Tag Archives: stjórnmálafræði

Gáfumannarit

Ég komst yfir eintak af nýjasta Economist í dag þar sem að segir meðal annars í grein um vandamálin sem blasa við hagkerfum Austur-Evrópu: „WILL an ex-communist country be the next Iceland?“.  Ég veit ekki af hverju en mér finnst þetta afskaplega súrrealísk staða sem við erum búin að koma okkur í, hvort sem það var gert með hjálp hinna illu Breta og undirmálslána í Bandaríkjunum eða ekki. Ég ætla samt ekkert að ræða þetta frekar þar sem ég er a) ekki hagfræðingur og skil þetta mál alls ekki nógu vel og b) það eru allir orðnir dauðleiðir á að heyra um það. Hinsvegar get ég sagt ykkur að The Economist og Newsweek og svona blöð hafa verið uppáhalds fluglestrarefnið mitt núna til nokkurra ára. Það hefur eflaust skotið skökku við í augum margra þegar að ég var að bakpokaferðalagast um Suðaustur-Asíu á flipp flopp sandölum og Tæbuxum að í stað þess að lesa The Lonely Planet spjaldanna á milli á hinum ýmsu flugvöllum á ferðalaginu ,eins og samferðamenn mínir, sat ég oft og iðulega með þessi tímarit og býsnaðist yfir heimsmálunum. Reyndar varð mest af þeirri þekkingu sem ég aflaði mér á þessu ferðalagi eftir í Asíu þar sem ég drap heilasellurnar sem geymdu hinar nýju upplýsingar jafnóðum með óhóflegri bjórdrykkju.

Allavega! Þrátt fyrir góðan vilja af minni hálfu og alveg hreint ágætis enskukunnáttu þá skildi ég aldrei nema helminginn í sumum greinunum sem ég var að lesa. Ástæðan var alls kyns fagmál og skírskotun í atburði, stofnanir, menn og málefni sem ég kannaðist lítið sem ekkert við. Í dag hins vegar þá allt í einu tók ég eftir því að ég skildi mun meira en áður. Hlutir eins og Bretton Woods, IMF, IJC, The Bradley Effect og hvað þetta heitir allt saman voru allt í einu ekki bara undarleg uppröðun stafa sem hafði enga merkingu í hausnum á mér heldur gat ég tengt þetta við fyrirlestra sem ég hef setið og námsefnið í skólanum. Það var eins og nýr heimur hefði opnast fyrir mér og loksins fannst mér ég hafa lært eitthvað. Ég er mjög mikið búin að velkjast í vafa um hvort ég hafi valið rétta námið fyrir mig en ég skráði mig einmitt í stjórnmálafræði af því að ég vildi skilja meira. Ég er kannski ekki alveg 100% að finna mig í þessu en alltént skil ég örlítið meira en áður. Það ætti þó ekki að koma á óvart að alþjóðastjórnmálin er uppáhalds kúrsinn minn.

Annars voru nokkrar mjög áhugaverðar greinar í The Economist að þessu sinni. Til dæmis var grein um aðferðir sem Saudi Arabía hefur verið að beita gegn íslömskum hryðjuverkamönnum (sem er áhugavert þar sem Saudi er líklega það land sem er hvað strangtrúaðast í hinum íslamska heimi) og önnur um genatískar rannsóknir á samkynhneigð. Mæli með þessu ef að einhver þarf að fara til læknis og finnur þetta eintak á biðstofunni.

Færðu inn athugasemd

Filed under Almennt röfl