Tag Archives: sálufélagar

Af hjónaböndum og lottóspili

Ég er með margar og ákveðnar skoðanir á samskiptum kynjanna. Ég trúi ekki á ást við fyrstu sýn eða sálufélaga og tel að færa megi fyrir því góð rök að manninum sé ekki eðlislægt að finna sér maka fyrir lífstíð. Ég trúi heldur á hormóna, á það að vera á réttum stað á réttum tíma og sé í sjálfu sér ekkert rangt við það að eiga í nokkrum ástríðufullum en stuttum samböndum um ævina frekar einu steingeldu hagkvæmishjónabandi. Hjónabandið er í mínum huga úrelt stofnun en ástæðurnar fyrir því ætla ég ekki að tíunda hér. Að sjálfsögðu er ég fylgjandi því að fólk láti reyna á sambönd svo lengi sem báðir aðilar hafi áhuga á því og ef að aðilarnir geta lifað hamingjusamlega saman í sínu lífi þá er það hið besta mál. Ég er bara ekki endilega sammála þessu hjónabandskapphlaupi sem samtvinnast lífsgæðakapphlaupinu, þar sem það verður allt í einu ekki nóg að eiga bara góðan jeppa og 2.5 börn heldur er bráðnauðsynlegt að eyða milljón eða fimm í brúðkaup sem mun í tæplega 40% tilvika enda með lögskilnaði. Lífið er einfaldlega of stutt.

Hvað varðar sálufélagana þá held ég að við séum alltaf að hitta tilvonandi sálufélaga. Við hrífumst af margs konar fólki, mörgum í einu, og hver og einn hefur eitthvað sérstakt fram að færa sem gerir það að verkum að við veitum viðkomandi eftirtekt. Vinir manns eru nokkurs konar sálufélagar og vinasambönd endast oftar en ekki lengur en ástarsambönd. Ég held að það sé hægt að byggja ástarsamband með nánast hverjum sem er svo framarlega að þessi hrifning sé til staðar. Það hvort að sambandið þróist út í það að verða vinasamband eða ástarsamband ræðst eingöngu af aðstæðum og tímasetningu. Þegar að spilað er í lottó skiptir ekki máli hversu margar kúlurnar eru eða hvað númer er á hverri. Það sem skiptir máli er að þær raðist rétt saman á réttum tíma, þ.e. þegar að þú hefur keypt þér miða. Eins skiptir það máli hvernig þú og viðkomandi hittist og hvernig líf ykkar fléttast saman í framhaldinu. Þú þarf t að vera búinn að kaupa þér miða, vera tilbúinn, til að vinna.

Þar sem að það sem okkur þykir fallegt og eftirsóknarvert er að mestu lærð hegðun eru ekki allir sem fatta þennan sannleik. Ég held ég sé búin að fatta hann núna. Hvar ætli maður fái svona miða?

Færðu inn athugasemd

Filed under Hitt kynið