ekki á neinu sem ég ekki þekkti og fékk svo harðfisk og annað góðgæti sent í pósti frá Íslandi. Þannig atvikaðist það til dæmis að ég borðaði franskar og hrísgrjón til skiptis í hálft ár þegar að ég var 19 ára að skottast í Englandi. Reyndar fékk ég stundum skrítinn mat hjá kínversku fjölskyldunni sem ættleiddi mig á Spáni en ég setti fótinn niður þegar ég átti að fara að borða snigla og skelfisk sem var ennþá sprelllifandi. Það var ekki fyrr en ég endaði óvart ein í Króatíu og gisti hjá Mömmu Maríu í Dubrovnik að ég fór að prófa annað en hamborgara og pizzur á ferðalögum. Hún tróð í mig undarlegum króatískum hversdagsmat á meðan hún dásamaði fertugan son sinn sem hún vildi að ég giftist og mér til mikillar furðu lifði ég það af. Ég giftist þó ekki syni hennar þrátt fyrir að kunna að meta skjaldbökuræktina hans í garðinum og hamstrana í baðkarinu.

Löngu seinna, þegar að ég var búin að kynnast fólki sem var bæði eldra og heimsvanara en ég, komst ég upp á lagið með að vera opin fyrir öllu og panta bara eitthvað ef ég skil ekki matseðilinn. Mér líður samt alltaf betur ef ég er með einhverjum kunnugum eins og pakistanska vini mínum í London sem er duglegur að draga mig á nýja staði og kanadísku stelpuna sem kynnti mig fyrir afgönskum mat í Montréal. Mér líður alltaf svolítið eins og kjána þegar að þessir erlendu vinir mínir ræða hvað þeir eigi að fá sér en er orðin ansi góð í að feika það og biðja fólk um mæla með einhverju sérstöku á matseðlinum sem er gott á hverjum stað. Ég kenni snauðri matarmenningu á Íslandi um þennan vandræðagang minn og vildi að úr meiru væri að moða hér svo að hægt væri að kynna sér þetta betur. Hvar eru líbönsku og eþíópísku staðirnir í Reykjavík? Nú eða bara Sushi sem þú þarft ekki að selja úr þér nýra til að hafa efni á?

Oh, við erum svo sveitó.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Ferðalög

Þakklæti

Stundum gengur allt á afturfótunum hjá manni. Símum er stolið. Veski týnast. Tölvur fá vírusa og óskipulagðar flugferðir af hjólum valda manni sársauka. Stundum gerist þetta allt á nokkrum dögum og maður getur ekki annað en að veltast um í sjálfsvorkunn og eymd. Þá er gott að setja hlutina í samhengi. Muna eftir félögum sem nú fara ferða sinna í hjólastól og vinum sem misstu meira en maður getur ímyndað sér. Svo ekki sé minnst á alla þá sem hafa ekki notið þeirra forréttinda að fæðast í landi þar sem ofgnótt er af öllu og hallæri í efnahagsmálum þýðir að leggja verði bíl númer tvö á heimilinu.

2008 er búið að vera gott ár. Síðasta vika hefði mátt vera betri en glóðuraugað er á undanhaldi og hreyfigeta handleggsins verður meiri með hverjum deginum. Það er hægt að kaupa nýja síma og maður verður að halda í vonina að fólk sé heiðarlegt og skili stúdentaskírteinum og strætókortum. Á 9 mánuðum heimsótti ég 8 lönd í 5 ferðum og hitti ótrúlegt fólk sem breytti lífi mínu. Ég er ekki með bílalán í erlendri mynt og á ekki kall sem er að halda fram hjá mér eða langveik börn.  Lífið er gott og ég er þakklát.

TÆLAND JANÚAR-FEBRÚAR

Konungshöllin í Bangkok

Tuk Tuk bílstjórinn sem bjargaði lífi mínu

Ástralar á fílsbaki

Bakpokaferðalangar í Chiang Mai

Strandlíf á Koh Lanta

LAOS JANÚAR

Mekong

Himnaríki á jörðu

Vang Vieng

KAMBÓDÍA FEBRÚAR

Þar sem ekki eru tveir bílar á heimili

Bayon hofið í Angkor Wat

Sætir litlir kambódískir krakkar

SPÁNN FEBRÚAR

Salamanca mi vida, mi corazón

La Casa De Las Conchas

Plaza Mayor Madrid

DANMÖRK MAÍ

Sólskinsdagur í Köben

Nyhavn

GRÆNLAND JÚNÍ

Kulusuk

Hressandi að komast í smá snjó

Trommudans

ENGLAND ÁGÚST

Muse

Wow, look at you now, Flowers in the window,Its such a lovely day,
And Im glad that you feel the same

KANADA ÁGÚST

Montréal

Nálægt Lanchine Rapids

Toronto

Þegar að ég verð gömul kona kem ég til með að líta tilbaka og segja fólki að 2008 hafi verið eitt besta ár lífs míns. Þrátt fyrir glóðurauga og týnd veski.

