Tag Archives: lærdómur

Kvart og kvein

Vika svefnleysis, stresskasta og almennrar óánægju er að renna upp. Í fyrsta skipti í sögu háskólagöngu minnar, sem er enn frekar stutt verður að viðurkennast, er ég formlega að drukkna. Ég reyni þó að halda sjálfsvorkunn minni í lágmarki þar sem um sjálfskaparvíti er að ræða. Mér var nær að vera að drekka bjór alla daga og kúra hjá einhverjum krakkaskratta í stað þess að læra. Maður uppsker eins og maður sáir og allt það. Það er þó huggun harmi gegn að ég er tiltörulega skýr í kollinum þannig að ef ég finn mér tíma til að setjast niður og skrifa allar þessar ritgerðir og verkefni sem framundan eru þá ætti mér að takast að fá ásættanlegar einkunnir fyrir þau. Ég hafði reyndar sett stefnuna á stórkostlegan árangur fyrir veturinn en skítsæmilegt verður víst að duga.

Mér liði mun betur með þetta allt saman ef að ég væri ekki að fara að passa einhverjar útlendinga á launum um helgina. Einhvern veginn fóru skyldur mínar við útlendingana úr því að kynna þeim næturlíf landans eitt kvöld yfir í að sækja þau á flugvöllinn, fara út á lífið og drífa þau svo í Bláa Lónið á sunnudag. Ég ætti kannski ekki að kvarta yfir því að fá borgað fyrir að djamma og fara í Bláa Lónið en þetta passar einkar illa inn í skipulagið. Og svo er ég ekkert alltof hress með að bera bumbuna fyrir framan horrenglu frá London og að öllum líkindum aðlaðandi maka hennar. Ég vona að hún verði með bólu á nefinu og hann með skalla.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl