Tag Archives: Dark Knight

Myrki Riddarinn

Fór að sjá Dark Knight á miðvikudaginn. Klassa ræma. Heath Ledger var rosalegur í hlutverki Jókersins. Elska líka Christian Bale og Gary Oldman. Meira að segja soldið skotin í henni þarna Gyllenhal. Og Morgan Freeman maður. Það eru nú þegar allir búinir að tjá sig um þessa mynd þannig að ég ætla að láta staðar numið hér. Hinsvegar verð ég að segja frá því að ég sá þessa mynd með tveimur strákum frá Kaliforníu sem gista á tjaldsvæðinu í Laugardalnum. Það er í sjálfu sér ekki frásögu færandi að ég sé að skottast með einhverjum útlendingum en þessir tilteknu guttar eru báðir örugglega 2 metrar á hæð og ég upplifði það í fyrsta skipti hvernig er að vera lítill. Pabbi minn er hávaxinn en hann er líka mikill um sig þannig að maður finnur minna fyrir því hvað hann er hár. Mér fannst ég hreinlega dvergvaxin með þessum risum og þurfti í fyrsta skipti á ævinni held ég að horfa vel upp til að tala við þá. Ég skildi skyndilega hvernig Litla-Birni leið þegar að Stóri-Björn mætti á 10cm hælum á djammið forðum daga.

Það sem mér finnst einkar skemmtilegt við risana er að þeir eru hinir mestu ljúflingar. Annar er smámæltur og samkynhneigður með alla þá takta sem því fylgja en jafnframt feiminn og óframfærinn. Hinn spilar reyndar í metal bandi en því meira sem ég kynnist af metalhausum því meira sannfærist ég um að þeir fái alla þá útrás sem þeir þurfa í gegnum tónlistina og þegar að þeir eru ekki á sviði þá eru þetta algjörir kettlingar. Þeir eru að ferðast um Evrópu sem sjálfboðaliðar á bóndabæjum sem sérhæfa sig í lífrænni ræktun (WWOOF) sem sýnir kannski best hvernig gaurar þetta eru. Indælis piltar alveg hreint. En stórir!

Ég get samt ekki minnst á Dark Knight án þess að segja hversu óendanlega sorglegt það er að Heath Ledger skuli hafa dáið áður en þessi mynd kom út. Grátlegt.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl