Tag Archives: lukkutröll

Mowgli

Spænskættaði Fransmaðurinn frá Madrid er orðinn að hálfgerðu húsgagni á Tjarnargötunni. Hann kom og fór og kom aftur en nú er stefnan tekin á að hann yfirgefi borgina á ný í fyrramálið. Eins og áður hafa tveir dagar orðið að fjórum og er hann síðasti sófasörfari sumarsins. Að honum ólöstuðum þá bara höndla ég ekki meira í bili.

Ég tók eftir því þegar að hann kom að hann er með töluvert myndarlegt ör í andlitinu sem vakti forvitni mína. Í gærkvöldi spurði ég hann hvernig hann hefði fengið það og hann sagði að ég myndi ekki trúa því þótt hann segði mér það. Ég bað hann um að láta reyna á það og þá sagði hann mér frá því hvernig úlfur réðst á hann þegar að hann var smástrákur í einhvers konar fjölskylduferð í Pýreneafjöllunum. Úlfurinn læsti víst kjaftinum í kinnina á honum en honum og vini hans tókst að hræða úlfana tvo sem höfðu nálgast þá burtu með eldi.  Þetta er myndarlegur strákur en aðdráttaraflið jókst  tilfinnanlega þegar að úlfaörið kom til sögunnar. Eitthvað villimanslega karlmannlegt við að hafa barist við úlf.  Ég ráðlegg hér með  öllum þeim karlmönnum sem eru með ör í andliti að búa til góða úlfasögu til að útskýra örið. Þeir munu ekki eiga í vandræðum með að ná sér í kvenfólk eftir það.

Annars langar mig að segja frá því að Lukkutröllsverkefnið, sem sumir hafa heyrt af, er farið af stað. Trölli hefur fengið nafnið Timothy G. Troll en G stendur að sjálfsögðu fyrir Good-Luck. Á hann eftir að fara í tvær ferðir með mér áður en hann leggur í hann af fullri alvöru og verðum við að vona að heppnin verði með honum og okkur og að hann fái að heimsækja áhugaverða staði um heiminn. Síðan hans er enn á frumstigi en þetta er allt að koma.

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið, Sófasörf