Tag Archives: Þórsmörk

Helgin

Rútan erfiðaði yfir grjót og ár á leiðinni út úr Mörkinni sem gerði það að verkum að ómögulegt reyndist að lesa staf þangað til komið var á malbik. Í staðinn hlustaði ég á elskhugann ástkæra en skemmtilegir tölvuvæddir tónar Hot Chip voru í hrópandi mótsögn við tilkomumikið landslagið. Ég er ástfangin af Þórsmörk og litla kofanum sem hýsir mig á meðan ég þykist vinna þarna innfrá og hlakka strax til að fara þangað aftur eftir tvær vikur.

Á leiðinni uppeftir var ég beðin um að fræða liðið um hvað skyldi gera ef að Katla byrjaði allt í einu að gjósa og eftir að hafa setið fund kvöldið áður þar sem farið var yfir þau mál í smæstu smáatriðum átti ég að vera fullfær um það. Límminnið mitt hafði meira að segja haft fyrir því að muna það að það síðasta staðfesta Kötlugos var 1918 en vísindamenn halda að það gætu hafa verið tvö smágos 1955 og 1999. Þar sem ég sat með hljóðnemann fremst í rútunni í hossingnum á leiðinni framhjá Stóra-Dímon gerði gamla góða sviðshræðslan vart við sig og ég náði einhvern veginn að klúðra þessu algjörlega. Fyrst verður hausinn tómur og síðan bruna allar upplýsingarnar sem ég geymi í kollinum fram í einu og ég veit ekki hverja upplýsingafluguna ég á að grípa fyrst. Að lokum er eins og hausinn breytist í blandaraskál og svo er kveikt á blandaranum. Sullið þar sem eitt sinn var heili flýtur út um eyrun og fyrir framan mig sitja 20 manns sem skilja hvorki upp né niður í orðunum sem velta út úr munninum í engri sérstakri röð og algjörlega án samhengis.

Það er einhvern veginn erfiðara að fyrirgefa sjálfum sér þegar að maður klúðrar hlutunum með fullu viti og ekki undir áhrifum áfengis. Þá hefur maður ekki við neinn að sakast nema sjálfan sig.

Núna er ég heima með þreytta vöðva eftir að hafa klifrað upp og niður hlíðarnar með tré í eftirdragi, bæði lítil tré sem þurfti að koma í mold og stóra drumba sem karlmennin i ferðinni söguðu niður með keðjusög. Í vikunni fer ég svo til Grænlands en það er eins og mig minni frá fyrri ferð minni þangað að þar sé ekki mikið um tré. Enda er ég ekkert að fara þangað til að skoða einhvern trjágróður.

3 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Ferðalög