Tag Archives: Montreal

Pælingar

Helgin kom og fór. Fór þrisvar út að borða, tvisvar var það mjög gott og í eitt skiptið lala. Alltaf sat ég þó í góðum félagsskap sem skiptir jafnmiklu ef ekki meira máli en maturinn. Sérstaklega þegar að reikningurinn er borgaður af öðrum.

Ég er að renna á rassinn með ritgerð sem ég á að skila á miðvikudaginn. Klukkan er farin að ganga 11 á mánudagskvöldi og ég er ekki búin að skrifa einn staf á blað. Sem er ekki gott.  Læt mig dreyma um bakpokaferðalög og skemmtilegheit sem tengjast þessum skóla ekki neitt og held ekki einbeitingunni lengur en í tvær mínútur. Ég er þó í fríi allan morgundaginn og verð bara að hrista þetta fram úr erminni þá og taka afleiðingunum.

Hitti strák í gær frá LA sem sagði mér frá 6 mánaða puttaferðalagi sem hann fór í um Bandaríkin þegar að hann var 19 ára, á kúpunni og nýsloppinn úr fangelsi. Hann svaf á götunni eða hvar sem hann fann sér skjól og betlaði peninga með því að syngja og spila tónlist. Hann uppgötvaði sjálfan sig sem tónlistarmann á þessu ferðalagi og dreymir um að geta lifað af því og hefur að því virðist náð tökum á lífinu á ný. Á meðan byggir hann sviðsmyndir fyrir kvikmyndir og tónlistarmyndbönd  og reynir að ferðast eins og hann getur. Hann fékk að gista á sófanum í nótt og deildi með mér tónlistinni sinni og sögum af sjálfum sér. Stundum finnst mér eins og ég hafi lifað og prófað eitt og annað en svo hitti ég fólk sem er bara búið að gera svo miklu meira að mér finnst ég vera hálfgerð sveitakona í samanburðinum. Að sjálfsögðu eins og von er og vísa er margt sem hann hefur prófað sem ég hef lítinn áhuga á eins og eiturlyfjaneysla og seta í fangelsi en samt finnst mér stundum eins og eitthvað vanti upp á hjá sjálfri mér. Ég er einhvern veginn mitt á milli þess að vera ógeðslega hvítur millistéttar plebbi og semi hippi og bóhem. Ekki nógu kúl til þess að vera alveg í seinni flokknum og ekki nógu ferköntuð til þess að vera í þeim fyrri. Og ekki búin að finna sjálfa mig.

Ég hitti mikið af svipuðum týpum í Montréal þar sem ég lenti í eftirpartý hjá gaur sem er atvinnu brettagaur og þekkti alla í kanadísku indie senunni. Ég var sú eina í því partýi sem ekki var á einhvers konar dópi og þótti um margt undarleg þegar að ég afþakkaði pent kókaínið sem mér var boðið af mikilli gestrisni húsráðanda. Ólíkt því sem ég hef upplifað hérna heima þegar að ég hef óvart lent í svona partýum þar sem allt flæðir í dópi þá virti fólk þó ákvörðun mína og reyndi að tína til annað til þess að bjóða mér. Ég fékk bæði te og bjór en enga sneið um að vera leiðinleg eða ferköntuð.

Ég held að ég sé að reyna að segja að ef að maður gleymir eigin fordómum um hitt og þetta þá kemst maður að því að allir hafa eitthvað fram að færa. Hvort sem að viðkomandi er ástralskur læknanemi, bandarískur tónlistarmaður, kanadískur kókhaus eða týndur íslenskur nemi þá eigum við öll meira sameiginlegt en við gerum okkur oft grein fyrir. Maður á ekki að loka á fólk af því að það lifir ekki eftir sömu reglum og maður sjálfur. Manneskjan sem við höfum að geyma hefur ekki endilega neitt með það að gera hvaða líf við kjósum eða lendum í því að lifa.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Sófasörf

Montréal

Færðu inn athugasemd

Filed under Ferðalög

Kanada

Ég er núna í Toronto eftir að hafa eytt yndislegum tíma í Montréal með nýjum vinum og gömlum. Ég sit í Lobby-inu á rándýra hótelinu sem ég er að gista á (frítt auðvitað, myndi ALDREI borga fyrir þetta sjálf) og fylgist með töskuberum burðast með annara manna farangur á gylltum vögnum sem renna mjúklega eftir bónuðu marmaragólfinu. Toronto hefur ekki sama sjarma og Montréal en búðirnar eru góðar og gærkvöldinu eyddi ég á frægasta pöbb borgarinnar þar sem boðið er upp á lifandi tónlist alla daga vikunar og hljómsveitir eins og Rolling Stones dúkka stundum upp á svið án þess að tilkynna komu sína og spila frí gigg. Ég hefði auðveldlega geta eytt fleiri dögum í Montréal en er samt glöð að hafa dröslast hingað í rútunni því hér er líka gott að vera. Ég tilkynni það hér með að ég ELSKA Kanada!

Meira síðar þegar að ég er ekki á leiðinni út á djammið á Miðvikudegi með hressu fólki sem ég þekki sama og ekkert.

Ein athugasemd

Filed under Ferðalög

Frá London til Montreal

Í morgun vaknaði ég enn hálfpirruð eftir að hafa talað við spænska kjánann sem ég var einu sinni skotin í og er að reyna að gleyma á msn í gærkvöldi. Við ætlum að hittast í London í næstu viku og fara saman á tónlistarhátíð þar sem meirihlutin af böndunum gætu flokkast sem árás á saklaus eyru þeirra sem eru neyddir til að hlýða á. Þetta er allt saman eitthvað svo mikið vesen fyrir utan það að sofa í tjaldi og drekka bjór með einhverjum sem maður var einu sinni skotinn í og er að reyna að gleyma er bara ávísun á vandræði. Til að bæta gráu ofan á svart ætlum við að eyða síðusta daginum í London með Ástralanum sem ég var að hitta (lesist: kyssa) á meðan ég var að lúlla hjá fyrrnefndum Spánverja sem seinna urðu svo vinir eftir að hafa hisst heima hjá mér ein áramótin. Það má vera að ég sé tepra en mér finnst þetta þríeyki sjúkt. Ég kom mér þó í þetta sjálf og skal dúsa í pytti lauslæti míns eins lengi og við öll höfum geð á að vera vinir.

Aftur að morgninum. Ég sá auglýsingu í Fréttablaðinu um ódýr fargjöld til Montreal í Kanada eftir tvær vikur og áður en ég gat hugsað mig nógu lengi um til að uppgötva hversu ótrúlega asnaleg hugmynd þetta væri var ég búin að kaupa miðann. Klukkutíma seinna var ég búin að hafa samband við kunningjakonu mína í Toronto, kaupa rútumiða þangað og fá frí í vinnunni. Ég er enn að reyna að fara yfir atburði dagsins og hef enn ekki komist að því hvernig ég fór úr því að vera pirruð yfir í Englandsför yfir í að vera að fara til Kanada. Þetta kallar maður, að ég held, að vera hvatvís.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Ferðalög, Hitt kynið