Tag Archives: gleði

Stórar öldur í sörfinu þessa dagana

Andfætlingurinn af óræða asíska upprunanum er horfinn á braut eftir að hafa verið hjá mér í 5 nætur í stað þeirra tveggja sem um var samið í upphafi. Ég er að komast að því að ef að ég mun einhvern tíma lenda í vandræðum með sörfara sem sest upp á mig og neitar að fara að ég mun örugglega ekki eiga nein ráð til að losna við viðkomandi. Fólk einhvern veginn fer bara ekkert en enn sem komið er hefur mér þótt gaman að hafa þá í kringum mig sem hafa ílengst hjá mér.

Í gær hélt ég svo uppteknum hætti og tók á móti Frakka sem á ítalska móður og spænskan föður en býr um þessar mundir í höfuðstað Spánarveldis. Foreldrar hans kynntust í Frakklandi og töluðu aldrei annað en frönsku hvort við annað og börnin svo það eina sem hann tók með sér úr þessum ráðahag er útlitið sem ekki getur talist týpískt fyrir neitt af þessum löndum en svipar þó til þeirra alla.  Ég er farin að velta því fyrir mér hvort það sé eitthvað fólk eftir í þessum heimi sem á rætur sínar að rekja til einhverrar einnar þjóðar því allir sem koma til mín virðast vera undarlegur hrærigrautur af hinum ýmsu menningarheimum.

Ég tók andfætlinginn með mér í partý í síðustu viku sem endaði í vitleysu á Kaffibarnum með fólki alls staðar að. Partýið fór fram á bát í Reykjavíkurhöfn en þar varð ég fyrir því skemmtilega óhappi að á mig skeit fugl sem sveimaði yfir gleðskapnum. Ég sannaði þó hið fornkveðna að þess háttar uppákomur séu til lukku þegar að ég vann rómantíska gistingu fyrir tvo á hóteli á Mývatni í happadrætti seinna um kvöldið. Ég á þó engan rómantískan félaga til þess að taka með mér og konan sem ég ætlaði að taka með mér fann sér kærasta á Kaffibarnum svo að þau geta bara átt sína rómantík í friði og fá ekki að koma með mér á Mývatn.  Á Kaffibarnum fékk ég svo ástarjátningu frá Nepala á stærð við hnefa og furðaði ég mig enn einu sinni á því hvaða áhrif þessi tröllskessa hefur á stærðarhefta menn.

Í grófum dráttum er gaman að vera ég þessa dagana og hrærigrautsliðið leikur stórt hlutverk í gleðinni.

Færðu inn athugasemd

Filed under Sófasörf

Háskóli Íslands

Háskólinn hefur samþykkt umsókn þína um skólavist. Umsóknin tekur gildi við greiðslu skrásetningargjalds innan þeirra tímamarka sem fram koma á greiðsluseðli.

Ég vissi alveg að umsóknin mín yrði samþykkt en það er samt gott að hafa þetta skjalfest.

4 athugasemdir

Filed under Almennt röfl

Hugleiðing

Þegar að ég ákvað að byrja að blogga aftur, eftir ótrúlega lélega mánaðar pásu, þá var ætlunin alls ekki að detta ofan í það sama gamla að ræða í þaula ástarlíf mitt eða vöntun á því. Ég hafði hugsað mér að vera háfleyg og alvarleg í dillandi ljóðrænum stíl og ræða um andans menn og málefni. Því síður ætlaði ég að tileinka bloggið einhverju manni sem ég þekki lítið sem ekkert og átti sér einskis ills von þegar að hormónablandaði hvítvínskokteilinn hoppaði á hann eins og tík á lóðaríi. En svona gerist þetta bara stundum, maður hefur engan hemil á bloggskrímslinu sem æðir bara í þær áttir sem því sýnist hverju sinni.

Staðreyndin er þó sú að kynni mín af manninum sem bloggið er ekki tileinkað voru bara þannig að þau opnuðu augu mín fyrir ótal hlutum. Hann veit að sjálfsögðu ekkert um það að ég skuli vera að velta mér svona mikið upp úr hverju smáatriði sem okkur fór á milli. Ég held að hann geri sér heldur ekkert endilega grein fyrir því hversu sæl og ánægð ég var þegar að ég fékk sms frá útlandinu í gærdag sem innihéldu ótal kossa til mín frá honum. Ég var með fiðrildi í maganum og axlirnar herptust saman þar sem ég sat og brosti allan hringinn. Ekki af því að ég sé svo skotin í honum eða að ég haldi að þetta hafi verið meira en það sem það var heldur einmitt af því að það var bara akkúrat sem það var: ljúft og þægilegt.

Sænski sófasörfarinn sem deildi herberginu mínu með okkur eina nóttina, 19 ára alvarlega þenkjandi flicka frá Stokkhólmi, kallaði hann heimskan brimbrettagæja. Heimskur var hann nú ekki en hann var ekki mikið gefinn fyrir bækur, vann verkamannavinnu, stefndi ekki á háskólanám og var ekki manna bestur í stafsetningu. Hann virtist samt fullkomlega hamingjusamur með þann stað sem hann er á í lífinu og sænska ungpían var sammála mér um það að í því lægi aðdráttarafl hans. Eftir kyrfilega sálgreiningu á kauða held ég að hann sé svona gaur sem leggur áherslu á að gera hlutina með hjartanu frekar en höfðinu. Ég á hinn bóginn geri allt með höfuðið við stjórnvölinn og leyfi hjartanu aldrei að hlaupa frjálsu. Þess vegna held ég að hann sé hamingjusamur á meðan að ég flögra um eins og fluga í flösku.

Ég held að þegar að á öllu er á botnin hvolft þá sé ég komin að krossgötum í lífinu. Eitthvað innra með mér er að breytast og þess vegna hefur fólk svona mikil áhrif á mig óafvitandi. Ég soga að mér visku annarra eins og svampur við eldhúsvask og reyni eftir fremsta megni að tileinka mér það besta. Árangurinn verður svo bara að koma í ljós síðar. Á meðan horfi ég dreymnum augum fram fyrir mig og glotti í hvert skipti sem ég man eftir andfætlingnum góða.

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið, Sófasörf