Category Archives: Sófasörf

Ástkæru lesendur

Ég er ekki hætt að blogga. Það vill bara þannig til að ég er ekki búin að blogga í rúma tvo mánuði. Það var ekki með vilja gert né heldur vildi ég særa mína tryggu þrjá lesendur eða svo. Ég er bara búin að vera fáránlega upptekin.

Nú væri rökrétt að koma með ástæður þess hvers vegna ég hef ekki sést mikið á blogginu undanfarið en ég nenni ekki að fara í það í löngu máli. Eldsnöggt og á hundavaði þá eru ástæðurnar eftirfarandi:

1) Skólinn:
Endalausar ritgerðir í nóvember, jólapróf í desember, sjúkrapróf í janúar og svo bara byrjaði skólinn aftur á fullum krafti. Kellan kom samt vel undan vetri og er með 8.5 í meðaleinkunn eftir þessa fyrstu önn. Viðunandi árangur miðað við vinnuframlagið á önninni en er örlítið súr út í eina einkunnina sem dregur meðaltalið niður. Hef ákveðið að taka prófið aftur næstu jól og klárlega fá 10!

2) Couchsurfing:
Var agalega dugleg að blanda geði við sófasörfara síðustu mánuði ársins og  varð í kjölfarið City Ambassador fyrir Reykajvík. Á að vera að skipuleggja hitting og dytta að á heimasíðunni en hef lítið komist í slíkt núna eftir áramótin.

3) ESN Reykjavík
Sigga Player plataði mig í að taka þátt í ESN (Erasmus Student Network) sem eru skiptinemasamtök / vinnuhópur um hagsmuni erlendra nema undir stúdentaráði. Það fer ekki mikið fyrir hagsmunabaráttunni í bili en nóg er um partýin, fjörið, glauminn og gleðina. Erum búin að fara á skíði, skauta, halda þorrablót og ég veit ekki hvað og hvað.

4) Vinnan
Ég er enn að vinna og það tekur sinn tíma.

5) Afmælispartýið
Við Silja héldum klárlega partý aldarinnar… ja eða allavega partý febrúarmánuðs. Fengum svo lítinn Eddu og Steindórsson í afmælisgjöf.

6) Kærastinn
Ákvað að taka þetta kærastamál bara með trompi og gerast kærasta. Héldu margir að himinn og jörð væru að farast þegar að ég, af öllum,  var mætt í Fjölskyldu-og húsdýragarðinn einn sunnudagsmorguninn fyrir hádegi með dóttur fyrrnefnds kærasta ásamt vinkonu. Allt í einu er ég komin með allt er varðar álfa á hreint (vissuð þið til dæmis að Skellibjalla er viðgerðarálfur sem gerir við potta og pönnur?) og hef lítið sést á mínu eigin heimili svo vikum skiptir. Það er mun einfaldara að vera kærasta en ég hélt til að byrja með. Fólk getur samt beðið rólegt með brúðargjafir eða barnatal, það er ekkert á dagskrá á næstunni!

7)Gítarinn:
Fékk gítar í afmælisgjöf. Finnst þetta besta gjöf sem ég hef fengið lengi og ÆTLA að læra að spila á hann.

Svo er nú það. Over and out.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið, Sófasörf

Pælingar

Helgin kom og fór. Fór þrisvar út að borða, tvisvar var það mjög gott og í eitt skiptið lala. Alltaf sat ég þó í góðum félagsskap sem skiptir jafnmiklu ef ekki meira máli en maturinn. Sérstaklega þegar að reikningurinn er borgaður af öðrum.

Ég er að renna á rassinn með ritgerð sem ég á að skila á miðvikudaginn. Klukkan er farin að ganga 11 á mánudagskvöldi og ég er ekki búin að skrifa einn staf á blað. Sem er ekki gott.  Læt mig dreyma um bakpokaferðalög og skemmtilegheit sem tengjast þessum skóla ekki neitt og held ekki einbeitingunni lengur en í tvær mínútur. Ég er þó í fríi allan morgundaginn og verð bara að hrista þetta fram úr erminni þá og taka afleiðingunum.

