Tag Archives: Ný lífssýn

Hugleiðing

Þegar að ég ákvað að byrja að blogga aftur, eftir ótrúlega lélega mánaðar pásu, þá var ætlunin alls ekki að detta ofan í það sama gamla að ræða í þaula ástarlíf mitt eða vöntun á því. Ég hafði hugsað mér að vera háfleyg og alvarleg í dillandi ljóðrænum stíl og ræða um andans menn og málefni. Því síður ætlaði ég að tileinka bloggið einhverju manni sem ég þekki lítið sem ekkert og átti sér einskis ills von þegar að hormónablandaði hvítvínskokteilinn hoppaði á hann eins og tík á lóðaríi. En svona gerist þetta bara stundum, maður hefur engan hemil á bloggskrímslinu sem æðir bara í þær áttir sem því sýnist hverju sinni.

Staðreyndin er þó sú að kynni mín af manninum sem bloggið er ekki tileinkað voru bara þannig að þau opnuðu augu mín fyrir ótal hlutum. Hann veit að sjálfsögðu ekkert um það að ég skuli vera að velta mér svona mikið upp úr hverju smáatriði sem okkur fór á milli. Ég held að hann geri sér heldur ekkert endilega grein fyrir því hversu sæl og ánægð ég var þegar að ég fékk sms frá útlandinu í gærdag sem innihéldu ótal kossa til mín frá honum. Ég var með fiðrildi í maganum og axlirnar herptust saman þar sem ég sat og brosti allan hringinn. Ekki af því að ég sé svo skotin í honum eða að ég haldi að þetta hafi verið meira en það sem það var heldur einmitt af því að það var bara akkúrat sem það var: ljúft og þægilegt.

Sænski sófasörfarinn sem deildi herberginu mínu með okkur eina nóttina, 19 ára alvarlega þenkjandi flicka frá Stokkhólmi, kallaði hann heimskan brimbrettagæja. Heimskur var hann nú ekki en hann var ekki mikið gefinn fyrir bækur, vann verkamannavinnu, stefndi ekki á háskólanám og var ekki manna bestur í stafsetningu. Hann virtist samt fullkomlega hamingjusamur með þann stað sem hann er á í lífinu og sænska ungpían var sammála mér um það að í því lægi aðdráttarafl hans. Eftir kyrfilega sálgreiningu á kauða held ég að hann sé svona gaur sem leggur áherslu á að gera hlutina með hjartanu frekar en höfðinu. Ég á hinn bóginn geri allt með höfuðið við stjórnvölinn og leyfi hjartanu aldrei að hlaupa frjálsu. Þess vegna held ég að hann sé hamingjusamur á meðan að ég flögra um eins og fluga í flösku.

Ég held að þegar að á öllu er á botnin hvolft þá sé ég komin að krossgötum í lífinu. Eitthvað innra með mér er að breytast og þess vegna hefur fólk svona mikil áhrif á mig óafvitandi. Ég soga að mér visku annarra eins og svampur við eldhúsvask og reyni eftir fremsta megni að tileinka mér það besta. Árangurinn verður svo bara að koma í ljós síðar. Á meðan horfi ég dreymnum augum fram fyrir mig og glotti í hvert skipti sem ég man eftir andfætlingnum góða.

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið, Sófasörf

Óvænt heimsókn frá Nýja Sjálandi

Ég er nú búin að eyða tæpum þremur sólarhringum með rauðhærða, skemmtilega ófríða, nýsjálenska skeitaranum sem ætlaði upphaflega bara að fá að gista hjá mér eina nótt. Einhvern veginn atvikaðist það, nokkrum klukkustundum eftir að við kynntumst, að okkur var fleygt öfugum út með skömm af skemmtistað einum hér í bæ . Sökin sem á okkur var borin: óhóflegt kelerí. Gamla ég hefði haft áhyggjur af þessu ódannaða framferði um aldir alda en hin nýja kona sem fæddist eftir útskrift hefur ákveðið að láta sem ekkert sé. Kenna undarlegri blöndu af áfengi og hormónum um ósiðsamlegt athæfið.

Nýsjálendingurinn hefur síðan reynst hinn ágætasti piltur og höfum við átt góðar stundir saman. Það hefur þó valdið örlitlum vandkvæðum að maðurinn, sem bætir upp vöntun á formfegurð í andliti með stæltum útlimum og heitum húðflúrum, gengur hálfnakinn um húsakynnin í tíma og ótíma að því er virðist. Hormónarnir stýra augunum og þekkja orðið hverja freknu á sólbrúnum líkamanum og með hverju nýju atriði sem hann deilir með mér um líf sitt  reynist mér erfiðara að horfa ekki á hann girndaraugum svo að hann taki eftir. Ekki er útséð með lengd dvalarinnar en á meðan að á henni stendur nýt ég þægilegrar nærveru hans og krúttlega skakka brossins.

Ef lífið er til þess að læra af því tek ég frá þessari stuttu sambúð með Nýsjálendingnum hvað lífið getur verið einfalt ef að maður þróar með sér rétta viðhorfið til þess.  Óafvitandi hefur hann kennt mér lífslexíur sem ég gleymi vonandi aldrei. Merkilegt hvað það gerir biturri konu gott að hafa einn svona brosandi brimbrettakappa á sófanum í nokkra daga.

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið, Sófasörf