Tag Archives: flugvélar

Grænland

Ég var búin að gleyma hvað Grænland er fallegt land. Reyndar er landslagið á austurströndinni á köflum víst mjög líkt Íslandi og fékk ég á tilfinninguna að ég væri einhvers staðar uppi á fjöllum fyrir norðan þegar að ég gekk út úr flugstöðinni í Kuluskuk. Húsin, ísjakarnir og fólkið sem talar þetta skemmtilega tungumál frá kokinu minntu mig þó fljótlega á að ég var komin á framandi slóðir. Vegurinn sem við fylgdum inn að þorpinu hafði verið ruddur og opnaður almennilega nokkrum dögum fyrr og fyrsta birgðaskip sumarsins var að leggja  að bryggju frá Ammasalik þegar í þorpið var komið. Kaupfélagið var þó merkilega fullt af vörum en hafði ástandið oft verið verra samkvæmt því sem leiðsögumaðurinn sagði okkur. Þar mátti finna kjólföt á gínu, Faxi Kondi í stöflum og veiðiriffla í sömu hillustæðu og marglit barnaleikföng. Veðrið lék við okkur og litlu skipti þó að báturinn okkar hafi átt í vandræðum með eldsneytið á leiðinni til baka á flugvöllinn þar sem skipstjórinn ungi sneiddi listilega framhjá mistórum ísjökum. Hann kom okkur í land á endanum og glaðar töltum við aftur í flugstöðarbygginguana þar sem flugvélin beið eftir að koma okkur heim. Yndislegur dagur í alla staði.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Ferðalög