Tag Archives: Næsti Bar

Gamlir kallar

Ég er með fordóma gagnvart gömlum köllum. Sérstaklega gömlum köllum á djamminu. Gamall kall á djamminu er í mínum huga ekki úti að skemmta sér eða að lyfta sér upp með vinum sínum heldur er hann á veiðum og er bráðin ungar stelpur. Þess vegna gaf ég gamla kallinum sem brosti til mína á Næsta Bar á föstudaginn, þegar að ég skaust þar inn til þess að nota salernið, illt auga. In your dreams hreytti ég í hann og hann horfði á mig í forundran þar sem ég strunsaði fram hjá.

Siðar um kvöldið voru strákarnir sem ég var með búnir að ná sér í tvær sjúskaðar beyglur sem otuðu bústnum brjóstunum framan í þá. Ég stóð eins og illa gerður hlutur við barinn og þar sem ég var pínu lítið pirruð yfir því að hafa ílengst á Næsta Bar ákvað ég að taka það út á gamla kallinum sem sat enn við barinn og nú með vin sinn sér við hlið. Hann brosti varfærnislega til mín og ég brosti tilbaka. Þú ert bara gamall kall sagði ég illkvittnislega og hann brosti áfram. Mér fannst hann sýna mikið jafnaðargeð þar til kom upp úr dúrnum að hann var frá Barcelona og skildi ekki stakt orð í íslensku og varla mikið meira í ensku.

Ég endaði á að spjalla heilmikið við þá kumpána og reyndust þeir hinir hressustu. Þeir áttu ekki orð yfir fegurð og þokka undirritaðrar og hældu mér fyrir bjagaða spænskuna. Áður en ég yfirgaf þá fékk ég e-mail hjá öðrum þeirra og lofaði hátíðlega að hafa samband ef ég kæmi einhvern tíma til Barcelona.

Maður á víst ekki að dæma bókina af kápunni, jafnvel þótt hún sé rykug og slitin hér og þar.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl