Tag Archives: lappahár

Hárraunir Taka 2

Ég hélt kannski að Weet kaldir vaxstrimlar væru málið en eftir að hafa rætt málið við stúlkurnar í vinnunni hef ég komist að því að svo er ekki. Þetta er víst vont, maður verður ekki silkimjúkur og maður brosir ekki eins og konurnar í auglýsingunni.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Hárraunir

Í kvöld endurnýjaði ég kynnin við gamlan fjanda þegar ég dró fram háreyðingagræjuna Tætarann. Nafnið Tætarinn lætur þetta pastellitaða plast drasl hljóma eins og eitthvað tryllitæki, sem það er ekki, en það er réttnefni þar sem tækið tætir hárin af löppunum á manni upp með rótum. Þetta á að virka jafn vel og vax sem þýðir færri ofurlangar og vandræðalegar sturtuferðir þar sem rassinn rekst óvart í blöndunartækin þegar þú ert í óða önn að skafa skankana með þeim afleiðingum að þú færð kalda bunu á bakið og rekur upp öskur sem heyrist alla leið til Keflavíkur.

Ég ákvað að leggjast í tilraunastarfsemi og kanna hvort það sé í rauninni betra að beita þessari sársaukafullu aðferð við að losna við loðna leggi og notaði græjuna á aðra löppina. Því næst hugðist ég fara í sturtu og raka hina löppina og sjá svo til hvor fótleggurinn yrði fyrr loðinn á ný. Það má vel vera að þessi tilraun hefði leitt það til lykta að tæt sé betra en rakstur hvað hárvöxt varðar en ég hugsa að mér verði alveg sama um útkomuna því nú er aumingjans löppin rauðflekkótt eins og hún hafi lent í sýrubruna og sviðinn ætlar að drepa mig. Þá held ég að það sé nú skárra að vera með brodda en að sitja uppi með þetta helvíti. Ó ó og æ.

Ég skil stundum ekki hvað við kvenmenn leggjum á okkur til að styggja ekki steggina. Það er ekki eins og þessir strumpar geri neitt fyrir okkur í staðinn. Þeir fara út á djammið með stubba í andlitinu og veigra sér svo ekki við að kyssa konu og aðra og skija þær eftir í skítnum með svöðusár í kringum munninn. Svo byrjar þetta að flagna mörgum dögum seinna og þær verða að útskýra í vinnunni af hverju hakan á þeim lítur út fyrir að hafa lent í slag við sandpappír. Nei, steggirnir eiga það ekki skilið að ung og falleg kona eins og ég standi í heimatilbúnum pyntingum til að ganga í augun á þeim. Tætarinn hefur svo sannarlega sungið sitt síðasta.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið