Category Archives: Hitt kynið

Ástkæru lesendur

Ég er ekki hætt að blogga. Það vill bara þannig til að ég er ekki búin að blogga í rúma tvo mánuði. Það var ekki með vilja gert né heldur vildi ég særa mína tryggu þrjá lesendur eða svo. Ég er bara búin að vera fáránlega upptekin.

Nú væri rökrétt að koma með ástæður þess hvers vegna ég hef ekki sést mikið á blogginu undanfarið en ég nenni ekki að fara í það í löngu máli. Eldsnöggt og á hundavaði þá eru ástæðurnar eftirfarandi:

1) Skólinn:
Endalausar ritgerðir í nóvember, jólapróf í desember, sjúkrapróf í janúar og svo bara byrjaði skólinn aftur á fullum krafti. Kellan kom samt vel undan vetri og er með 8.5 í meðaleinkunn eftir þessa fyrstu önn. Viðunandi árangur miðað við vinnuframlagið á önninni en er örlítið súr út í eina einkunnina sem dregur meðaltalið niður. Hef ákveðið að taka prófið aftur næstu jól og klárlega fá 10!

2) Couchsurfing:
Var agalega dugleg að blanda geði við sófasörfara síðustu mánuði ársins og  varð í kjölfarið City Ambassador fyrir Reykajvík. Á að vera að skipuleggja hitting og dytta að á heimasíðunni en hef lítið komist í slíkt núna eftir áramótin.

3) ESN Reykjavík
Sigga Player plataði mig í að taka þátt í ESN (Erasmus Student Network) sem eru skiptinemasamtök / vinnuhópur um hagsmuni erlendra nema undir stúdentaráði. Það fer ekki mikið fyrir hagsmunabaráttunni í bili en nóg er um partýin, fjörið, glauminn og gleðina. Erum búin að fara á skíði, skauta, halda þorrablót og ég veit ekki hvað og hvað.

4) Vinnan
Ég er enn að vinna og það tekur sinn tíma.

5) Afmælispartýið
Við Silja héldum klárlega partý aldarinnar… ja eða allavega partý febrúarmánuðs. Fengum svo lítinn Eddu og Steindórsson í afmælisgjöf.

6) Kærastinn
Ákvað að taka þetta kærastamál bara með trompi og gerast kærasta. Héldu margir að himinn og jörð væru að farast þegar að ég, af öllum,  var mætt í Fjölskyldu-og húsdýragarðinn einn sunnudagsmorguninn fyrir hádegi með dóttur fyrrnefnds kærasta ásamt vinkonu. Allt í einu er ég komin með allt er varðar álfa á hreint (vissuð þið til dæmis að Skellibjalla er viðgerðarálfur sem gerir við potta og pönnur?) og hef lítið sést á mínu eigin heimili svo vikum skiptir. Það er mun einfaldara að vera kærasta en ég hélt til að byrja með. Fólk getur samt beðið rólegt með brúðargjafir eða barnatal, það er ekkert á dagskrá á næstunni!

7)Gítarinn:
Fékk gítar í afmælisgjöf. Finnst þetta besta gjöf sem ég hef fengið lengi og ÆTLA að læra að spila á hann.

Svo er nú það. Over and out.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið, Sófasörf

Tjarnargötufréttabréfið 1.tbl. 1árg.

Ég þjáist af ritstíflu. Það er ekki nóg með að ég sé komin með ógeð af skriftum eftir fáránlega ritgerðatörn í nóvember, og síðustu ritgerðina sem ég á að skila á morgun og er að reyna að berja saman í þessum töluðu orðum, heldur er ég uppurin af hugmyndum og sniðugheitum. Það er ekki vottur af húmor eftir í hláturtaugunum og þeir ömurlegu brandarar sem ég reyni þó að koma frá mér brotlenda harkalega áður en þeir ná til viðtakanda. Ég er leiðinleg!

Annars er það helst að frétta að mér hefur mögulega tekist að falla í fyrsta skipti í háskólaprófi. Vissi ekki að ég hefði þetta í mér, sérstaklega ekki eftir að hafa setið í 6 daga sveitt við lestur. Ég hef hingað til látið mér nægja að læra dag eða tvo fyrir próf og hef þannig fleytt mér áfram. Glósað þetta helsta og vonað það besta. En alþjóðastjórnmálakennarinn  ákvað bara að nú væri tími til kominn að kenna mér hvar Davíð keypti ölið og mætti galvösk á prófdag með svínslegasta próf sem ég hef séð í áraraðir. Því fleiri dagar sem líða frá þessu ágæta prófi, því sannfærðari verð ég um eigin heimsku. Hef þó ákveðið að taka á þessu með stóískri ró og mun þá bara taka upptökupróf í janúar ef illa fer. Það grátlega er að þetta er eina fagið sem ég hafði einhvern metnað í og ég mætti í hvern einasta tíma, sem er meira en ég get sagt um hin námskeiðin (hóst). Það er huggun harmi gegn að ég hef ekki heyrt af neinum sem gekk vel í þessu prófi. Ég er í það minnsta bara jafnheimsk og hinir.

Já og svo er ég að hitta gaur. Hann er ekki útlenskur, ekki lítill og ekki hálfviti. Eiginlega bara alveg fáránlega almennilegur. Einhverra hluta vegna þá er hann líka agalega skotinn í mér. Klárlega gengur hann ekki heill til skógar.

4 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið

Búið spil

Tveggja vikna mini sambandi mínu við ástralska barnið er senn að ljúka. Hann flýgur til Berlín á morgun og ég býst ekkert sérstaklega við að sjá hann aftur. Eins fáránlegt og það kann að hljóma þá verður skrýtið að sofa aftur ein í rúminu mínu og hafa ekki einhvern til að tala við allan sólarhringinn. Það er hægt að læra margt um fólk á tveimur vikum og enn meira um sjálfan sig. Þessi ótrúlega klári og indæli strákur á eftir að gleðja einhverja konu mjög mikið þegar að hann kemur sér loksins heim eftir ævintýrin. Taugaskurðlæknir sem spilar á gítar og semur tónlist í hjáverkum er góður fengur í öllum heimsálfum. Verst að ég verð orðin gömul kona þegar að hann klárar námið sitt og hefur aftur tíma til að heimsækja þennan útnára á hjara veraldar.

Ein athugasemd

Filed under Hitt kynið

Ástæður fyrir fjarveru

1) Airwaves. Fullt að gerast, ekki mikið tóm til þess að vera að skrifa einhverjar epískar bloggfærslur.

2) Skólinn. Alls kyns verkefni að dynja yfir. Dauði og djöfull.

3) Gaur. Ég held ég sé skotin í strák. Ég held hann sé líka skotinn í mér. Veit það samt ekki alveg. Skiptir ekki öllu máli því hann býr í Ástralíu. Er á meðan er.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið

iPod örfærsla: Nynemaferd

Ekki byrjar thad vel. Alvarlega thenkjandi háskólastúdínan sem ekki les Perez Hilton drakk ca. 7 bjórum of mikid í nynemaferdinni, kyssti eitthvad barn thjakad af samviskubiti yfir ad vera halda framhjá mögulegri framtídarkærustu og gerdi svo allt vitlaust á Hressó med thví ad hafa of margar skodanir. Ég ætti ad hafa áhyggjur ordspori mínu og heidri en lífid er of stutt. Ég verd aldrei thingkona eda pólitíkus hvort ed er svo ég má hafa allt thad óhreina mjöl í pokahorninu sem kemst thar fyrir. Ég sem ætladi samt ad vera svo kúl á thví. Núna er ég gamla konan sem vard of full og hössladi krakkann!

4 athugasemdir

Filed under Hitt kynið

Mowgli

Spænskættaði Fransmaðurinn frá Madrid er orðinn að hálfgerðu húsgagni á Tjarnargötunni. Hann kom og fór og kom aftur en nú er stefnan tekin á að hann yfirgefi borgina á ný í fyrramálið. Eins og áður hafa tveir dagar orðið að fjórum og er hann síðasti sófasörfari sumarsins. Að honum ólöstuðum þá bara höndla ég ekki meira í bili.

Ég tók eftir því þegar að hann kom að hann er með töluvert myndarlegt ör í andlitinu sem vakti forvitni mína. Í gærkvöldi spurði ég hann hvernig hann hefði fengið það og hann sagði að ég myndi ekki trúa því þótt hann segði mér það. Ég bað hann um að láta reyna á það og þá sagði hann mér frá því hvernig úlfur réðst á hann þegar að hann var smástrákur í einhvers konar fjölskylduferð í Pýreneafjöllunum. Úlfurinn læsti víst kjaftinum í kinnina á honum en honum og vini hans tókst að hræða úlfana tvo sem höfðu nálgast þá burtu með eldi.  Þetta er myndarlegur strákur en aðdráttaraflið jókst  tilfinnanlega þegar að úlfaörið kom til sögunnar. Eitthvað villimanslega karlmannlegt við að hafa barist við úlf.  Ég ráðlegg hér með  öllum þeim karlmönnum sem eru með ör í andliti að búa til góða úlfasögu til að útskýra örið. Þeir munu ekki eiga í vandræðum með að ná sér í kvenfólk eftir það.

Annars langar mig að segja frá því að Lukkutröllsverkefnið, sem sumir hafa heyrt af, er farið af stað. Trölli hefur fengið nafnið Timothy G. Troll en G stendur að sjálfsögðu fyrir Good-Luck. Á hann eftir að fara í tvær ferðir með mér áður en hann leggur í hann af fullri alvöru og verðum við að vona að heppnin verði með honum og okkur og að hann fái að heimsækja áhugaverða staði um heiminn. Síðan hans er enn á frumstigi en þetta er allt að koma.

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið, Sófasörf

Frá London til Montreal

Í morgun vaknaði ég enn hálfpirruð eftir að hafa talað við spænska kjánann sem ég var einu sinni skotin í og er að reyna að gleyma á msn í gærkvöldi. Við ætlum að hittast í London í næstu viku og fara saman á tónlistarhátíð þar sem meirihlutin af böndunum gætu flokkast sem árás á saklaus eyru þeirra sem eru neyddir til að hlýða á. Þetta er allt saman eitthvað svo mikið vesen fyrir utan það að sofa í tjaldi og drekka bjór með einhverjum sem maður var einu sinni skotinn í og er að reyna að gleyma er bara ávísun á vandræði. Til að bæta gráu ofan á svart ætlum við að eyða síðusta daginum í London með Ástralanum sem ég var að hitta (lesist: kyssa) á meðan ég var að lúlla hjá fyrrnefndum Spánverja sem seinna urðu svo vinir eftir að hafa hisst heima hjá mér ein áramótin. Það má vera að ég sé tepra en mér finnst þetta þríeyki sjúkt. Ég kom mér þó í þetta sjálf og skal dúsa í pytti lauslæti míns eins lengi og við öll höfum geð á að vera vinir.

Aftur að morgninum. Ég sá auglýsingu í Fréttablaðinu um ódýr fargjöld til Montreal í Kanada eftir tvær vikur og áður en ég gat hugsað mig nógu lengi um til að uppgötva hversu ótrúlega asnaleg hugmynd þetta væri var ég búin að kaupa miðann. Klukkutíma seinna var ég búin að hafa samband við kunningjakonu mína í Toronto, kaupa rútumiða þangað og fá frí í vinnunni. Ég er enn að reyna að fara yfir atburði dagsins og hef enn ekki komist að því hvernig ég fór úr því að vera pirruð yfir í Englandsför yfir í að vera að fara til Kanada. Þetta kallar maður, að ég held, að vera hvatvís.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Ferðalög, Hitt kynið

Unglingaveiki

Í hjarta mér er ég 17 ára unglingur. Ég dett í það og verð yfirleitt uppvísa að einhvers konar skandal í kjölfarið. Fólki kemur á óvart hversu gömul ég er þegar að ég uppljóstra um aldur minn og biður mig um að nota rakakrem og ekki byrja að reykja til að viðhalda barnslegu andlitinu. Sjálf sé ég bauga og grá hár þegar að ég lít í spegil en þegar að ég var unglingur þótti ég fullorðnari en ég var í raun. Ég á enga dragt en ógrynni af hettupeysum í öllum regnbogans litum.

Ég elska líka eins og unglingur. Skotin mín gleypa allan minn tíma og dagdrauma. Fiðrildin í maganum taka yfir og blinda mér sýn á raunveruleikann. Úthöf og ólíkir menningarheimar eru ómerkilegar ástæður fyrir aðskilnaði elskenda. Í skýjaborgunum mínum fæ ég alltaf prinsinn og enginn segir mér að ég sé á villigötum. Í hinum efnislega heimi reynast prinsarnir í besta falli körtur og fiðrildasveimurinn hrapar til jarðar.

Ég vildi að inni í mér byggi gömul vitur kona. Kona sem væri búin að læra af mistökum sínum og tæki rólegar og yfirvegaðar ákvarðanir. Gömul kona laus við alla unglingaveiki.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið

Af hjónaböndum og lottóspili

Ég er með margar og ákveðnar skoðanir á samskiptum kynjanna. Ég trúi ekki á ást við fyrstu sýn eða sálufélaga og tel að færa megi fyrir því góð rök að manninum sé ekki eðlislægt að finna sér maka fyrir lífstíð. Ég trúi heldur á hormóna, á það að vera á réttum stað á réttum tíma og sé í sjálfu sér ekkert rangt við það að eiga í nokkrum ástríðufullum en stuttum samböndum um ævina frekar einu steingeldu hagkvæmishjónabandi. Hjónabandið er í mínum huga úrelt stofnun en ástæðurnar fyrir því ætla ég ekki að tíunda hér. Að sjálfsögðu er ég fylgjandi því að fólk láti reyna á sambönd svo lengi sem báðir aðilar hafi áhuga á því og ef að aðilarnir geta lifað hamingjusamlega saman í sínu lífi þá er það hið besta mál. Ég er bara ekki endilega sammála þessu hjónabandskapphlaupi sem samtvinnast lífsgæðakapphlaupinu, þar sem það verður allt í einu ekki nóg að eiga bara góðan jeppa og 2.5 börn heldur er bráðnauðsynlegt að eyða milljón eða fimm í brúðkaup sem mun í tæplega 40% tilvika enda með lögskilnaði. Lífið er einfaldlega of stutt.

Hvað varðar sálufélagana þá held ég að við séum alltaf að hitta tilvonandi sálufélaga. Við hrífumst af margs konar fólki, mörgum í einu, og hver og einn hefur eitthvað sérstakt fram að færa sem gerir það að verkum að við veitum viðkomandi eftirtekt. Vinir manns eru nokkurs konar sálufélagar og vinasambönd endast oftar en ekki lengur en ástarsambönd. Ég held að það sé hægt að byggja ástarsamband með nánast hverjum sem er svo framarlega að þessi hrifning sé til staðar. Það hvort að sambandið þróist út í það að verða vinasamband eða ástarsamband ræðst eingöngu af aðstæðum og tímasetningu. Þegar að spilað er í lottó skiptir ekki máli hversu margar kúlurnar eru eða hvað númer er á hverri. Það sem skiptir máli er að þær raðist rétt saman á réttum tíma, þ.e. þegar að þú hefur keypt þér miða. Eins skiptir það máli hvernig þú og viðkomandi hittist og hvernig líf ykkar fléttast saman í framhaldinu. Þú þarf t að vera búinn að kaupa þér miða, vera tilbúinn, til að vinna.

Þar sem að það sem okkur þykir fallegt og eftirsóknarvert er að mestu lærð hegðun eru ekki allir sem fatta þennan sannleik. Ég held ég sé búin að fatta hann núna. Hvar ætli maður fái svona miða?

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið

Hárraunir

Í kvöld endurnýjaði ég kynnin við gamlan fjanda þegar ég dró fram háreyðingagræjuna Tætarann. Nafnið Tætarinn lætur þetta pastellitaða plast drasl hljóma eins og eitthvað tryllitæki, sem það er ekki, en það er réttnefni þar sem tækið tætir hárin af löppunum á manni upp með rótum. Þetta á að virka jafn vel og vax sem þýðir færri ofurlangar og vandræðalegar sturtuferðir þar sem rassinn rekst óvart í blöndunartækin þegar þú ert í óða önn að skafa skankana með þeim afleiðingum að þú færð kalda bunu á bakið og rekur upp öskur sem heyrist alla leið til Keflavíkur.

Ég ákvað að leggjast í tilraunastarfsemi og kanna hvort það sé í rauninni betra að beita þessari sársaukafullu aðferð við að losna við loðna leggi og notaði græjuna á aðra löppina. Því næst hugðist ég fara í sturtu og raka hina löppina og sjá svo til hvor fótleggurinn yrði fyrr loðinn á ný. Það má vel vera að þessi tilraun hefði leitt það til lykta að tæt sé betra en rakstur hvað hárvöxt varðar en ég hugsa að mér verði alveg sama um útkomuna því nú er aumingjans löppin rauðflekkótt eins og hún hafi lent í sýrubruna og sviðinn ætlar að drepa mig. Þá held ég að það sé nú skárra að vera með brodda en að sitja uppi með þetta helvíti. Ó ó og æ.

Ég skil stundum ekki hvað við kvenmenn leggjum á okkur til að styggja ekki steggina. Það er ekki eins og þessir strumpar geri neitt fyrir okkur í staðinn. Þeir fara út á djammið með stubba í andlitinu og veigra sér svo ekki við að kyssa konu og aðra og skija þær eftir í skítnum með svöðusár í kringum munninn. Svo byrjar þetta að flagna mörgum dögum seinna og þær verða að útskýra í vinnunni af hverju hakan á þeim lítur út fyrir að hafa lent í slag við sandpappír. Nei, steggirnir eiga það ekki skilið að ung og falleg kona eins og ég standi í heimatilbúnum pyntingum til að ganga í augun á þeim. Tætarinn hefur svo sannarlega sungið sitt síðasta.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið