Tag Archives: ritgerðir

Tjarnargötufréttabréfið 1.tbl. 1árg.

Ég þjáist af ritstíflu. Það er ekki nóg með að ég sé komin með ógeð af skriftum eftir fáránlega ritgerðatörn í nóvember, og síðustu ritgerðina sem ég á að skila á morgun og er að reyna að berja saman í þessum töluðu orðum, heldur er ég uppurin af hugmyndum og sniðugheitum. Það er ekki vottur af húmor eftir í hláturtaugunum og þeir ömurlegu brandarar sem ég reyni þó að koma frá mér brotlenda harkalega áður en þeir ná til viðtakanda. Ég er leiðinleg!

Annars er það helst að frétta að mér hefur mögulega tekist að falla í fyrsta skipti í háskólaprófi. Vissi ekki að ég hefði þetta í mér, sérstaklega ekki eftir að hafa setið í 6 daga sveitt við lestur. Ég hef hingað til látið mér nægja að læra dag eða tvo fyrir próf og hef þannig fleytt mér áfram. Glósað þetta helsta og vonað það besta. En alþjóðastjórnmálakennarinn  ákvað bara að nú væri tími til kominn að kenna mér hvar Davíð keypti ölið og mætti galvösk á prófdag með svínslegasta próf sem ég hef séð í áraraðir. Því fleiri dagar sem líða frá þessu ágæta prófi, því sannfærðari verð ég um eigin heimsku. Hef þó ákveðið að taka á þessu með stóískri ró og mun þá bara taka upptökupróf í janúar ef illa fer. Það grátlega er að þetta er eina fagið sem ég hafði einhvern metnað í og ég mætti í hvern einasta tíma, sem er meira en ég get sagt um hin námskeiðin (hóst). Það er huggun harmi gegn að ég hef ekki heyrt af neinum sem gekk vel í þessu prófi. Ég er í það minnsta bara jafnheimsk og hinir.

Já og svo er ég að hitta gaur. Hann er ekki útlenskur, ekki lítill og ekki hálfviti. Eiginlega bara alveg fáránlega almennilegur. Einhverra hluta vegna þá er hann líka agalega skotinn í mér. Klárlega gengur hann ekki heill til skógar.

4 athugasemdir

Filed under Almennt röfl, Hitt kynið