Hitti strák í gær frá LA sem sagði mér frá 6 mánaða puttaferðalagi sem hann fór í um Bandaríkin þegar að hann var 19 ára, á kúpunni og nýsloppinn úr fangelsi. Hann svaf á götunni eða hvar sem hann fann sér skjól og betlaði peninga með því að syngja og spila tónlist. Hann uppgötvaði sjálfan sig sem tónlistarmann á þessu ferðalagi og dreymir um að geta lifað af því og hefur að því virðist náð tökum á lífinu á ný. Á meðan byggir hann sviðsmyndir fyrir kvikmyndir og tónlistarmyndbönd  og reynir að ferðast eins og hann getur. Hann fékk að gista á sófanum í nótt og deildi með mér tónlistinni sinni og sögum af sjálfum sér. Stundum finnst mér eins og ég hafi lifað og prófað eitt og annað en svo hitti ég fólk sem er bara búið að gera svo miklu meira að mér finnst ég vera hálfgerð sveitakona í samanburðinum. Að sjálfsögðu eins og von er og vísa er margt sem hann hefur prófað sem ég hef lítinn áhuga á eins og eiturlyfjaneysla og seta í fangelsi en samt finnst mér stundum eins og eitthvað vanti upp á hjá sjálfri mér. Ég er einhvern veginn mitt á milli þess að vera ógeðslega hvítur millistéttar plebbi og semi hippi og bóhem. Ekki nógu kúl til þess að vera alveg í seinni flokknum og ekki nógu ferköntuð til þess að vera í þeim fyrri. Og ekki búin að finna sjálfa mig.

Ég hitti mikið af svipuðum týpum í Montréal þar sem ég lenti í eftirpartý hjá gaur sem er atvinnu brettagaur og þekkti alla í kanadísku indie senunni. Ég var sú eina í því partýi sem ekki var á einhvers konar dópi og þótti um margt undarleg þegar að ég afþakkaði pent kókaínið sem mér var boðið af mikilli gestrisni húsráðanda. Ólíkt því sem ég hef upplifað hérna heima þegar að ég hef óvart lent í svona partýum þar sem allt flæðir í dópi þá virti fólk þó ákvörðun mína og reyndi að tína til annað til þess að bjóða mér. Ég fékk bæði te og bjór en enga sneið um að vera leiðinleg eða ferköntuð.

Ég held að ég sé að reyna að segja að ef að maður gleymir eigin fordómum um hitt og þetta þá kemst maður að því að allir hafa eitthvað fram að færa. Hvort sem að viðkomandi er ástralskur læknanemi, bandarískur tónlistarmaður, kanadískur kókhaus eða týndur íslenskur nemi þá eigum við öll meira sameiginlegt en við gerum okkur oft grein fyrir. Maður á ekki að loka á fólk af því að það lifir ekki eftir sömu reglum og maður sjálfur. Manneskjan sem við höfum að geyma hefur ekki endilega neitt með það að gera hvaða líf við kjósum eða lendum í því að lifa.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Sófasörf

Mowgli

Spænskættaði Fransmaðurinn frá Madrid er orðinn að hálfgerðu húsgagni á Tjarnargötunni. Hann kom og fór og kom aftur en nú er stefnan tekin á að hann yfirgefi borgina á ný í fyrramálið. Eins og áður hafa tveir dagar orðið að fjórum og er hann síðasti sófasörfari sumarsins. Að honum ólöstuðum þá bara höndla ég ekki meira í bili.

Ég tók eftir því þegar að hann kom að hann er með töluvert myndarlegt ör í andlitinu sem vakti forvitni mína. Í gærkvöldi spurði ég hann hvernig hann hefði fengið það og hann sagði að ég myndi ekki trúa því þótt hann segði mér það. Ég bað hann um að láta reyna á það og þá sagði hann mér frá því hvernig úlfur réðst á hann þegar að hann var smástrákur í einhvers konar fjölskylduferð í Pýreneafjöllunum. Úlfurinn læsti víst kjaftinum í kinnina á honum en honum og vini hans tókst að hræða úlfana tvo sem höfðu nálgast þá burtu með eldi.  Þetta er myndarlegur strákur en aðdráttaraflið jókst  tilfinnanlega þegar að úlfaörið kom til sögunnar. Eitthvað villimanslega karlmannlegt við að hafa barist við úlf.  Ég ráðlegg hér með  öllum þeim karlmönnum sem eru með ör í andliti að búa til góða úlfasögu til að útskýra örið. Þeir munu ekki eiga í vandræðum með að ná sér í kvenfólk eftir það.

