Tag Archives: kjólar

Það er runnið á mig æði

Ég á við vandamál að stríða. Þetta vandamál er tiltörulega nýtt af nálinni í sögulegum skilningi og telst líklega seint alvarlegt í hnattrænu tilliti þrátt fyrir augljós umhverfisáhrif. Engu að síður verð ég að horfast í augu við sjálfa mig og leita mér einhvers konar hjálpar. Fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann og það hyggst ég gera hér og nú. Ég er fatasjúk!

Ég var lengi vel ósmekkleg í alla staði. Gekk með sjálfprjónaða húfu allan 7.bekkinn þar sem ég faldi sítt faxið í einum bendli og þurfti því aldrei að greiða mér. Síðan varð ég aðeins eldri og fékk þá flugu í hausinn að golftreyjur af karlmönnum sem voru miklu stærri en ég væru málið. Þær voru það augljóslega ekki og ég átti í sérstökum vandræðum með eina sem náði mér langleiðina niður á hné og olli mér eilífum vandræðum þegar að ég þvoði mér um hendurnar sökum ótrúlegrar ermasíddar. Ég átti líka gott tímabil í skærbleikum krumpugalla sem var með saumsprettu yfir bossan endilangan og ekki voru allar peysurnar sem langamma keypti á mig í heldri konu versluninni Glugganum mikið skárri. Það er því ekki að undra að þegar að ég fór að þéna mína hýru sjálf og áttaði mig á því að það voru til búðir þar sem allt var ekki prjónað eða með gylltum hnöppum að ég missti mig örlítið í gleðinni.

Í dag er ég minna ósmekkleg þó svo að óþarflega stór rassinn geri mér stundum erfitt fyrir í fatavali. Hillurnar í fataskápnum svigna undan marglitum kræsingum og skópörin flæða um öll gólf. Sama hversu oft ég þeytist með fatagjafir í rauðakrossinn virðist skápurinn minn alltaf fyllast jafnóðum aftur. Þessa dagana hef ég sérstakt dálæti á kjólum og nota hvert tækifæri til að kaupa mér nýtt meistarastykki. Ég virðist þó gleyma því stundum að mér gefst ekki oft tækifæri á að nota fínu kjólana mína og þess vegna hanga að minnsta kosti tveir þeirra ónotaðir með miðunum á og öllu inni í yfirfullum fataskápnum. Ég leit á þessa miða í gærkveldi og komst að því að annar kjólinn er 100% silki. Það er til marks um kaupæði á háu stigi þegar að maður kaupir silkikjóla í útlandinu án þess svo mikið að taka eftir því. Silki er fullorðins.

Ég held svei mér þá að ég verði að reyna að koma mér í mjúkin hjá einhverjum bankaplebbum sem súpa freyðivín í minimalískum glerbyggingum við hvert tækifæri. Nú eða halda mitt eigið standandi kokteilboð þar sem þess er krafist af gestum að þeir mæti í sínu fínasta pússi svo ég geti notað mitt. Mig langar bara að vera í kjól. Alltaf.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl