Tag Archives: Reykjavík

Sveitamennska

Eins mikið og ég kann að meta íslenska ríkisfangið mitt þá finnst mér stundum óttalega erfitt að vera fædd og uppalin á þessu skeri. Þegar ég var yngri fóru mamma og pabbi stundum með mig á eðalbúllur eins og Tommaborgara og Svörtu pönnuna en þar fékk maður hamborgara, franskar og bleika og kók með.  Pizza var hátíðarmatur og miklu oftar en ekki sat maður heima við eldhúsborðið að pína ofan í sig ýsu með tómatsósu eða steikta lifur. Þegar að ég fór að ferðast ein komst ég fljótt að því að það voru alls kyns kræsingar í boði fyrir utan landsteinana sem höfðu aldrei ratað á diskinn minn hér. Eins og sönnum Íslendingi sæmir hélt ég þó fast í hefðirnar og snerti ekki á neinu sem ég ekki þekkti og fékk svo harðfisk og annað góðgæti sent í pósti frá Íslandi. Þannig atvikaðist það til dæmis að ég borðaði franskar og hrísgrjón til skiptis í hálft ár þegar að ég var 19 ára að skottast í Englandi. Reyndar fékk ég stundum skrítinn mat hjá kínversku fjölskyldunni sem ættleiddi mig á Spáni en ég setti fótinn niður þegar ég átti að fara að borða snigla og skelfisk sem var ennþá sprelllifandi. Það var ekki fyrr en ég endaði óvart ein í Króatíu og gisti hjá Mömmu Maríu í Dubrovnik að ég fór að prófa annað en hamborgara og pizzur á ferðalögum. Hún tróð í mig undarlegum króatískum hversdagsmat á meðan hún dásamaði fertugan son sinn sem hún vildi að ég giftist og mér til mikillar furðu lifði ég það af. Ég giftist þó ekki syni hennar þrátt fyrir að kunna að meta skjaldbökuræktina hans í garðinum og hamstrana í baðkarinu.

Löngu seinna, þegar að ég var búin að kynnast fólki sem var bæði eldra og heimsvanara en ég, komst ég upp á lagið með að vera opin fyrir öllu og panta bara eitthvað ef ég skil ekki matseðilinn. Mér líður samt alltaf betur ef ég er með einhverjum kunnugum eins og pakistanska vini mínum í London sem er duglegur að draga mig á nýja staði og kanadísku stelpuna sem kynnti mig fyrir afgönskum mat í Montréal. Mér líður alltaf svolítið eins og kjána þegar að þessir erlendu vinir mínir ræða hvað þeir eigi að fá sér en er orðin ansi góð í að feika það og biðja fólk um mæla með einhverju sérstöku á matseðlinum sem er gott á hverjum stað. Ég kenni snauðri matarmenningu á Íslandi um þennan vandræðagang minn og vildi að úr meiru væri að moða hér svo að hægt væri að kynna sér þetta betur. Hvar eru líbönsku og eþíópísku staðirnir í Reykjavík? Nú eða bara Sushi sem þú þarft ekki að selja úr þér nýra til að hafa efni á?

Oh, við erum svo sveitó.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl, Ferðalög