Kvart og kvein

Vika svefnleysis, stresskasta og almennrar óánægju er að renna upp. Í fyrsta skipti í sögu háskólagöngu minnar, sem er enn frekar stutt verður að viðurkennast, er ég formlega að drukkna. Ég reyni þó að halda sjálfsvorkunn minni í lágmarki þar sem um sjálfskaparvíti er að ræða. Mér var nær að vera að drekka bjór alla daga og kúra hjá einhverjum krakkaskratta í stað þess að læra. Maður uppsker eins og maður sáir og allt það. Það er þó huggun harmi gegn að ég er tiltörulega skýr í kollinum þannig að ef ég finn mér tíma til að setjast niður og skrifa allar þessar ritgerðir og verkefni sem framundan eru þá ætti mér að takast að fá ásættanlegar einkunnir fyrir þau. Ég hafði reyndar sett stefnuna á stórkostlegan árangur fyrir veturinn en skítsæmilegt verður víst að duga.

Mér liði mun betur með þetta allt saman ef að ég væri ekki að fara að passa einhverjar útlendinga á launum um helgina. Einhvern veginn fóru skyldur mínar við útlendingana úr því að kynna þeim næturlíf landans eitt kvöld yfir í að sækja þau á flugvöllinn, fara út á lífið og drífa þau svo í Bláa Lónið á sunnudag. Ég ætti kannski ekki að kvarta yfir því að fá borgað fyrir að djamma og fara í Bláa Lónið en þetta passar einkar illa inn í skipulagið. Og svo er ég ekkert alltof hress með að bera bumbuna fyrir framan horrenglu frá London og að öllum líkindum aðlaðandi maka hennar. Ég vona að hún verði með bólu á nefinu og hann með skalla.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Búið spil

Tveggja vikna mini sambandi mínu við ástralska barnið er senn að ljúka. Hann flýgur til Berlín á morgun og ég býst ekkert sérstaklega við að sjá hann aftur. Eins fáránlegt og það kann að hljóma þá verður skrýtið að sofa aftur ein í rúminu mínu og hafa ekki einhvern til að tala við allan sólarhringinn. Það er hægt að læra margt um fólk á tveimur vikum og enn meira um sjálfan sig. Þessi ótrúlega klári og indæli strákur á eftir að gleðja einhverja konu mjög mikið þegar að hann kemur sér loksins heim eftir ævintýrin. Taugaskurðlæknir sem spilar á gítar og semur tónlist í hjáverkum er góður fengur í öllum heimsálfum. Verst að ég verð orðin gömul kona þegar að hann klárar námið sitt og hefur aftur tíma til að heimsækja þennan útnára á hjara veraldar.

Ein athugasemd

Filed under Hitt kynið

Sjálfselska

Í tilefni 840. færslu á blogginu hennar Hlífar hef ég ákveðið að birta þessa mynd.

Fyndist fyndið að sjá fleiri útfærslur á þessari hugmynd á bloggum vinkvennanna.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Ástæður fyrir fjarveru

1) Airwaves. Fullt að gerast, ekki mikið tóm til þess að vera að skrifa einhverjar epískar bloggfærslur.

2) Skólinn. Alls kyns verkefni að dynja yfir. Dauði og djöfull.

3) Gaur. Ég held ég sé skotin í strák. Ég held hann sé líka skotinn í mér. Veit það samt ekki alveg. Skiptir ekki öllu máli því hann býr í Ástralíu. Er á meðan er.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið

Viltu vera memm?

Í gærkvöldi skrapp ég á Októberfest með stjórnmálafræðipíunum. Það var hressandi. Þar hitti ég gamlan skólafélaga sem ég hafði ekki séð í þónokkurn tíma. Ég var alltaf alveg rosalega skotin í honum í gamla daga og þó ég hafi skipst á að vera skotin í þeim nokkrum þá átti þessi alltaf sérstakan stað í hjarta mér. Skotið entist í mörg ár, langt út fyrir grunnskólann, og þrátt fyrir að hafa gert misheppnaða tilraun til þess að bjóða honum út í kringum 17 ára aldurinn þá þorði ég aldrei að láta þessar tilfinningar mínar í ljós.

Þar sem við sátum og spjölluðum um gamla tíma sagði ég honum hlæjandi frá þessu. Ég átti nú ekki von á öðru en að hann myndi hlæja með mér en mig rak í rogastans þegar að hann sagði mér að hann hefði líka verið skotinn í mér. Hann var víst skíthræddur við mig, sagði að ég hefði verið ógnvekjandi, og þorði aldrei að gera neitt í því. Í eitt skiptið hafði hann þó manað sig upp í að hringa í mig, í fyrsta skipti sem hann hringdi nokkurn tíma í stelpu sem hann var hrifinn af, undir því yfirskyni að hann vantaði einhvern tölvuleik sem að hann hélt að ég ætti. Dimm karlmannsrödd svaraði og tjáði honum þar sem hann skalf hinu meginn á línunni að ég væri á klósettinu og svo húkti hann á línunni þangað til ég var tilbúin að segja halló. Hann spurði mig um leikinn og ég svaraði víst: Nei, ég á hann ekki! og skellti á hann. Hann þorði aldrei að hringja í mig aftur.

Mér hefur alltaf þótt vænt um þennan strák, þótt að ég sé löngu hætt að vera skotin í honum, og mér þykir vænt um þessa minningu. Gaman að sjá að við erum orðin nógu gömul og þroskuð til að ræða þetta og hlæja að þessu saman. Þetta kennir manni líka að maður veit aldrei hvað aðrir eru að hugsa.

Ég velti því samt fyrir sér í framhaldinu: Ætli einhverjir aðrir hafi verið skotnir í mér? Ætli ég hafi hrætt marga? Reyndar heldur Hlíf því fram að ég sé enn ógnvekjandi.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl

Vugl og ritleysa

Ég ætla ekki einu sinni að reyna að skilja þetta. Á að skila verkefni í Alþjóðastjórnmálum á miðvikudag og í vinnulaginu á föstudag og þarf að beina allri minni orku að því. Ætlaði að hitta BéBéSéarann í kvöld en hann er örugglega að vinna úr atburðum dagsins og verður ekki hleypt á barrölt í kvöld. Kannski eins gott bara.

Ég tók fregnum af kreppu alvarlega og eldaði gamlar kartöflur í kvöldmatinn í stað þess að henda þeim. Kartöflurnar héldu lífi í Írum, þær hljóta að geta haldið lífi í einum skitnum Íslendingi. Ég held ég þurfi að endurskoða fyrirhuguð plön um heimsókn í bankann á morgun til þess að ræða um útfærslu á framfærsluláni vegna námslána. Ég verð svo aftur að endurskoða stöðu mína sem námsmaður ef að þetta framfærslulánsdæmi verður eitthvað vesen.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Blekkt af fréttamanni BéBéSé

Venjulega þegar að ég fer til London hitti ég vin minn E sem ég er búin að þekkja núna í örugglega 5-6 ár. Í fyrsta skipti sem ég hitti hann kynnti hann mig fyrir vini sínum sem ég hef síðan hitt af og til með honum í London og svo komu þeir kumpánar í heimsókn til mín fyrir tveimur árum og við eyddum frábærum tíma saman. Þeir eru fyndnir, kærusturnar þeirra indælar og það er alltaf gaman að hitta þau öll.

Eftir að hafa eytt helginni í sumarbústað fyrir austan í rólegheitum að læra kom mér það afar mikið á óvart að fá sms frá E á leiðinni upp Kambana þar sem hann tilkynnti mér það að vinurinn væri á Íslandi og vildi endilega hitta mig. Hann gaf mér númerið hans og sagðist myndi gefa honum númerið mitt. Fyrr átti ég von á dauða mínum en að hitta hann aftur í Reykjavík. Vinurinn er hagfræðingur sem vinnur á BBC fréttastofunni og var sendur til Íslands til að fjalla um efnahagsástandið. Skömmu eftir að ég kom heim fékk ég svo símtal og úr varð að ég mælti mér mót við hann í öl á Hressó.

Til að gera langa sögu stutta þá hélt ég að ég væri að hitta félaga minn frá London í öl á milli dagskráliða hjá honum en í staðinn hitti ég fréttamann BéBéSé sem punktaði niður það sem ég sagði og spurði mig svo hvort hann mætti ekki örugglega hafa þetta eftir mér. Hann gaf mér val um að vera nafnlaus eða undir fullu nafni og bað mig svo um að fá að taka mynd af mér til að nota með greininni sem ég hafði ekki hugmynd um að hann væri að skrifa. Hann vinnur á sjónvarpsfréttastofu BéBéSé en var beðinn af BéBéSé Onlæn að skrifa smá greinarkorn um ástandið áður en þeir vinda sér í að taka öll sjónvarpsviðtölin sem þeir þurfa að taka á morgun, meðal annars við Geir „Hotness“ Haarde*.

Ég var blekkt. Lokkuð með bjór og fyrirheitum um vinaspjall. Í staðinn lendir smettið á mér kannski á einni af stærri fréttasíðunum í heiminum. Og í tengslum við efnahagsmál af öllu.

Annars öfunda ég ekki fréttamennina sem hafa hreiðrað um sig hérna í Tjarnargötunni en ég hjólaði fjórum sinnum fram hjá þeim í kvöld og það virtist ekkert vera gaman hjá þeim. Þetta er þó skárra en þegar að þjóðhöfðingjar heimsækja ráðherrabústaðinn en þá er götunni hreinlega lokað.

*Að gefnu tilefni vil ég taka fram að mér finnst Geir H. Haarde EKKI hot og því síður Sexy. Myndina tók ég af gluggakistu 15 ára systur minnar einhvern tíma í fyrra en á MySpace síðunni hennar stendur einmitt: Mér finnst Árni Mathiesen hönk. Ég hef ákveðið að ræða við móður mína þessar undarlegu áráttu yngstu dóttur hennar þegar að kemur að miðaldra pólitíkusum en það breytir því ekki að myndin er fyndin.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Æ!