Annars langar mig að segja frá því að Lukkutröllsverkefnið, sem sumir hafa heyrt af, er farið af stað. Trölli hefur fengið nafnið Timothy G. Troll en G stendur að sjálfsögðu fyrir Good-Luck. Á hann eftir að fara í tvær ferðir með mér áður en hann leggur í hann af fullri alvöru og verðum við að vona að heppnin verði með honum og okkur og að hann fái að heimsækja áhugaverða staði um heiminn. Síðan hans er enn á frumstigi en þetta er allt að koma.

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið, Sófasörf

Stórar öldur í sörfinu þessa dagana

Andfætlingurinn af óræða asíska upprunanum er horfinn á braut eftir að hafa verið hjá mér í 5 nætur í stað þeirra tveggja sem um var samið í upphafi. Ég er að komast að því að ef að ég mun einhvern tíma lenda í vandræðum með sörfara sem sest upp á mig og neitar að fara að ég mun örugglega ekki eiga nein ráð til að losna við viðkomandi. Fólk einhvern veginn fer bara ekkert en enn sem komið er hefur mér þótt gaman að hafa þá í kringum mig sem hafa ílengst hjá mér.

Í gær hélt ég svo uppteknum hætti og tók á móti Frakka sem á ítalska móður og spænskan föður en býr um þessar mundir í höfuðstað Spánarveldis. Foreldrar hans kynntust í Frakklandi og töluðu aldrei annað en frönsku hvort við annað og börnin svo það eina sem hann tók með sér úr þessum ráðahag er útlitið sem ekki getur talist týpískt fyrir neitt af þessum löndum en svipar þó til þeirra alla.  Ég er farin að velta því fyrir mér hvort það sé eitthvað fólk eftir í þessum heimi sem á rætur sínar að rekja til einhverrar einnar þjóðar því allir sem koma til mín virðast vera undarlegur hrærigrautur af hinum ýmsu menningarheimum.

Ég tók andfætlinginn með mér í partý í síðustu viku sem endaði í vitleysu á Kaffibarnum með fólki alls staðar að. Partýið fór fram á bát í Reykjavíkurhöfn en þar varð ég fyrir því skemmtilega óhappi að á mig skeit fugl sem sveimaði yfir gleðskapnum. Ég sannaði þó hið fornkveðna að þess háttar uppákomur séu til lukku þegar að ég vann rómantíska gistingu fyrir tvo á hóteli á Mývatni í happadrætti seinna um kvöldið. Ég á þó engan rómantískan félaga til þess að taka með mér og konan sem ég ætlaði að taka með mér fann sér kærasta á Kaffibarnum svo að þau geta bara átt sína rómantík í friði og fá ekki að koma með mér á Mývatn.  Á Kaffibarnum fékk ég svo ástarjátningu frá Nepala á stærð við hnefa og furðaði ég mig enn einu sinni á því hvaða áhrif þessi tröllskessa hefur á stærðarhefta menn.

Í grófum dráttum er gaman að vera ég þessa dagana og hrærigrautsliðið leikur stórt hlutverk í gleðinni.

Færðu inn athugasemd

Filed under Sófasörf

iPod örfærsla: strídsástand

Fimm dagar eru nú lidnir sídan Magga módursystir tók sig til og máladi herbergid mitt á medan ég dundadi mér vid ad pensla ofninn. Má deila um thad hvort thetta hafi verid sanngjörn verkaskipting. Magga módursystir heitir annars alls ekkert Magga en einhverra hluta vegna tala systur hennar mömmu idulega um sjálfar sig í thridju persónu og heita thá gjarnan Magga. Annad hvort er einhver fyndin saga á bak vid thetta eda thá ad theim finnst svona agalega gaman ad studla. Thrátt fyrir gódan vilja at minni hálfu hefur mér enn ekki tekist ad gera herbergid íbúdarhæft og hér liggja bækur og annad smá drasl a tjá og tundri. Mig sárvantar verkstjóra til ad skipa mér fyrir, enda var ég mun atorkusamari undir leidsögn títtnefndrar módursystur, og sérlegan rádgjafa í hönnun á litlum rymum med tilliti til geymslupláss.

Ég á von á eldhressum sófasörfara frá Ástralíu á mánudaginn og thá verdur thetta nú ad vera búid. Ég er farin ad sérhæfa mig í andfætlingum og fólki af blöndudum uppruna. Tyrnesk/indverskur New York búi, pakistanskir og kínversk/filippseyskir Kanadabúar, japanskur Breti og nú Ástrali af óskilgreindum asískum uppruna. Nú og Nysjálendingurinn audvitad.

