Tag Archives: Grænland

Þakklæti

Stundum gengur allt á afturfótunum hjá manni. Símum er stolið. Veski týnast. Tölvur fá vírusa og óskipulagðar flugferðir af hjólum valda manni sársauka. Stundum gerist þetta allt á nokkrum dögum og maður getur ekki annað en að veltast um í sjálfsvorkunn og eymd. Þá er gott að setja hlutina í samhengi. Muna eftir félögum sem nú fara ferða sinna í hjólastól og vinum sem misstu meira en maður getur ímyndað sér. Svo ekki sé minnst á alla þá sem hafa ekki notið þeirra forréttinda að fæðast í landi þar sem ofgnótt er af öllu og hallæri í efnahagsmálum þýðir að leggja verði bíl númer tvö á heimilinu.

2008 er búið að vera gott ár. Síðasta vika hefði mátt vera betri en glóðuraugað er á undanhaldi og hreyfigeta handleggsins verður meiri með hverjum deginum. Það er hægt að kaupa nýja síma og maður verður að halda í vonina að fólk sé heiðarlegt og skili stúdentaskírteinum og strætókortum. Á 9 mánuðum heimsótti ég 8 lönd í 5 ferðum og hitti ótrúlegt fólk sem breytti lífi mínu. Ég er ekki með bílalán í erlendri mynt og á ekki kall sem er að halda fram hjá mér eða langveik börn.  Lífið er gott og ég er þakklát.

TÆLAND JANÚAR-FEBRÚAR

Konungshöllin í Bangkok

Tuk Tuk bílstjórinn sem bjargaði lífi mínu

Ástralar á fílsbaki

Bakpokaferðalangar í Chiang Mai

Strandlíf á Koh Lanta

LAOS JANÚAR

Mekong

Himnaríki á jörðu

Vang Vieng

KAMBÓDÍA FEBRÚAR

Þar sem ekki eru tveir bílar á heimili

Bayon hofið í Angkor Wat

Sætir litlir kambódískir krakkar

SPÁNN FEBRÚAR

Salamanca mi vida, mi corazón

La Casa De Las Conchas

Plaza Mayor Madrid

DANMÖRK MAÍ

Sólskinsdagur í Köben

Nyhavn

GRÆNLAND JÚNÍ

Kulusuk

Hressandi að komast í smá snjó

Trommudans

ENGLAND ÁGÚST

Muse

Wow, look at you now, Flowers in the window,Its such a lovely day,
And Im glad that you feel the same

KANADA ÁGÚST

Montréal

Nálægt Lanchine Rapids

Toronto

Þegar að ég verð gömul kona kem ég til með að líta tilbaka og segja fólki að 2008 hafi verið eitt besta ár lífs míns. Þrátt fyrir glóðurauga og týnd veski.

4 athugasemdir

Filed under Ferðalög

Grænland

Ég var búin að gleyma hvað Grænland er fallegt land. Reyndar er landslagið á austurströndinni á köflum víst mjög líkt Íslandi og fékk ég á tilfinninguna að ég væri einhvers staðar uppi á fjöllum fyrir norðan þegar að ég gekk út úr flugstöðinni í Kuluskuk. Húsin, ísjakarnir og fólkið sem talar þetta skemmtilega tungumál frá kokinu minntu mig þó fljótlega á að ég var komin á framandi slóðir. Vegurinn sem við fylgdum inn að þorpinu hafði verið ruddur og opnaður almennilega nokkrum dögum fyrr og fyrsta birgðaskip sumarsins var að leggja  að bryggju frá Ammasalik þegar í þorpið var komið. Kaupfélagið var þó merkilega fullt af vörum en hafði ástandið oft verið verra samkvæmt því sem leiðsögumaðurinn sagði okkur. Þar mátti finna kjólföt á gínu, Faxi Kondi í stöflum og veiðiriffla í sömu hillustæðu og marglit barnaleikföng. Veðrið lék við okkur og litlu skipti þó að báturinn okkar hafi átt í vandræðum með eldsneytið á leiðinni til baka á flugvöllinn þar sem skipstjórinn ungi sneiddi listilega framhjá mistórum ísjökum. Hann kom okkur í land á endanum og glaðar töltum við aftur í flugstöðarbygginguana þar sem flugvélin beið eftir að koma okkur heim. Yndislegur dagur í alla staði.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Ferðalög

Helgin

Rútan erfiðaði yfir grjót og ár á leiðinni út úr Mörkinni sem gerði það að verkum að ómögulegt reyndist að lesa staf þangað til komið var á malbik. Í staðinn hlustaði ég á elskhugann ástkæra en skemmtilegir tölvuvæddir tónar Hot Chip voru í hrópandi mótsögn við tilkomumikið landslagið. Ég er ástfangin af Þórsmörk og litla kofanum sem hýsir mig á meðan ég þykist vinna þarna innfrá og hlakka strax til að fara þangað aftur eftir tvær vikur.

Á leiðinni uppeftir var ég beðin um að fræða liðið um hvað skyldi gera ef að Katla byrjaði allt í einu að gjósa og eftir að hafa setið fund kvöldið áður þar sem farið var yfir þau mál í smæstu smáatriðum átti ég að vera fullfær um það. Límminnið mitt hafði meira að segja haft fyrir því að muna það að það síðasta staðfesta Kötlugos var 1918 en vísindamenn halda að það gætu hafa verið tvö smágos 1955 og 1999. Þar sem ég sat með hljóðnemann fremst í rútunni í hossingnum á leiðinni framhjá Stóra-Dímon gerði gamla góða sviðshræðslan vart við sig og ég náði einhvern veginn að klúðra þessu algjörlega. Fyrst verður hausinn tómur og síðan bruna allar upplýsingarnar sem ég geymi í kollinum fram í einu og ég veit ekki hverja upplýsingafluguna ég á að grípa fyrst. Að lokum er eins og hausinn breytist í blandaraskál og svo er kveikt á blandaranum. Sullið þar sem eitt sinn var heili flýtur út um eyrun og fyrir framan mig sitja 20 manns sem skilja hvorki upp né niður í orðunum sem velta út úr munninum í engri sérstakri röð og algjörlega án samhengis.

Það er einhvern veginn erfiðara að fyrirgefa sjálfum sér þegar að maður klúðrar hlutunum með fullu viti og ekki undir áhrifum áfengis. Þá hefur maður ekki við neinn að sakast nema sjálfan sig.

Núna er ég heima með þreytta vöðva eftir að hafa klifrað upp og niður hlíðarnar með tré í eftirdragi, bæði lítil tré sem þurfti að koma í mold og stóra drumba sem karlmennin i ferðinni söguðu niður með keðjusög. Í vikunni fer ég svo til Grænlands en það er eins og mig minni frá fyrri ferð minni þangað að þar sé ekki mikið um tré. Enda er ég ekkert að fara þangað til að skoða einhvern trjágróður.

3 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Ferðalög