Tag Archives: stefnumót

Stefnumótasýki

Nýsjálendingurinn er horfinn á braut og það eina sem eymir eftir af honum á heimilinu eru nammibréf og skilaboð skrifuð á hvíta tússtöflu : Takk fyrir frábæra dvöl. Þú ert best!

Í gærkvöldi gengum við saman um miðbæinn og fengum okkur kaffi-tú-gó. Kvöldið var æðifagurt og við enduðum röltið á Arnarhóli þar sem við nutum drykkjanna og marglitaðs himinsins. Ef við hefðum verið á stefnumóti hefði það varla getað orðið mikið betra. Á sunnudaginn þrömmuðum við líka miðbæinn þveran og endilangan en meðal annars kíktum við í Perluna og virtum fyrir okkur útsýnið yfir borgina. Inni í kaffiteríunni sátu kappklæddir útlendingar og hámuðu í sig fokdýrar veitingarnar. Venjulega hefði ég fussað yfir goritexjakka-herdeildinni sem lætur taka sig í óæðri endann á öllum þessum ferðamannastöðum og borgar handlegg og fót fyrir eina skitna ískúlu. Þennan tiltekna sunnudag hugsaði ég þó aftur til stefnumótanna og fannst ískúla í Perlunni með eindæmum huggulegt.

Ég fann fyrir svipuðum kenndum í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Við fórum í lautarferð í Dyrehaven, drukkum Chai á götukaffihúsum og öl í upplýstu Tívolí og alltaf hugsaði ég með mér: Mikið eiga Danir nú mikið af álitlegum stöðum fyrir stefnumót.

Ég virðist sjá rómantík í öllu sem er skelfilega óheppilegt þegar að enginn er maðurinn til bjóða út. Óneitanlega má færa fyrir því rök að við Nýsjálendingurinn höfum verið að stíga í vænginn hvort við annað en skynsemin og augljósar landfræðilegar orsakir ollu því að við létum gott heita. Þetta er pínulítið eins og að vera ástsjúkur hvolpur á svæði þar sem hundar eru bannaðir.

Færðu inn athugasemd

Filed under Ferðalög, Hitt kynið