Tag Archives:

Ástkæru lesendur

Ég er ekki hætt að blogga. Það vill bara þannig til að ég er ekki búin að blogga í rúma tvo mánuði. Það var ekki með vilja gert né heldur vildi ég særa mína tryggu þrjá lesendur eða svo. Ég er bara búin að vera fáránlega upptekin.

Nú væri rökrétt að koma með ástæður þess hvers vegna ég hef ekki sést mikið á blogginu undanfarið en ég nenni ekki að fara í það í löngu máli. Eldsnöggt og á hundavaði þá eru ástæðurnar eftirfarandi:

1) Skólinn:
Endalausar ritgerðir í nóvember, jólapróf í desember, sjúkrapróf í janúar og svo bara byrjaði skólinn aftur á fullum krafti. Kellan kom samt vel undan vetri og er með 8.5 í meðaleinkunn eftir þessa fyrstu önn. Viðunandi árangur miðað við vinnuframlagið á önninni en er örlítið súr út í eina einkunnina sem dregur meðaltalið niður. Hef ákveðið að taka prófið aftur næstu jól og klárlega fá 10!

2) Couchsurfing:
Var agalega dugleg að blanda geði við sófasörfara síðustu mánuði ársins og  varð í kjölfarið City Ambassador fyrir Reykajvík. Á að vera að skipuleggja hitting og dytta að á heimasíðunni en hef lítið komist í slíkt núna eftir áramótin.

3) ESN Reykjavík
Sigga Player plataði mig í að taka þátt í ESN (Erasmus Student Network) sem eru skiptinemasamtök / vinnuhópur um hagsmuni erlendra nema undir stúdentaráði. Það fer ekki mikið fyrir hagsmunabaráttunni í bili en nóg er um partýin, fjörið, glauminn og gleðina. Erum búin að fara á skíði, skauta, halda þorrablót og ég veit ekki hvað og hvað.

4) Vinnan
Ég er enn að vinna og það tekur sinn tíma.

5) Afmælispartýið
Við Silja héldum klárlega partý aldarinnar… ja eða allavega partý febrúarmánuðs. Fengum svo lítinn Eddu og Steindórsson í afmælisgjöf.

6) Kærastinn
Ákvað að taka þetta kærastamál bara með trompi og gerast kærasta. Héldu margir að himinn og jörð væru að farast þegar að ég, af öllum,  var mætt í Fjölskyldu-og húsdýragarðinn einn sunnudagsmorguninn fyrir hádegi með dóttur fyrrnefnds kærasta ásamt vinkonu. Allt í einu er ég komin með allt er varðar álfa á hreint (vissuð þið til dæmis að Skellibjalla er viðgerðarálfur sem gerir við potta og pönnur?) og hef lítið sést á mínu eigin heimili svo vikum skiptir. Það er mun einfaldara að vera kærasta en ég hélt til að byrja með. Fólk getur samt beðið rólegt með brúðargjafir eða barnatal, það er ekkert á dagskrá á næstunni!

7)Gítarinn:
Fékk gítar í afmælisgjöf. Finnst þetta besta gjöf sem ég hef fengið lengi og ÆTLA að læra að spila á hann.

Svo er nú það. Over and out.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið, Sófasörf

Tjarnargötufréttabréfið 1.tbl. 1árg.

Ég þjáist af ritstíflu. Það er ekki nóg með að ég sé komin með ógeð af skriftum eftir fáránlega ritgerðatörn í nóvember, og síðustu ritgerðina sem ég á að skila á morgun og er að reyna að berja saman í þessum töluðu orðum, heldur er ég uppurin af hugmyndum og sniðugheitum. Það er ekki vottur af húmor eftir í hláturtaugunum og þeir ömurlegu brandarar sem ég reyni þó að koma frá mér brotlenda harkalega áður en þeir ná til viðtakanda. Ég er leiðinleg!

Annars er það helst að frétta að mér hefur mögulega tekist að falla í fyrsta skipti í háskólaprófi. Vissi ekki að ég hefði þetta í mér, sérstaklega ekki eftir að hafa setið í 6 daga sveitt við lestur. Ég hef hingað til látið mér nægja að læra dag eða tvo fyrir próf og hef þannig fleytt mér áfram. Glósað þetta helsta og vonað það besta. En alþjóðastjórnmálakennarinn  ákvað bara að nú væri tími til kominn að kenna mér hvar Davíð keypti ölið og mætti galvösk á prófdag með svínslegasta próf sem ég hef séð í áraraðir. Því fleiri dagar sem líða frá þessu ágæta prófi, því sannfærðari verð ég um eigin heimsku. Hef þó ákveðið að taka á þessu með stóískri ró og mun þá bara taka upptökupróf í janúar ef illa fer. Það grátlega er að þetta er eina fagið sem ég hafði einhvern metnað í og ég mætti í hvern einasta tíma, sem er meira en ég get sagt um hin námskeiðin (hóst). Það er huggun harmi gegn að ég hef ekki heyrt af neinum sem gekk vel í þessu prófi. Ég er í það minnsta bara jafnheimsk og hinir.

Já og svo er ég að hitta gaur. Hann er ekki útlenskur, ekki lítill og ekki hálfviti. Eiginlega bara alveg fáránlega almennilegur. Einhverra hluta vegna þá er hann líka agalega skotinn í mér. Klárlega gengur hann ekki heill til skógar.

4 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið

Gáfumannarit

Ég komst yfir eintak af nýjasta Economist í dag þar sem að segir meðal annars í grein um vandamálin sem blasa við hagkerfum Austur-Evrópu: „WILL an ex-communist country be the next Iceland?“.  Ég veit ekki af hverju en mér finnst þetta afskaplega súrrealísk staða sem við erum búin að koma okkur í, hvort sem það var gert með hjálp hinna illu Breta og undirmálslána í Bandaríkjunum eða ekki. Ég ætla samt ekkert að ræða þetta frekar þar sem ég er a) ekki hagfræðingur og skil þetta mál alls ekki nógu vel og b) það eru allir orðnir dauðleiðir á að heyra um það. Hinsvegar get ég sagt ykkur að The Economist og Newsweek og svona blöð hafa verið uppáhalds fluglestrarefnið mitt núna til nokkurra ára. Það hefur eflaust skotið skökku við í augum margra þegar að ég var að bakpokaferðalagast um Suðaustur-Asíu á flipp flopp sandölum og Tæbuxum að í stað þess að lesa The Lonely Planet spjaldanna á milli á hinum ýmsu flugvöllum á ferðalaginu ,eins og samferðamenn mínir, sat ég oft og iðulega með þessi tímarit og býsnaðist yfir heimsmálunum. Reyndar varð mest af þeirri þekkingu sem ég aflaði mér á þessu ferðalagi eftir í Asíu þar sem ég drap heilasellurnar sem geymdu hinar nýju upplýsingar jafnóðum með óhóflegri bjórdrykkju.

Allavega! Þrátt fyrir góðan vilja af minni hálfu og alveg hreint ágætis enskukunnáttu þá skildi ég aldrei nema helminginn í sumum greinunum sem ég var að lesa. Ástæðan var alls kyns fagmál og skírskotun í atburði, stofnanir, menn og málefni sem ég kannaðist lítið sem ekkert við. Í dag hins vegar þá allt í einu tók ég eftir því að ég skildi mun meira en áður. Hlutir eins og Bretton Woods, IMF, IJC, The Bradley Effect og hvað þetta heitir allt saman voru allt í einu ekki bara undarleg uppröðun stafa sem hafði enga merkingu í hausnum á mér heldur gat ég tengt þetta við fyrirlestra sem ég hef setið og námsefnið í skólanum. Það var eins og nýr heimur hefði opnast fyrir mér og loksins fannst mér ég hafa lært eitthvað. Ég er mjög mikið búin að velkjast í vafa um hvort ég hafi valið rétta námið fyrir mig en ég skráði mig einmitt í stjórnmálafræði af því að ég vildi skilja meira. Ég er kannski ekki alveg 100% að finna mig í þessu en alltént skil ég örlítið meira en áður. Það ætti þó ekki að koma á óvart að alþjóðastjórnmálin er uppáhalds kúrsinn minn.

Annars voru nokkrar mjög áhugaverðar greinar í The Economist að þessu sinni. Til dæmis var grein um aðferðir sem Saudi Arabía hefur verið að beita gegn íslömskum hryðjuverkamönnum (sem er áhugavert þar sem Saudi er líklega það land sem er hvað strangtrúaðast í hinum íslamska heimi) og önnur um genatískar rannsóknir á samkynhneigð. Mæli með þessu ef að einhver þarf að fara til læknis og finnur þetta eintak á biðstofunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Kvart og kvein

Vika svefnleysis, stresskasta og almennrar óánægju er að renna upp. Í fyrsta skipti í sögu háskólagöngu minnar, sem er enn frekar stutt verður að viðurkennast, er ég formlega að drukkna. Ég reyni þó að halda sjálfsvorkunn minni í lágmarki þar sem um sjálfskaparvíti er að ræða. Mér var nær að vera að drekka bjór alla daga og kúra hjá einhverjum krakkaskratta í stað þess að læra. Maður uppsker eins og maður sáir og allt það. Það er þó huggun harmi gegn að ég er tiltörulega skýr í kollinum þannig að ef ég finn mér tíma til að setjast niður og skrifa allar þessar ritgerðir og verkefni sem framundan eru þá ætti mér að takast að fá ásættanlegar einkunnir fyrir þau. Ég hafði reyndar sett stefnuna á stórkostlegan árangur fyrir veturinn en skítsæmilegt verður víst að duga.

Mér liði mun betur með þetta allt saman ef að ég væri ekki að fara að passa einhverjar útlendinga á launum um helgina. Einhvern veginn fóru skyldur mínar við útlendingana úr því að kynna þeim næturlíf landans eitt kvöld yfir í að sækja þau á flugvöllinn, fara út á lífið og drífa þau svo í Bláa Lónið á sunnudag. Ég ætti kannski ekki að kvarta yfir því að fá borgað fyrir að djamma og fara í Bláa Lónið en þetta passar einkar illa inn í skipulagið. Og svo er ég ekkert alltof hress með að bera bumbuna fyrir framan horrenglu frá London og að öllum líkindum aðlaðandi maka hennar. Ég vona að hún verði með bólu á nefinu og hann með skalla.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Vugl og ritleysa

Ég ætla ekki einu sinni að reyna að skilja þetta. Á að skila verkefni í Alþjóðastjórnmálum á miðvikudag og í vinnulaginu á föstudag og þarf að beina allri minni orku að því. Ætlaði að hitta BéBéSéarann í kvöld en hann er örugglega að vinna úr atburðum dagsins og verður ekki hleypt á barrölt í kvöld. Kannski eins gott bara.

Ég tók fregnum af kreppu alvarlega og eldaði gamlar kartöflur í kvöldmatinn í stað þess að henda þeim. Kartöflurnar héldu lífi í Írum, þær hljóta að geta haldið lífi í einum skitnum Íslendingi. Ég held ég þurfi að endurskoða fyrirhuguð plön um heimsókn í bankann á morgun til þess að ræða um útfærslu á framfærsluláni vegna námslána. Ég verð svo aftur að endurskoða stöðu mína sem námsmaður ef að þetta framfærslulánsdæmi verður eitthvað vesen.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Að gefnu tilefni…

…vil ég benda á það að færslan hér fyrir neðan eru 485 orð sem er tæpur helmingurinn af ritgerð sem ég þarf að skrifa í einu námskeiðinu mínu sem má ekki fara yfir 1500 orð með forsíðu og öllu. Ég skrifaði færsluna hér fyrir neðan á tæpum klukkutíma en eftir tveggja daga setu fyrir framan tölvuskjáinn eru tæplega 400 orð komin á blað og þau vilja ekki verða fleiri. Af hverju ætli það sé?

Ég ætla að hitta ringlaða Spánverjann í kaffi á sunnudaginn með einhverjum vinum hans. Ég samþykkti aldrei að gerast íslenskukennari enda hef ég engin réttindi í það. Ég sé það mjög myndrænt fyrir mér hvernig þessi kaffihúsaferð á eftir að fara en í hausnum á mér eru hann og vinir hann stóreygir ljósbláir fuglar sem horfa opinmynntir á mig og bíða eftir að ég segi eitthvað stórkostlegt. Líklegar þykir mér þó að ég segi eitthvað asnalegt og ekki við hæfi eins og svo oft vill verða. Ég þarf að biðja einhvern að greina þetta með fuglana.

Ó, já, alveg rétt. Ég á tvo boðsmiða á opnunarhátið RIFF á morgun ef einhver vill koma með.

Þessi færsla eru 194 orð að þessari málsgrein meðtaldri.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl

Rússibanareið í alþjóðastjórnmálum

Ég plantaði mér aftast í stofunni og tók eftir að taskan mín titraði eins og að lítill jarðskjálfti ætti upptök sín í henni miðri.  Ekki voru þetta þó jarðhræringar heldur var síminn minn á silent og einhver var að reyna að hringja í mig. Ég þekkti ekki númerið og hjartað í mér tók kipp. Kannski hafði einhver fundið veskið mitt og vildi nú ná í mig eftir að hafa leitað að mér eins og óður alla helgina. Kennarinn malaði upp á töflu um alls kyns isma sem allir blönduðust saman í eitt. Skyldi allt vera enn í veskinu?

Númerið birtist aftur á skjánum í kjölfar titrings og aftur náði ég ekki að svara. Mayday mayday, heilinn slökkti á móttakaranum og nú heyrði ég ekki einu sinni malið. Einhver hafði sett kennarann á silent. Ég starði á símann og óskaði þess í huganum að bjargvætturinn á hinni línunni myndi ekki lenda í bílslysi eða vera gleyptur af svartholi áður en að ég kæmist í pásu.

Kennarinn hætti að lokum að ismast uppi í púlti og ég hljóp á klikk klakk hælunum út úr stofunni og felldi næstum samnemanda minn í hamaganginum. Taugaóstyrk valdi ég númerið og beið eftir svari.  Hello, hello.. who is this? No, no. I was not calling anybody, I’m just at work here and my phone was in my pocket. Útlendingurinn á hinum endanum skildi ekkert hvaða kona var að hringja í hann og saka hann um að hafa hringt í sig. Who is this? spurði hann aftur og pirruð á skilningsleysinu svaraði ég: Who are you?

Þegar að blóðþrýstingurinn var kominn í eðlilegt horf og við útlendingurinn vorum búin að henda nokkrum Who is this? fram og tilbaka komst ég að því að þetta var einhver aumingjans Spánverji sem hafði fengið númerið mitt um daginn eftir að ég hafði lofað að hitta hann í kaffibolla og tala við hann íslensku. Ég var efst í símaskránni hans og hann gleymdi að setja lás á lyklaborðið. Ég reyndi að útskýra að ég hefði týnt veskinu mínu og að ég hefði haldið að hann hefði hringt í mig þess vegna. Your wallet, spurði hann ringlaður í röddinni, why would I have your wallet?

Það er skemmst frá því að segja að ég er ennþá veskislaus og alls laus og þar með talið formlega alveg laus við glóðuraugað. Ég hef ákveðið að taka því svo að þessi tilefnislausa geðshræring vegna óþekkts númers í missed calls skránni minni sé sönnun þess að ég hafi enn óbilandi trú á mannkynið.  Útlendingurinn lofaði að hringja aftur fljótlega vegna kaffibollans.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

iPod örfærsla: Nynemaferd

Ekki byrjar thad vel. Alvarlega thenkjandi háskólastúdínan sem ekki les Perez Hilton drakk ca. 7 bjórum of mikid í nynemaferdinni, kyssti eitthvad barn thjakad af samviskubiti yfir ad vera halda framhjá mögulegri framtídarkærustu og gerdi svo allt vitlaust á Hressó med thví ad hafa of margar skodanir. Ég ætti ad hafa áhyggjur ordspori mínu og heidri en lífid er of stutt. Ég verd aldrei thingkona eda pólitíkus hvort ed er svo ég má hafa allt thad óhreina mjöl í pokahorninu sem kemst thar fyrir. Ég sem ætladi samt ad vera svo kúl á thví. Núna er ég gamla konan sem vard of full og hössladi krakkann!

4 athugasemdir

Filed under Hitt kynið

Vangaveltur

Stundum vildi ég að ég ætti risastórt strokleður og gæti bara strokað út ákveðna hluti út úr lífssögunni minni. Byrja upp á nýtt með hreinan skjöld og hreint hjarta. Ó ef að lífið væri bara teikniblokk.

Annars er það helst að frétta að ég fór í fyrsta tímann minn í Háskólanum í dag.  Mér finnst svo óendanlega skrítið að vera loksins komin á þennan stað eftir allan barninginn. Að sækja um stúdentakortið, fá aðgang að Uglunni og mega nota Uni.Iceland networkið á Facebook. Smámunir í augum annarra, stórsigur í mínu lífi. Ég velti fyrir mér hversu lengi nýjabrumið endist og ég verð farin að bölva verkefnaskilum og ósanngjörnum kennurum. Eða á maður að kalla þá prófessora? Er ekki komin inn í tungutak gamalreyndra háskólanema ennþá. Er víst í námskeiðum en ekki áföngum eins og ég segi alltaf.

Kannski að ég verði alvarlega þenkjandi ung kona núna og hætti að lesa Perez Hilton.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl

Háskóli Íslands

Háskólinn hefur samþykkt umsókn þína um skólavist. Umsóknin tekur gildi við greiðslu skrásetningargjalds innan þeirra tímamarka sem fram koma á greiðsluseðli.

Ég vissi alveg að umsóknin mín yrði samþykkt en það er samt gott að hafa þetta skjalfest.

4 athugasemdir

Filed under Almennt röfl