3 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Sófasörf

Tyrkjarán

Sófasörfararnir koma og fara. Hálfi Tyrkinn hélt af stað til Amsterdam og í staðinn fékk ég tvær tyrkneskar stelpur sem eru á ferð um Norðurlöndin til þess að flýja hita heimalandsins. Þær eru ósköp indælar en lítið spennandi og hef ég ekki lagt mig í lima við að eyða tíma með þeim eins og þeim hálfa. Stóreygar sitja þær og fylgjast með mér eins og ég sé búskmaður í Afríku á lendarskýlu og lepja upp hvert orð sem fellur af vörum mér. Við tölum ekki saman heldur skiptumst við á orðum eins og körfuboltaspjöldum. Kannski finnst þessum stúlkum, sem búa enn í foreldrahúsum og munu gera þar til að þær fá bónorð frá manni sem fjölskyldan samþykkir, undarlegt að hitta frjálslega Íslendinga eins og mig. Opin, hreinskilin og ókurteis á köflum ligg ég ekki á skoðunum mínum og býð ókunnugum mönnum upp í rúm til mín. Það var reyndar bara í nokkra klukkutíma áður en sá hálfi tók flugrútuna út á völl en þær voru á sófanum og við hálfi of þreytt til að finna út úr því hvar hann gæti sofið. Við hálfi hlógum og pískruðum inn í nóttina og kvöddumst með loforði um að halda sambandi. Ég efast um að lofa þessum stúlkum því sama.

Færðu inn athugasemd

Filed under Sófasörf

Með hrjótandi sætalíus á sófanum

Hjá mér er staddur um þessar mundir ungur maður frá ríkinu stóra í vestri. Móðir unga mannsins er múslimi frá Tyrklandi, faðir hans hindúi frá Indlandi. Einhvern vegin komu þau saman og eignuðust börn og buru. Ég verð alltaf hálföfundsjúk þegar að ég hitti fólk eins og þennan mann. Að vera hreinræktaður Íslendingur, eða því sem næst, er skelfilega lítilfjörlegt í samanburði við að eiga foreldra frá jafnólíkum menningarheimum og hann. Fjölskyldan fluttist til Tyrklands svo að börnin kynntust menningu og tungumáli móður sinnar og sumrum eyddu þau í Indlandi með stórfjölskyldunni. Það kemur ekki á óvart að ungi maðurinn er sérlega geðþekkur, opinn og víðsýnn enda held ég að það sé nánast ómögulegt að alast upp í svona umhverfi og lifa lífinu með pappakassasýn.

Ekki spillir fyrir að þessi ungi maður er bráðhuggulegur. Það skiptir að sjálfsögðu litlu máli þegar að sófasörfarar eru annars vegar hvernig þeir líta út en því verður ekki neitað að það er aldrei verra að hafa eitthvað fallegt að horfa á. Honum er jafnvel fyrirgefnar hroturnar.

Sófasörfið er svo stórkostlegt tæki til þess að kynnast heiminum án þess að yfirgefa fjóra veggi heimilisins. Ólíkir einstaklingar koma saman til þess eins að hafa það gaman. Rímið var óviljandi.

Færðu inn athugasemd

Filed under Sófasörf

Hugleiðing

Þegar að ég ákvað að byrja að blogga aftur, eftir ótrúlega lélega mánaðar pásu, þá var ætlunin alls ekki að detta ofan í það sama gamla að ræða í þaula ástarlíf mitt eða vöntun á því. Ég hafði hugsað mér að vera háfleyg og alvarleg í dillandi ljóðrænum stíl og ræða um andans menn og málefni. Því síður ætlaði ég að tileinka bloggið einhverju manni sem ég þekki lítið sem ekkert og átti sér einskis ills von þegar að hormónablandaði hvítvínskokteilinn hoppaði á hann eins og tík á lóðaríi. En svona gerist þetta bara stundum, maður hefur engan hemil á bloggskrímslinu sem æðir bara í þær áttir sem því sýnist hverju sinni.

