Tag Archives: Gítar

Ástkæru lesendur

Ég er ekki hætt að blogga. Það vill bara þannig til að ég er ekki búin að blogga í rúma tvo mánuði. Það var ekki með vilja gert né heldur vildi ég særa mína tryggu þrjá lesendur eða svo. Ég er bara búin að vera fáránlega upptekin.

Nú væri rökrétt að koma með ástæður þess hvers vegna ég hef ekki sést mikið á blogginu undanfarið en ég nenni ekki að fara í það í löngu máli. Eldsnöggt og á hundavaði þá eru ástæðurnar eftirfarandi:

1) Skólinn:
Endalausar ritgerðir í nóvember, jólapróf í desember, sjúkrapróf í janúar og svo bara byrjaði skólinn aftur á fullum krafti. Kellan kom samt vel undan vetri og er með 8.5 í meðaleinkunn eftir þessa fyrstu önn. Viðunandi árangur miðað við vinnuframlagið á önninni en er örlítið súr út í eina einkunnina sem dregur meðaltalið niður. Hef ákveðið að taka prófið aftur næstu jól og klárlega fá 10!

2) Couchsurfing:
Var agalega dugleg að blanda geði við sófasörfara síðustu mánuði ársins og  varð í kjölfarið City Ambassador fyrir Reykajvík. Á að vera að skipuleggja hitting og dytta að á heimasíðunni en hef lítið komist í slíkt núna eftir áramótin.

3) ESN Reykjavík
Sigga Player plataði mig í að taka þátt í ESN (Erasmus Student Network) sem eru skiptinemasamtök / vinnuhópur um hagsmuni erlendra nema undir stúdentaráði. Það fer ekki mikið fyrir hagsmunabaráttunni í bili en nóg er um partýin, fjörið, glauminn og gleðina. Erum búin að fara á skíði, skauta, halda þorrablót og ég veit ekki hvað og hvað.

4) Vinnan
Ég er enn að vinna og það tekur sinn tíma.

5) Afmælispartýið
Við Silja héldum klárlega partý aldarinnar… ja eða allavega partý febrúarmánuðs. Fengum svo lítinn Eddu og Steindórsson í afmælisgjöf.

6) Kærastinn
Ákvað að taka þetta kærastamál bara með trompi og gerast kærasta. Héldu margir að himinn og jörð væru að farast þegar að ég, af öllum,  var mætt í Fjölskyldu-og húsdýragarðinn einn sunnudagsmorguninn fyrir hádegi með dóttur fyrrnefnds kærasta ásamt vinkonu. Allt í einu er ég komin með allt er varðar álfa á hreint (vissuð þið til dæmis að Skellibjalla er viðgerðarálfur sem gerir við potta og pönnur?) og hef lítið sést á mínu eigin heimili svo vikum skiptir. Það er mun einfaldara að vera kærasta en ég hélt til að byrja með. Fólk getur samt beðið rólegt með brúðargjafir eða barnatal, það er ekkert á dagskrá á næstunni!

7)Gítarinn:
Fékk gítar í afmælisgjöf. Finnst þetta besta gjöf sem ég hef fengið lengi og ÆTLA að læra að spila á hann.

Svo er nú það. Over and out.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið, Sófasörf