Tag Archives: símavesen

Rússibanareið í alþjóðastjórnmálum

Ég plantaði mér aftast í stofunni og tók eftir að taskan mín titraði eins og að lítill jarðskjálfti ætti upptök sín í henni miðri.  Ekki voru þetta þó jarðhræringar heldur var síminn minn á silent og einhver var að reyna að hringja í mig. Ég þekkti ekki númerið og hjartað í mér tók kipp. Kannski hafði einhver fundið veskið mitt og vildi nú ná í mig eftir að hafa leitað að mér eins og óður alla helgina. Kennarinn malaði upp á töflu um alls kyns isma sem allir blönduðust saman í eitt. Skyldi allt vera enn í veskinu?

Númerið birtist aftur á skjánum í kjölfar titrings og aftur náði ég ekki að svara. Mayday mayday, heilinn slökkti á móttakaranum og nú heyrði ég ekki einu sinni malið. Einhver hafði sett kennarann á silent. Ég starði á símann og óskaði þess í huganum að bjargvætturinn á hinni línunni myndi ekki lenda í bílslysi eða vera gleyptur af svartholi áður en að ég kæmist í pásu.

Kennarinn hætti að lokum að ismast uppi í púlti og ég hljóp á klikk klakk hælunum út úr stofunni og felldi næstum samnemanda minn í hamaganginum. Taugaóstyrk valdi ég númerið og beið eftir svari.  Hello, hello.. who is this? No, no. I was not calling anybody, I’m just at work here and my phone was in my pocket. Útlendingurinn á hinum endanum skildi ekkert hvaða kona var að hringja í hann og saka hann um að hafa hringt í sig. Who is this? spurði hann aftur og pirruð á skilningsleysinu svaraði ég: Who are you?

Þegar að blóðþrýstingurinn var kominn í eðlilegt horf og við útlendingurinn vorum búin að henda nokkrum Who is this? fram og tilbaka komst ég að því að þetta var einhver aumingjans Spánverji sem hafði fengið númerið mitt um daginn eftir að ég hafði lofað að hitta hann í kaffibolla og tala við hann íslensku. Ég var efst í símaskránni hans og hann gleymdi að setja lás á lyklaborðið. Ég reyndi að útskýra að ég hefði týnt veskinu mínu og að ég hefði haldið að hann hefði hringt í mig þess vegna. Your wallet, spurði hann ringlaður í röddinni, why would I have your wallet?

Það er skemmst frá því að segja að ég er ennþá veskislaus og alls laus og þar með talið formlega alveg laus við glóðuraugað. Ég hef ákveðið að taka því svo að þessi tilefnislausa geðshræring vegna óþekkts númers í missed calls skránni minni sé sönnun þess að ég hafi enn óbilandi trú á mannkynið.  Útlendingurinn lofaði að hringja aftur fljótlega vegna kaffibollans.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl