Tag Archives: sá hálfi

Endurlit

Með fimmta Viking bjórinn í hendinni og með þann hálfa í óða önn að snapa sér tvo til viðbótar í veganesti út í nóttina, gaf gamall kennari mér fimm fyrir að hafa loksins klárað stúdentinn. Það var miðvikudagur, við vorum staddar í bransa-partý, klukkan rétt að slá í tólf á miðnætti og við eilítið kenndar. Þessi kona sem hafði kennt mér einhvers konar umhverfisfræðslu hafði söðlað um og var nú lægra sett í nýjum virðingastiga þar sem ég hafði forskot í formi reynslu. Við ræddum lítillega hvað biði mín í haust og hvernig hún þénaði meira nú en áður sem kennari. Að skilnaði sagði hún hlæjandi Sjáumst örugglega í Hámu í vetur og ég kinkaði brosandi kolli.

Það var eflaust rétt sem mér fannst þessar síðustu tvær annir í skólanum: Ég átti meira sameiginlegt með kennurunum en samnemendum mínum. Það er líklega merki um elli.

Ein athugasemd

Filed under Almennt röfl

Tyrkjarán

Sófasörfararnir koma og fara. Hálfi Tyrkinn hélt af stað til Amsterdam og í staðinn fékk ég tvær tyrkneskar stelpur sem eru á ferð um Norðurlöndin til þess að flýja hita heimalandsins. Þær eru ósköp indælar en lítið spennandi og hef ég ekki lagt mig í lima við að eyða tíma með þeim eins og þeim hálfa. Stóreygar sitja þær og fylgjast með mér eins og ég sé búskmaður í Afríku á lendarskýlu og lepja upp hvert orð sem fellur af vörum mér. Við tölum ekki saman heldur skiptumst við á orðum eins og körfuboltaspjöldum. Kannski finnst þessum stúlkum, sem búa enn í foreldrahúsum og munu gera þar til að þær fá bónorð frá manni sem fjölskyldan samþykkir, undarlegt að hitta frjálslega Íslendinga eins og mig. Opin, hreinskilin og ókurteis á köflum ligg ég ekki á skoðunum mínum og býð ókunnugum mönnum upp í rúm til mín. Það var reyndar bara í nokkra klukkutíma áður en sá hálfi tók flugrútuna út á völl en þær voru á sófanum og við hálfi of þreytt til að finna út úr því hvar hann gæti sofið. Við hálfi hlógum og pískruðum inn í nóttina og kvöddumst með loforði um að halda sambandi. Ég efast um að lofa þessum stúlkum því sama.

Færðu inn athugasemd

Filed under Sófasörf

Með hrjótandi sætalíus á sófanum

Hjá mér er staddur um þessar mundir ungur maður frá ríkinu stóra í vestri. Móðir unga mannsins er múslimi frá Tyrklandi, faðir hans hindúi frá Indlandi. Einhvern vegin komu þau saman og eignuðust börn og buru. Ég verð alltaf hálföfundsjúk þegar að ég hitti fólk eins og þennan mann. Að vera hreinræktaður Íslendingur, eða því sem næst, er skelfilega lítilfjörlegt í samanburði við að eiga foreldra frá jafnólíkum menningarheimum og hann. Fjölskyldan fluttist til Tyrklands svo að börnin kynntust menningu og tungumáli móður sinnar og sumrum eyddu þau í Indlandi með stórfjölskyldunni. Það kemur ekki á óvart að ungi maðurinn er sérlega geðþekkur, opinn og víðsýnn enda held ég að það sé nánast ómögulegt að alast upp í svona umhverfi og lifa lífinu með pappakassasýn.

Ekki spillir fyrir að þessi ungi maður er bráðhuggulegur. Það skiptir að sjálfsögðu litlu máli þegar að sófasörfarar eru annars vegar hvernig þeir líta út en því verður ekki neitað að það er aldrei verra að hafa eitthvað fallegt að horfa á. Honum er jafnvel fyrirgefnar hroturnar.

Sófasörfið er svo stórkostlegt tæki til þess að kynnast heiminum án þess að yfirgefa fjóra veggi heimilisins. Ólíkir einstaklingar koma saman til þess eins að hafa það gaman. Rímið var óviljandi.

Færðu inn athugasemd

Filed under Sófasörf