Tag Archives: Sá franski

Stórar öldur í sörfinu þessa dagana

Andfætlingurinn af óræða asíska upprunanum er horfinn á braut eftir að hafa verið hjá mér í 5 nætur í stað þeirra tveggja sem um var samið í upphafi. Ég er að komast að því að ef að ég mun einhvern tíma lenda í vandræðum með sörfara sem sest upp á mig og neitar að fara að ég mun örugglega ekki eiga nein ráð til að losna við viðkomandi. Fólk einhvern veginn fer bara ekkert en enn sem komið er hefur mér þótt gaman að hafa þá í kringum mig sem hafa ílengst hjá mér.

Í gær hélt ég svo uppteknum hætti og tók á móti Frakka sem á ítalska móður og spænskan föður en býr um þessar mundir í höfuðstað Spánarveldis. Foreldrar hans kynntust í Frakklandi og töluðu aldrei annað en frönsku hvort við annað og börnin svo það eina sem hann tók með sér úr þessum ráðahag er útlitið sem ekki getur talist týpískt fyrir neitt af þessum löndum en svipar þó til þeirra alla.  Ég er farin að velta því fyrir mér hvort það sé eitthvað fólk eftir í þessum heimi sem á rætur sínar að rekja til einhverrar einnar þjóðar því allir sem koma til mín virðast vera undarlegur hrærigrautur af hinum ýmsu menningarheimum.

Ég tók andfætlinginn með mér í partý í síðustu viku sem endaði í vitleysu á Kaffibarnum með fólki alls staðar að. Partýið fór fram á bát í Reykjavíkurhöfn en þar varð ég fyrir því skemmtilega óhappi að á mig skeit fugl sem sveimaði yfir gleðskapnum. Ég sannaði þó hið fornkveðna að þess háttar uppákomur séu til lukku þegar að ég vann rómantíska gistingu fyrir tvo á hóteli á Mývatni í happadrætti seinna um kvöldið. Ég á þó engan rómantískan félaga til þess að taka með mér og konan sem ég ætlaði að taka með mér fann sér kærasta á Kaffibarnum svo að þau geta bara átt sína rómantík í friði og fá ekki að koma með mér á Mývatn.  Á Kaffibarnum fékk ég svo ástarjátningu frá Nepala á stærð við hnefa og furðaði ég mig enn einu sinni á því hvaða áhrif þessi tröllskessa hefur á stærðarhefta menn.

Í grófum dráttum er gaman að vera ég þessa dagana og hrærigrautsliðið leikur stórt hlutverk í gleðinni.

Færðu inn athugasemd

Filed under Sófasörf