4 athugasemdir

Filed under Ferðalög

Margt skrýtið í kýrhausnum

Það er svo merkilegt hvað manni finnst merkilegt. Til dæmis fannst mér afar merkilegt þegar að ég flaug með Etihad Airwaves frá London til Abu Dhabi að  kafli úr Kóraninum var lesinn upphátt yfir alla vélina áður en hún fór í loftið. Það er í sjálfu sér ekkert svo merkilegt þannig en þetta fór fram í gegnum kallkerfi vélarinnar og á meðan lestrinum stóð var afar skrýtin mynd á sjónvarpsskjánum í sætisbakinu fyrir framan mig af skeggjuðum kalli með túrban á hausnum. Gat ég mér þess til að þarna væri Múhameð sjálfur á ferð en mér fannst það skjóta skökku við að þessi illa gerða teiknimynd horfði grimmilega á mig á meðan dimm rödd þuldi einhvern alsherjarsannleik upp úr helgiriti múslima á meðan að skopteikning af sama manni olli öllum þessu fári um heiminn.

Það var margt fleira sem vakti furðu mína á þessu tiltekna ferðalagi. Til dæmis fannst mér merkilegt að flugfreyjurnar voru allar með hatta sem voru með blæju öðru meginn. Um leið og þær fóru að athafna sig um vélina eftir að farþegarnir höfðu allir gengið um borð tóku þær niður hattana og þar með blæjurnar um leið. Ég gat ekki annað en velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum þeir sem hönnuðu búningana skelltu þessari hálfblæju á hattana. Nú eru sameinuðu arabísku furstadæmin mun opnari en mörg nágrannaríki þeirra og nú er meira að segja svo komið að það eru fleiri útlendingar í Abu Dhabi en innfæddir og það er greinilegt að það er ekki gerð krafa um að konur gangi með blæju. Flugfreyjurnar hjá Etihad voru meira að segja mjög pæjulega klæddar og ekki var verið að hugsa um að fela kvenlegar línur heldur. Kannski vill flugfélagið hafa hálfblæjuna þarna af virðingu við heimalandið en maður spyr sig þá að því af hverju þær eru þá ekki bara látnar ganga með almennilega blæju? Þetta olli mér og veldur mér enn töluverðum heilabrotum. Spurning um að ég sendi Etihad línu og fái botn í þetta mál.

Þegar að maður flýgur svo í burt frá Abu Dhabi fer maður í gegnum öryggisleit eins og á öðrum flugvöllum. Það eina sem var öðruvísi var að við hliðina á öryggishliðinu var bás með hurð sem hægt var að loka og einhvers konar gardínur vörnuðu því að hægt væri að sjá hvað þar færi fram. Þegar að hliðið pípti á konu sem gekk þar í gegn kom kvenkyns öryggisvörður og leiddi hana inn í básinn þar sem fór fram hin venjubundna leit sem fer fram þegar að öryggishlið pípir. Þetta mátti sum sé ekki framkvæma í viðurvist annarra eða svo að karlmenn sæju til. Þetta fannst mér merkilegt. Þó fannst mér merkilegra að það væri kona í öryggisgæslunni því ég get ekki ímyndað mér að í landi þar sem konan á að sýna undirgefni samkvæmt hefðinni að hún fái að bera vopn eða segja karlmönnum til. Hennar eina hlutverk hlýtur því að hafa verið að leita á þeim konum sem pípti á. Ég þekki þó ekki nægjanlega til í UAE til þess að skilja þetta fullkomlega.

Það undarlegasta af öllu fannst mér þó þegar að konur í svörtum sloppum með blæjur fyrir öllu andlitinu nema augunum fóru í immigration röðina á flugvellinum í Bangkok og virtust ekki þurfa að sýna á sér andlitið til að komast inn í landið. Eftirfarandi hugmyndir komu upp í hausinn á mér: a) þær eru með myndir af sjálfum sér með blæjuna í vegabréfinu eða b) þær eru eign manna sinna og eiga ekki eigið vegabréf heldur eru einhvern veginn skráðar í vegabréf eiginmannsins eins og börn eru skráð í vegabréf foreldra sinna. Ég þorði nú ekki að spyrja neina af þessum blæjukonum hverjar reglurnar væru í sambandi við þetta allt saman og fagna því ef einhver getur komið með líklega skýringu.