Staðreyndin er þó sú að kynni mín af manninum sem bloggið er ekki tileinkað voru bara þannig að þau opnuðu augu mín fyrir ótal hlutum. Hann veit að sjálfsögðu ekkert um það að ég skuli vera að velta mér svona mikið upp úr hverju smáatriði sem okkur fór á milli. Ég held að hann geri sér heldur ekkert endilega grein fyrir því hversu sæl og ánægð ég var þegar að ég fékk sms frá útlandinu í gærdag sem innihéldu ótal kossa til mín frá honum. Ég var með fiðrildi í maganum og axlirnar herptust saman þar sem ég sat og brosti allan hringinn. Ekki af því að ég sé svo skotin í honum eða að ég haldi að þetta hafi verið meira en það sem það var heldur einmitt af því að það var bara akkúrat sem það var: ljúft og þægilegt.

Sænski sófasörfarinn sem deildi herberginu mínu með okkur eina nóttina, 19 ára alvarlega þenkjandi flicka frá Stokkhólmi, kallaði hann heimskan brimbrettagæja. Heimskur var hann nú ekki en hann var ekki mikið gefinn fyrir bækur, vann verkamannavinnu, stefndi ekki á háskólanám og var ekki manna bestur í stafsetningu. Hann virtist samt fullkomlega hamingjusamur með þann stað sem hann er á í lífinu og sænska ungpían var sammála mér um það að í því lægi aðdráttarafl hans. Eftir kyrfilega sálgreiningu á kauða held ég að hann sé svona gaur sem leggur áherslu á að gera hlutina með hjartanu frekar en höfðinu. Ég á hinn bóginn geri allt með höfuðið við stjórnvölinn og leyfi hjartanu aldrei að hlaupa frjálsu. Þess vegna held ég að hann sé hamingjusamur á meðan að ég flögra um eins og fluga í flösku.

Ég held að þegar að á öllu er á botnin hvolft þá sé ég komin að krossgötum í lífinu. Eitthvað innra með mér er að breytast og þess vegna hefur fólk svona mikil áhrif á mig óafvitandi. Ég soga að mér visku annarra eins og svampur við eldhúsvask og reyni eftir fremsta megni að tileinka mér það besta. Árangurinn verður svo bara að koma í ljós síðar. Á meðan horfi ég dreymnum augum fram fyrir mig og glotti í hvert skipti sem ég man eftir andfætlingnum góða.

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið, Sófasörf

Óvænt heimsókn frá Nýja Sjálandi

Ég er nú búin að eyða tæpum þremur sólarhringum með rauðhærða, skemmtilega ófríða, nýsjálenska skeitaranum sem ætlaði upphaflega bara að fá að gista hjá mér eina nótt. Einhvern veginn atvikaðist það, nokkrum klukkustundum eftir að við kynntumst, að okkur var fleygt öfugum út með skömm af skemmtistað einum hér í bæ . Sökin sem á okkur var borin: óhóflegt kelerí. Gamla ég hefði haft áhyggjur af þessu ódannaða framferði um aldir alda en hin nýja kona sem fæddist eftir útskrift hefur ákveðið að láta sem ekkert sé. Kenna undarlegri blöndu af áfengi og hormónum um ósiðsamlegt athæfið.

Nýsjálendingurinn hefur síðan reynst hinn ágætasti piltur og höfum við átt góðar stundir saman. Það hefur þó valdið örlitlum vandkvæðum að maðurinn, sem bætir upp vöntun á formfegurð í andliti með stæltum útlimum og heitum húðflúrum, gengur hálfnakinn um húsakynnin í tíma og ótíma að því er virðist. Hormónarnir stýra augunum og þekkja orðið hverja freknu á sólbrúnum líkamanum og með hverju nýju atriði sem hann deilir með mér um líf sitt  reynist mér erfiðara að horfa ekki á hann girndaraugum svo að hann taki eftir. Ekki er útséð með lengd dvalarinnar en á meðan að á henni stendur nýt ég þægilegrar nærveru hans og krúttlega skakka brossins.

Ef lífið er til þess að læra af því tek ég frá þessari stuttu sambúð með Nýsjálendingnum hvað lífið getur verið einfalt ef að maður þróar með sér rétta viðhorfið til þess.  Óafvitandi hefur hann kennt mér lífslexíur sem ég gleymi vonandi aldrei. Merkilegt hvað það gerir biturri konu gott að hafa einn svona brosandi brimbrettakappa á sófanum í nokkra daga.

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið, Sófasörf