Tag Archives: RIFF

Tim O’Horton’s hears a who

Kvartað var undan bloggleysi höfundar og er þessi færsla tilraun til að bæta úr því. Ég vil þó koma því að framfæri að ég tel ekki að þeir sem sjálfir vanrækja sínar eigin bloggsíður hafi atkvæðarétt þegar að kemur að tíðni færslna annars staðar. Höfundur hefur þó löngum talist sérlega greiðvirkinn og sáttarfús einstaklingur og hefur því ákveðið að bregðast við ákorun þeirri er birtist í athugasemd við síðustu færslu.

Ég og spænski skiptineminn ,sem ég á að vera innan handar í vetur, ákváðum að bregða okkur af bæ í gærkvöld og nýta fríu klippikortin sem ég fékk á RIFF. Myndin sem varð fyrir valinu var opnunarmyndin O’Horten sem kemur frá minnst uppáhaldslandinu mínu í heiminum, Noregi. Oslóarpésinn, sem er í stuttri heimsókn á Íslandi með kærastann og tengdafjölskylduna, sagði mér að þessi mynd hefði fengið dræma dóma í heimalandinu og því hélt ég af stað með engar væntingar í farteskinu. Myndin kom þó skemmtilega á óvart og mæli ég hiklaust með henni. Húmorinn, sem minnti mig um margt á hina áreynslulausu kímni sem einkenndi mynd Zach Braff: Garden State, var dásamlegur og mér fannst myndartakan heppnast einstaklega vel. Veldig bra!

Titillinn O’Horten minnir mig á Tim Hortons sem er fræg kanadísk kaffihúsakeðja nefnd eftir íshokkíleikmanni sem stofnaði fyrirtækið að mig minnir. Tim Hortons hefur verið hornsteinn í kanadískri menningu um árabil og fékk ég ekki að yfirgefa Toronto fyrr en ég var búin að prófa að borða morgunmat þar og drekka kaffi. Það kaldhæðnislega er þó að fyrir nokkrum árum keypti erkióvinurinn leyfið og er Tim Hortons nú í eigu Bandaríkjamanna. Það er svona eins og ef Brennivín væri framleitt í Danmörku. Tim Hortons er á hverju horni í Toronto, tvisvar á sumum hornum, og í hvert skipti sem ég las á skiltin þeirra þegar að ég gekk um borgina heyrði ég „hears a who“ óma einhvers staðar aftan í höfðinu á mér.

Annars er það að frétta að Spánverjinn, ekki sá sami og skiptineminn, sveik mig um kaffiboðið og hefur ekki látið í sér heyra . Ritgerðin stendur svo í 300 orðum þar sem ég strokaði út hluta af því sem ég hafði skrifað og tókst mér því að færast aftur um helgina í stað þess að klára eins og stóð til. Já og fégræðgi mín (lesist: fátækt sökum þess að engin hefur skilað veskinu mínu) varð til þess að ég þarf að vakna klukkan hálf sex í fyrramálið til þess að rúnta með strætó og telja farþega. Einn, tveir, ZZZzzzz……

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl

Að gefnu tilefni…

…vil ég benda á það að færslan hér fyrir neðan eru 485 orð sem er tæpur helmingurinn af ritgerð sem ég þarf að skrifa í einu námskeiðinu mínu sem má ekki fara yfir 1500 orð með forsíðu og öllu. Ég skrifaði færsluna hér fyrir neðan á tæpum klukkutíma en eftir tveggja daga setu fyrir framan tölvuskjáinn eru tæplega 400 orð komin á blað og þau vilja ekki verða fleiri. Af hverju ætli það sé?

Ég ætla að hitta ringlaða Spánverjann í kaffi á sunnudaginn með einhverjum vinum hans. Ég samþykkti aldrei að gerast íslenskukennari enda hef ég engin réttindi í það. Ég sé það mjög myndrænt fyrir mér hvernig þessi kaffihúsaferð á eftir að fara en í hausnum á mér eru hann og vinir hann stóreygir ljósbláir fuglar sem horfa opinmynntir á mig og bíða eftir að ég segi eitthvað stórkostlegt. Líklegar þykir mér þó að ég segi eitthvað asnalegt og ekki við hæfi eins og svo oft vill verða. Ég þarf að biðja einhvern að greina þetta með fuglana.

Ó, já, alveg rétt. Ég á tvo boðsmiða á opnunarhátið RIFF á morgun ef einhver vill koma með.

Þessi færsla eru 194 orð að þessari málsgrein meðtaldri.

2 athugasemdir

Filed under Almennt röfl