Þetta átti nú ekki að vera einhver ofurfærsla um blæjur og konurnar undir þeim en úr því að ég er byrjuð verð ég að enda á því hversu skoplegt mér fannst það þegar að ég sat í rútu frá Wolverhampton til London um daginn og það var kona í svona svörum sloppi með allt falið nema augun að drekka kóka kóla úr dós með röri svo hún gæti gert það án þess að sýna á sér andlitið.

Færðu inn athugasemd

Filed under Ferðalög

Toronto

Ein athugasemd

Filed under Ferðalög

Montréal

Færðu inn athugasemd

Filed under Ferðalög

Kanada

Ég er núna í Toronto eftir að hafa eytt yndislegum tíma í Montréal með nýjum vinum og gömlum. Ég sit í Lobby-inu á rándýra hótelinu sem ég er að gista á (frítt auðvitað, myndi ALDREI borga fyrir þetta sjálf) og fylgist með töskuberum burðast með annara manna farangur á gylltum vögnum sem renna mjúklega eftir bónuðu marmaragólfinu. Toronto hefur ekki sama sjarma og Montréal en búðirnar eru góðar og gærkvöldinu eyddi ég á frægasta pöbb borgarinnar þar sem boðið er upp á lifandi tónlist alla daga vikunar og hljómsveitir eins og Rolling Stones dúkka stundum upp á svið án þess að tilkynna komu sína og spila frí gigg. Ég hefði auðveldlega geta eytt fleiri dögum í Montréal en er samt glöð að hafa dröslast hingað í rútunni því hér er líka gott að vera. Ég tilkynni það hér með að ég ELSKA Kanada!

Meira síðar þegar að ég er ekki á leiðinni út á djammið á Miðvikudegi með hressu fólki sem ég þekki sama og ekkert.

Ein athugasemd

Filed under Ferðalög

Wolverhampton

Á kaffihúsi í Wolverhampton situr skeggjuð kona og ræðir heimsins vanda við nærstadda. Ófrítt fólk með skítugt hár sem situr á garðstólum og drekkur vont kaffi. Miðaldra maður með flöskubotnsgleraugu og fitugar hárlufsur greiddar yfir skallann treður í sig ristuðu brauði löðrandi í smjörlíki og bakaðar baunir spítast út á milli tannanna á honum. Fyrir utan gengur póstmaðurinn í stuttbuxum í rigningunni með enska fánann og fána sambandslýðveldisins tattúveraðan á kálfann. Ófríða fólkið spyrst fyrir um líðan þeirra sem eru fjarri. Neil er með ræpu, Phil á spítala og aumingja Mary er dauð. Konur með sítt að aftan dilla sér í takt við Holiday með Madonnu og brosa til viðskiptavinanna svo glittir í snúnar tennurnar. Kaffibollarnir hér eru í boði féló.

4 athugasemdir

Filed under Ferðalög

Frá London til Montreal

Í morgun vaknaði ég enn hálfpirruð eftir að hafa talað við spænska kjánann sem ég var einu sinni skotin í og er að reyna að gleyma á msn í gærkvöldi. Við ætlum að hittast í London í næstu viku og fara saman á tónlistarhátíð þar sem meirihlutin af böndunum gætu flokkast sem árás á saklaus eyru þeirra sem eru neyddir til að hlýða á. Þetta er allt saman eitthvað svo mikið vesen fyrir utan það að sofa í tjaldi og drekka bjór með einhverjum sem maður var einu sinni skotinn í og er að reyna að gleyma er bara ávísun á vandræði. Til að bæta gráu ofan á svart ætlum við að eyða síðusta daginum í London með Ástralanum sem ég var að hitta (lesist: kyssa) á meðan ég var að lúlla hjá fyrrnefndum Spánverja sem seinna urðu svo vinir eftir að hafa hisst heima hjá mér ein áramótin. Það má vera að ég sé tepra en mér finnst þetta þríeyki sjúkt. Ég kom mér þó í þetta sjálf og skal dúsa í pytti lauslæti míns eins lengi og við öll höfum geð á að vera vinir.

Aftur að morgninum. Ég sá auglýsingu í Fréttablaðinu um ódýr fargjöld til Montreal í Kanada eftir tvær vikur og áður en ég gat hugsað mig nógu lengi um til að uppgötva hversu ótrúlega asnaleg hugmynd þetta væri var ég búin að kaupa miðann. Klukkutíma seinna var ég búin að hafa samband við kunningjakonu mína í Toronto, kaupa rútumiða þangað og fá frí í vinnunni. Ég er enn að reyna að fara yfir atburði dagsins og hef enn ekki komist að því hvernig ég fór úr því að vera pirruð yfir í Englandsför yfir í að vera að fara til Kanada. Þetta kallar maður, að ég held, að vera hvatvís.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Ferðalög, Hitt kynið

Grænland

Ég var búin að gleyma hvað Grænland er fallegt land. Reyndar er landslagið á austurströndinni á köflum víst mjög líkt Íslandi og fékk ég á tilfinninguna að ég væri einhvers staðar uppi á fjöllum fyrir norðan þegar að ég gekk út úr flugstöðinni í Kuluskuk. Húsin, ísjakarnir og fólkið sem talar þetta skemmtilega tungumál frá kokinu minntu mig þó fljótlega á að ég var komin á framandi slóðir. Vegurinn sem við fylgdum inn að þorpinu hafði verið ruddur og opnaður almennilega nokkrum dögum fyrr og fyrsta birgðaskip sumarsins var að leggja  að bryggju frá Ammasalik þegar í þorpið var komið. Kaupfélagið var þó merkilega fullt af vörum en hafði ástandið oft verið verra samkvæmt því sem leiðsögumaðurinn sagði okkur. Þar mátti finna kjólföt á gínu, Faxi Kondi í stöflum og veiðiriffla í sömu hillustæðu og marglit barnaleikföng. Veðrið lék við okkur og litlu skipti þó að báturinn okkar hafi átt í vandræðum með eldsneytið á leiðinni til baka á flugvöllinn þar sem skipstjórinn ungi sneiddi listilega framhjá mistórum ísjökum. Hann kom okkur í land á endanum og glaðar töltum við aftur í flugstöðarbygginguana þar sem flugvélin beið eftir að koma okkur heim. Yndislegur dagur í alla staði.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Ferðalög

Helgin

Rútan erfiðaði yfir grjót og ár á leiðinni út úr Mörkinni sem gerði það að verkum að ómögulegt reyndist að lesa staf þangað til komið var á malbik. Í staðinn hlustaði ég á elskhugann ástkæra en skemmtilegir tölvuvæddir tónar Hot Chip voru í hrópandi mótsögn við tilkomumikið landslagið. Ég er ástfangin af Þórsmörk og litla kofanum sem hýsir mig á meðan ég þykist vinna þarna innfrá og hlakka strax til að fara þangað aftur eftir tvær vikur.

Á leiðinni uppeftir var ég beðin um að fræða liðið um hvað skyldi gera ef að Katla byrjaði allt í einu að gjósa og eftir að hafa setið fund kvöldið áður þar sem farið var yfir þau mál í smæstu smáatriðum átti ég að vera fullfær um það. Límminnið mitt hafði meira að segja haft fyrir því að muna það að það síðasta staðfesta Kötlugos var 1918 en vísindamenn halda að það gætu hafa verið tvö smágos 1955 og 1999. Þar sem ég sat með hljóðnemann fremst í rútunni í hossingnum á leiðinni framhjá Stóra-Dímon gerði gamla góða sviðshræðslan vart við sig og ég náði einhvern veginn að klúðra þessu algjörlega. Fyrst verður hausinn tómur og síðan bruna allar upplýsingarnar sem ég geymi í kollinum fram í einu og ég veit ekki hverja upplýsingafluguna ég á að grípa fyrst. Að lokum er eins og hausinn breytist í blandaraskál og svo er kveikt á blandaranum. Sullið þar sem eitt sinn var heili flýtur út um eyrun og fyrir framan mig sitja 20 manns sem skilja hvorki upp né niður í orðunum sem velta út úr munninum í engri sérstakri röð og algjörlega án samhengis.

Það er einhvern veginn erfiðara að fyrirgefa sjálfum sér þegar að maður klúðrar hlutunum með fullu viti og ekki undir áhrifum áfengis. Þá hefur maður ekki við neinn að sakast nema sjálfan sig.

Núna er ég heima með þreytta vöðva eftir að hafa klifrað upp og niður hlíðarnar með tré í eftirdragi, bæði lítil tré sem þurfti að koma í mold og stóra drumba sem karlmennin i ferðinni söguðu niður með keðjusög. Í vikunni fer ég svo til Grænlands en það er eins og mig minni frá fyrri ferð minni þangað að þar sé ekki mikið um tré. Enda er ég ekkert að fara þangað til að skoða einhvern trjágróður.

3 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Ferðalög