Ég var á leiðinni heim með strætó um daginn þegar að bílstjórinn stöðvar allt í einu vagninn og leggst á flautuna. Þetta var á hringtorginu við N1 við gömlu Hringbrautina og ástæðan fyrir því að strætóinn komst ekki áfram var að tveir gaurar í vel straujuðum fataplöggum voru í óða önn að ýta bensínlausum Porche á bensínstöðina. Það er ekkert grín að vera bankaplebbi á Porche í dag.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Tim O’Horton’s hears a who

Kvartað var undan bloggleysi höfundar og er þessi færsla tilraun til að bæta úr því. Ég vil þó koma því að framfæri að ég tel ekki að þeir sem sjálfir vanrækja sínar eigin bloggsíður hafi atkvæðarétt þegar að kemur að tíðni færslna annars staðar. Höfundur hefur þó löngum talist sérlega greiðvirkinn og sáttarfús einstaklingur og hefur því ákveðið að bregðast við ákorun þeirri er birtist í athugasemd við síðustu færslu.

Ég og spænski skiptineminn ,sem ég á að vera innan handar í vetur, ákváðum að bregða okkur af bæ í gærkvöld og nýta fríu klippikortin sem ég fékk á RIFF. Myndin sem varð fyrir valinu var opnunarmyndin O’Horten sem kemur frá minnst uppáhaldslandinu mínu í heiminum, Noregi. Oslóarpésinn, sem er í stuttri heimsókn á Íslandi með kærastann og tengdafjölskylduna, sagði mér að þessi mynd hefði fengið dræma dóma í heimalandinu og því hélt ég af stað með engar væntingar í farteskinu. Myndin kom þó skemmtilega á óvart og mæli ég hiklaust með henni. Húmorinn, sem minnti mig um margt á hina áreynslulausu kímni sem einkenndi mynd Zach Braff: Garden State, var dásamlegur og mér fannst myndartakan heppnast einstaklega vel. Veldig bra!

Titillinn O’Horten minnir mig á Tim Hortons sem er fræg kanadísk kaffihúsakeðja nefnd eftir íshokkíleikmanni sem stofnaði fyrirtækið að mig minnir. Tim Hortons hefur verið hornsteinn í kanadískri menningu um árabil og fékk ég ekki að yfirgefa Toronto fyrr en ég var búin að prófa að borða morgunmat þar og drekka kaffi. Það kaldhæðnislega er þó að fyrir nokkrum árum keypti erkióvinurinn leyfið og er Tim Hortons nú í eigu Bandaríkjamanna. Það er svona eins og ef Brennivín væri framleitt í Danmörku. Tim Hortons er á hverju horni í Toronto, tvisvar á sumum hornum, og í hvert skipti sem ég las á skiltin þeirra þegar að ég gekk um borgina heyrði ég „hears a who“ óma einhvers staðar aftan í höfðinu á mér.

Annars er það að frétta að Spánverjinn, ekki sá sami og skiptineminn, sveik mig um kaffiboðið og hefur ekki látið í sér heyra . Ritgerðin stendur svo í 300 orðum þar sem ég strokaði út hluta af því sem ég hafði skrifað og tókst mér því að færast aftur um helgina í stað þess að klára eins og stóð til. Já og fégræðgi mín (lesist: fátækt sökum þess að engin hefur skilað veskinu mínu) varð til þess að ég þarf að vakna klukkan hálf sex í fyrramálið til þess að rúnta með strætó og telja farþega. Einn, tveir, ZZZzzzz……

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Að gefnu tilefni…

…vil ég benda á það að færslan hér fyrir neðan eru 485 orð sem er tæpur helmingurinn af ritgerð sem ég þarf að skrifa í einu námskeiðinu mínu sem má ekki fara yfir 1500 orð með forsíðu og öllu. Ég skrifaði færsluna hér fyrir neðan á tæpum klukkutíma en eftir tveggja daga setu fyrir framan tölvuskjáinn eru tæplega 400 orð komin á blað og þau vilja ekki verða fleiri. Af hverju ætli það sé?

Ég ætla að hitta ringlaða Spánverjann í kaffi á sunnudaginn með einhverjum vinum hans. Ég samþykkti aldrei að gerast íslenskukennari enda hef ég engin réttindi í það. Ég sé það mjög myndrænt fyrir mér hvernig þessi kaffihúsaferð á eftir að fara en í hausnum á mér eru hann og vinir hann stóreygir ljósbláir fuglar sem horfa opinmynntir á mig og bíða eftir að ég segi eitthvað stórkostlegt. Líklegar þykir mér þó að ég segi eitthvað asnalegt og ekki við hæfi eins og svo oft vill verða. Ég þarf að biðja einhvern að greina þetta með fuglana.

Ó, já, alveg rétt. Ég á tvo boðsmiða á opnunarhátið RIFF á morgun ef einhver vill koma með.

Þessi færsla eru 194 orð að þessari málsgrein meðtaldri.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl